05.05.1981
Sameinað þing: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (4051)

55. mál, opinber stefna í áfengismálum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég harma það hversu mjög vígtennurnar hafa verið dregnar úr þessari till., og ég verð að segja að sú hv. nefnd, sem um hana fjallaði, hefur kannske ekki náð að skynja og skilja þann megintilgang sem í þessari till. felst, þ. e. að ganga öllu lengra en sú áfengislöggjöf gerir sem nú er í gildi hér á landi. Mér er kunnugt um að þessi útgáfa var gerð til þess að sætta hugmyndir manna um hvernig þessi till. ætti að hljóða þegar hún kæmi fram í sölum hins háa Alþingis, og af þeim sökum hefur nú obbinn af þeim þáttum, sem þarna eru bornir fram og mættu heyra til nokkurra nýjunga, verið tekinn í burtu.

Ég mun hins vegar auðvitað ekki leggjast gegn till., eins og hún er nú komin frá nefnd, og fagna því þó að þetta skref hafi verið stigið. Hins vegar er það svo að þegar þessi mál koma til umr. hér á hinu háa Alþingi og í nefndum þingsins, þá er eins og menn veigri sér ávallt við því að taka á þessum málaflokki af einhverjum krafti og einhverju viti. Ég held að með þessu hafi till. verið veikt stórlega og sú krafa þingsins til ríkisvaldsins á hverjum tíma að taka á þessum málum af nokkurri hörku og um leið nokkurri skynsemi hafi að verulegu leyti orðið undir. Engu að síður er hér verið að móta opinbera stefnu í áfengismálum sem ekki hefur veitt af, og ég tel að till., eins og hún nú liggur fyrir, sé af hinu góða, þ. e. eðlilegt og gott að hún skuli þó koma frá nefnd. Ég vil þakka nefndinni fyrir það, þó svo að ég telji það ekki verulega stórmannlegt að skera hana niður við trog eins og hér hefur verið gert.

Þessi till., eins og hún lá fyrir frá hendi flm., hefur hlotið tiltölulega góð meðmæli flestra þeirra frjálslyndisafla sem um áfengismál fjalla hér á landi. Hefði ég þess vegna talið að nm. hv. allshn. hefðu getað flutt till. tiltölulega lítið breytta frá því sem hún var lögð fram í þinginu.

Það, sem hér gerist, er einfaldlega það, að hv. allshn. tekur úr till. fyrstu greinarnar, fyrstu grundvallaratriðin, en sleppir síðan þeim atriðum sem verulega miklu máli skipta og draga fram raunverulega þá þætti málsins sem flm. hefðu viljað að ríkisvaldið hefði tekið hvað mest tillit til. T. d. er mér ekki vel skiljanlegt að allshn. skyldi ekki treysta sér til að taka inn í þessa till. atriði eins og 3. liðinn, þar sem fjallað er um hvernig bæta megi og auka rannsóknir á áfengisvandamálinu og orsökum þess svo að hægt sé að gera sér grein fyrir umfangi vandans, orsökum og afleiðingum svo og hvernig áfengisvandamálið tengist öðrum félagslegum, fjárhagslegum og heilsufarslegum viðfangsefnum. Þetta er nákvæmlega það, sem öll læknastéttin í landinu hefur farið fram á að gert yrði. En hv. allshn. treystir sér ekki til að beina þessum tilmælum til ríkisvaldsins.

Ég vil einnig nefna 4. lið till. sem nefndin treystir sér ekki til þess að hafa með. Þar er fjallað um það, með hvaða hætti bæta megi þekkingu og þjálfun þeirra manna, sem afskipti hafa af slíkum málum, á áfengismálum og meðhöndlun ofneytenda áfengis. Þetta eru tilmæli til ríkisvaldsins um að auka menntun þeirra manna sem um þessa málaflokka fjalla. Að nefndin skyldi ekki geta haft þetta með er mér einnig óskiljanlegt.

Ég held, eins og ég sagði upphaflega, að úr þessari till. hafi auðvitað verið dregnar vígtennurnar að verulegu leyti, og ég harma að svo skuli hafa til tekist. En um leið verð ég að fagna því, að till. skyldi þó hafa fengið afgreiðslu í nefnd, og fyrir það vil ég þakka nm. Verði þeirra virðing meiri fyrir það að hafa komið henni frá sér, afgreitt hana, því að þetta er sannast sagna í fyrsta skipti í sögu þessarar þjóðar að gerð er tilraun til þess að móta opinbera stefnu í áfengismálum. Það er oft vitnað til þess, að við getum hallað okkur að þeirri áfengislöggjöf sem í gildi er í landinu, og í ýmsum umsögnum er um það fjallað. En sú áfengislöggjöf, sem í gildi er, nær bara ákaflega skammt. Hún nær ekki til þeirrar skyldu m. a. sem ríkisvaldinu hlýtur að vera lögð á herðar, einfaldlega vegna þess að það er ríkisvaldið sem selur áfengið, sem hefur tapið af sjúkleika mannanna, en hagnaðinn af sölu á því efni sem þeir verða sjúkir af.

Það er alveg augljóst að ríkisvaldið ber auðvitað gífurlega ábyrgð og því ber að axla þá ábyrgð sem af afleiðingum ofneyslu eða misnotkunar áfengis leiðir. Ég hefði gjarnan kosið að menn hefðu tekið nokkuð rösklegar á þessari till., en eins og ég sagði áðan, herra forseti, fagna ég því, að hún skuli koma hér fram, og vonast eindregið eftir að hún fái afgreiðslu á hinu háa Alþingi, vegna þess að öllum er fyrir löngu ljóst að hér er við eitthvert stærsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar að stríða og við, sem hér inni sitjum, verðum að gera svo vel að taka afstöðu í þessu máli. Þó svo að menn hafi misjafnar hugmyndir um það, hver vandinn er, af hvaða orsökum hann er, þá er vandinn engu að síður til og á honum ber að taka.

Að endingu, herra forseti, vona ég að þetta mál fái hér skjótan framgang þannig að það fái afgreiðslu fyrir þinglok. Er það í sjálfu sér talsverður sigur fyrir þetta þing. Og ég spái því, að þegar til lengdar lætur og í náinni framtíð muni kannske einhverjir minnast þessa þings, 1980–1981, fyrir það að hafa samþykkt till. um opinbera stefnumörkun í áfengismálum.