05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3952 í B-deild Alþingistíðinda. (4009)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umr. sem hér eiga sér stað um lögregluríki eða ekki lögregluríki, en mig langar til að gera nokkra grein fyrir störfum þeirrar nefndar sem fékk það hlutverk að kanna rekstrar- og afurðalán í landbúnaði samkv. samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. sem hljóðar á þennan veg, með leyfi hæstv. forseta:

„Rekstrar- og afurðalánum verði breytt þannig að bændur geti fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar fá nú.“

Eftir marga fundi og viðræður við sérfróða menn á þessum sviðum komst nefndin að þeirri niðurstöðu í stuttu máli, að miðað við núverandi sölukerfi landbúnaðarafurða á Íslandi væri tæknilega ógerlegt að koma á beinum greiðslum til bænda. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. Eyjólfur Konráð getur fundið einhverja „patent“-lausn á þessu fyrir utan Skagafjörð, þá þætti mér vænt um að fá þá lausn í hendurnar. En ég held að ekki ómerkari menn en þeir — aðrir en ég kannske — sem sátu í nefndinni og hafa mikla þekkingu á þessum málum hafi komist að þeirri niðurstöðu sem efni stóðu til í þessu máli. Auk þess er, eins og hér var gert áðan, eðlilegt að vísa í álit þeirra banka sem leitað var til, þ, e. Búnaðarbanka Íslands, Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands, en niðurstaða allra þessara banka var á sama veg, eins og fram kemur í bréfi Seðlabanka Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess mætti hugsa sér aðra leið“ — þá er verið að tala um aðra leið á afurða- og rekstrarlánafyrirkomulaginu — „þ. e. bankar þeir, sem veita rekstrar- og afurðalán til bænda, tilkynntu þá bændum að þeim stæði til boða að taka lán sín sjálfir að uppfylltum þeim skilyrðum sem bankarnir settu upp, og stæði þá þeim bændum, sem þannig væri ástatt um, opið að taka lánið.“ Þetta er sú eina leið sem fær er miðað við núverandi sölukerfi í landbúnaði. Ég held að þessi niðurstaða nefndarinnar sé ákaflega rökrétt og að eins og sakir standa sé tómt mál að tala um beinar greiðslur til bænda.