05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3954 í B-deild Alþingistíðinda. (4013)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnarandstaðan og þjóðin horfir upp á það, að ríkisstj. ætlar ekki að framkvæma vilja Alþingis. Það er orðið nokkuð algengt upp á síðkastið og í sjálfu sér er það hætt að heyra til tíðinda. En ég hlýt að gera aths. við það, að einn af prófessorum Háskólans, Ólafur Ragnar Grímsson, skuli í gervi hins hv. alþm. Ólafs Ragnars Grímssonar hafa við orð hér í deild að einn af virtustu vísindamönnum þeirrar stofnunar, Jónatan Þórmundsson, láti panta hjá sér álitsgerðir um lögfræðileg efni hjá þd. Aðdróttun af þessu tagi að einum þekktasta lögmanni landsins er að sjálfsögðu mjög ámælisverð, jaðrar við að vera atvinnurógur og gersamlega óþolandi af manni sem sjálfur vinnur við Háskóla Íslands og ætti sem slíkur að reyna fremur en hitt að halda uppi virðingu þeirrar stofnunar. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá, að menn eins og þessi hv. þm. hafa á síðustu árum mjög dregið úr virðingu Háskólans með þjóðinni, og sú deild, sem hann hefur veitt forstöðu, þjóðfélagsfræðideildin, er alkunn að því að leggja ekki faglegt mat á þau viðfangsefni sem deildin fjallar um. Mörgu hefur þar verið logið og mörgu hefur þar verið ofaukið, sem fjallað hefur verið um í þeirri deild, og má af þeim sökum segja að ekki komi á óvart þó að hv. þm. sé í sjálfu sér í nöp við þá menn, þá prófessora Háskólans sem láta ekki persónulega hagsmuni sína hafa áhrif á þá fræðilegu umfjöllun sem þeim ber að ástunda sem lærimeistarar við þá virðulegu stofnun. (Forseti hringir.) Ég sé að hæstv. forseti er sennilega að áminna mig um óþinglegt orðbragð — eða er tíminn búinn? (Gripið fram í.) Það gleður mig, að ekkert af því, sem ég hef sagt, sé að mati forsetans óþinglegt orðbragð, og staðfestir það enn sannleiksgildi og þunga þeirra orða.