06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4036 í B-deild Alþingistíðinda. (4131)

315. mál, Bjargráðasjóður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Eins og öllum má vera ljóst er það frv., sem hér liggur fyrir, frv. til l. um ábyrgðarheimildir vegna lántöku Bjargráðasjóðs. Hér er ekki verið að fjalla um kjör eða reglur Bjargráðasjóðs út af fyrir sig og það er meginatriði að menn skilji þarna á milli. Hér er ekki verið að afgreiða lán eða það form fyrirgreiðslu sem ákveðið kann að verða hjá Bjargráðasjóði, heldur er einungis verið að afla lántökuheimildar til þess að Bjargráðasjóður geti veitt fyrirgreiðslu af einhverjum toga vegna þess tjóns sem varð aðfaranótt 17. febr. s. l. Þetta finnst mér vera grundvallaratriði sem menn þurfi að hafa hér í huga og átta sig á. Eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. áðan er það frv., sem hér liggur fyrir, að orðalagi til nákvæmlega eins og frv. sem var afgr. hér á Alþingi vorið 1980 og hafði verið flutt á Alþingi af fyrrv. hæstv. félmrh., Magnúsi H. Magnússyni, eftir áramótin 1980.

Varðandi kjörin á þessari fyrirgreiðslu Bjargráðasjóðs vil ég aðeins segja það, að viðræður milli mín og ríkisstj. annars vegar og hins vegar stjórnar Bjargráðasjóðs um þessi mál hafa ekki farið fram. Niðurstaða í þeim efnum liggur eins og sakir standa ekki fyrir. Það er einfaldlega vegna þess að ég hef ekki talið það tímabært meðan ekki lægi ljóst fyrir hvaða undirtektir kæmu fram á Alþingi við þá lánsfjárheimild sem hér er um að ræða. Þetta vildi ég að kæmi hér alveg skýrt fram af minni hálfu.