10.11.1980
Neðri deild: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Þetta eru orðnar miklar umræður um lítið mál. Sannleikurinn er sá, að þeim sætindum, sem hér er um fjallað, sælgæti og kexi, fylgir beiskur biti. Á bak við þetta mál er visst meginefni sem varð til þess að ég óskaði eftir að fá að tala í málinu. Erindi mitt í þennan ræðustól er einfaldlega að andmæla þeirri meginstefnu sem birtist á bak við þetta frv. Látið er í veðri vaka að frv. fjalli um aðgerðir til að greiða fyrir íslenskum iðnaði. Hvernig á að gera það? Það á að leggja sérstakt gjald á innflutning erlendrar vöru af sama tagi og fjallað er um, sælgæti og kex. Spurt var í umr., þegar þetta mál var seinast til umfjöllunar hér í hv. d., hvort tekjur af þessu gjaldi yrðu notaðar til að styrkja iðnaðinn beint, hvort þessar tekjur rynnu til iðnaðarins. Hafi ég skilið svar hæstv, fjmrh. rétt, þá taldi hann málefnum iðnaðar að þessu leyti vel borgið með því að gjaldið rynni einfaldlega í ríkissjóð, sem svo hugsaði vel til iðnaðar öðru hverju með ýmiss konar stuðningi. Svo var að skilja á máli hæstv. ráðh. það er út af fyrir sig allsérkennilegt, eins og málum ýmiss iðnaðar í landinu er komið eftir það alllanga tímabil sem liðið er síðan við gengum í Fríverslunarbandalag Evrópu. En það er ekki það sérstaklega sem ég vildi gera að aðalatriði máls míns, heldur hitt að grípa til aðgerða sem einungis varða eina afmarkaða grein iðnaðarins í landinu. Spurning er hvernig á að meta hvaða ein grein sé mikilvægari í þessu tilliti en önnur, hvort sjálf framleiðsluvaran sé mikilvægari hjá einni grein en annarri, eða jafnvel, eins og hv. 3. þm. Vestf. sagði hér áðan, getur sú grein boðið starfsmönnum sínum betri kjör af einhverjum ástæðum en aðrar greinar? Það er vissulega atriði sem máli skiptir.

Þegar Íslendingar urðu aðilar að EFTA eða Fríverslunarbandalagi Evrópu á sínum tíma, þá lá það fyrir af hálfu stjórnvalda, að íslenskum iðnaði yrði gefinn viss tími til aðlögunar að hinum nýju aðstæðum. Það tá einnig ljóst fyrir af hálfu iðnaðarins, að þessi tími skyldi nýttur til að skapa meiri framleiðni í iðnaðinum, þannig að betri vara yrði framleidd og helst með sem allra minnstum tilkostnaði.

Nú liggur það fyrir, sem margsinnis hefur komið fram, að þeir, sem iðnaðinum sinna í þessu landi, telja að ekki hafi verið eins vel staðið við skuldbindingar af hálfu ríkisins gagnvart þessari atvinnugrein og til stóð í upphafi. Það ber iðnaðurinn m.a. fyrir sig þegar skýrt er frá að sumar greinar hans standist ekki nógu vel við þær aðstæður sem skapast hafa eftir inngöngu í EFTA. Þess vegna hefur verið farið fram á ýmiss konar stuðningsaðgerðir á þessum tíma.

Að sjálfsögðu er ljóst að það ætti að vera iðnaðinum í landinu mikil hvatning, það ætti að vera, ef svo má segja, aðhald sem yrði lyftistöng að hafa við litið sér samkeppni af hálfu þeirra sem framleiða hinar bestu vörur á því sviði sem um er að ræða. Vissulega hefur það orðið svo á ýmsum sviðum. Ég tel þess vegna að það sé atvinnurekstrinum í landinu til góðs að hafa það viðskiptafrelsi, sem við höfum undirgengist, og að það sé eitt stærsta hagsmunamál neytenda í landinu. Það er sem sé um að ræða það meginefni, sem ekki varðar einungis atvinnureksturinn í landinu og er ekki einungis hagsmunamál iðnaðarins í landinu eða þeirra sem kaupsýslu stunda, heldur og neytendanna. Neytendurnir eiga að geta valið þá vöru sem þeir helst kjósa að kaupa, án þess að hið opinbera grípi til aðgerða til að reyna að hafa áhrif á þær neysluvenjur.

Ef leggja á eitthvert gjald á vörutegund eða landslýðinn til þess að greiða fyrir eða bæta stöðu atvinnugreinar í landinu, þá virðist mér það vera alveg ljóst, að slíkt gjald eigi að ganga til þess að efla þá atvinnugrein í heild sinni, en ekki nota þessa valkvæðu aðferð, ef svo má nefna það, sem kemur í ljós í þessu frv. Ég tel það einmitt til þess fallið að grafa undan heilbrigðum háttum á sviði viðskipta og atvinnulífs.

M.ö.o.: þær aðgerðir, sem ég tel að gætu verið verjanlegar og gengju að einhverju leyti gegn meginreglu EFTA-samningsins, eru þær, sem mögulegar væru innan þess samnings vegna tiltekins tímabundins eða staðbundins undantekningarástands, enda kæmu tekjur ríkisins af slíkum aðgerðum iðnaðinum í heild til góða og væru þá í beinu sambandi við afleiðingar af því að við urðum aðilar að EFTA-samningnum, en ekki eins og í frv., að farið sé í kringum hlutina, gengið gegn alþjóðasamningum, sem við erum aðilar að, til þess að afla skatta í ríkissjóð undir því yfirskini að verið sé að styðja einhverja tiltekna atvinnugrein.

Herra forseti. Ég taldi ástæðu til þess að láta fram koma rödd um þetta atriði frá sjónarmiði neytanda sem telur að hér sé fjallað um meginmál þó að málið sjálft láti lítið yfir sér.