05.05.1981
Sameinað þing: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3956 í B-deild Alþingistíðinda. (4017)

268. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Menn metast mjög á um frammistöðu manna, forsrh. og annarra, á fundum. Út undan mér sá ég frammistöðu á fundi hjá vinnuveitendum í gær. Dagblaðið minnist ekki einu orði á þá frammistöðu. En ég þakka svarið frá hæstv. viðskrh. Hann álítur að framkvæmdavaldinu beri að fara að fyrirmælum hins háa Alþingis — og þótti engum mikið. En hann heldur því fram, að það beri að hlusta á athugasemdir banka. Nú skal ég kenna honum ráð til að ná þessu strax fram því að fordæmi höfum við nákvæmt í þessu efni.

Það var hér á árunum í stjórnartíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, að þá höfðu samtök útvegsmanna að vísu um langan aldur barist fyrir því, að aflaandvirðið yrði greitt af afurðalánunum, og þáv. ríkisstj. birti yfirlýsingu til samtakanna um það, að viðskiptabankarnir tækju að sér að annast greiðslu hráefnis andvirðis til fiskseljenda af nettóandvirði framleiðslulánanna. En þetta dugði ekki til. Og hlusti nú hæstv. viðskrh. nákvæmlega á. Viðskiptabankarnir álitu að þetta væri ekki framkvæmanlegt. Bankarnir höfðu skipanir um að framkvæma þessi fyrirmæli og þessi loforð, en hæstv. þáv. sjútvrh., Matthías Bjarnason, kallaði þá á sinn fund og fyrirskipaði þeim að framkvæma þetta. Og síðan var þetta gert með sérstöku bréfi sem ég hef hér afrit af frá Seðlabanka Íslands. Þetta er ekki annað en spurning um að þora að stjórna og láta ekki stjórnast af bankavaldi. Og ég verð að segja það, að af ýmsum ástæðum kemur mér það í opna skjöldu að hæstv. núv. viðskrh. skuli taka við slíkum — ekki vil ég segja fyrirmælum, heldur slíku áliti frá Seðlabankanum og gera það að sínu þegar þess er kannske allra síst von. Hér hefur hann sem sagt ráðið, þ. e. að fyrirskipa þetta. Og það liggur alveg ljóst fyrir, að framkvæmd þeirrar till., sem hér var samþykkt, fyrirmælanna frá hinu háa Alþingi, hefur ekki farið fram. Um það verður ekki deilt og duga engir útúrsnúningar í þessu sambandi. Eftir þessu verður gengið mjög harkalega ef menn, eins og ég segi, ætla að koma sér undan að fara að vilja hins háa Alþingis þrátt fyrir góð orð þar um.