06.05.1981
Neðri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4037 í B-deild Alþingistíðinda. (4134)

315. mál, Bjargráðasjóður

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eins og aðrir þm. fagna ég því, að þetta frv. til laga skuli vera komið fram. Það er ljóst að fjöldi fólks varð fyrir mjög tilfinnanlegu tjóni aðfaranótt 17. febr. vegna þess veðurs sem þá gekk yfir, og það er bæði sjálfsagt og rétt að ríkissjóður eða ríkið veiti fyrirgreiðslu til að létta það tjóni sem þá átti sér stað. Það er eðlilegt að menn hafi látið í ljós hugmyndir sínar um með hvaða hætti þessi fyrirgreiðsla ætti sér stað. Mig langar þó til að stinga því inn í þessa umr., að mér finnst að eina ferðina enn hafi orðið vart mjög verulegs hugtakaruglings.

Menn tala um það, á hvaða kjörum lán eigi að vera. Orðið „lán“ þýðir það auðvitað á tungunni að verðmæti séu afhent til notkunar og þeim sé skilað aftur að svo og svo löngum tíma liðnum og þá sömu verðmætum og um er að ræða. Ef við erum að tala um lán er því ekki rétt notkun málsins að fara öðruvísi að en að lánið sé endurgreitt í sömu verðmætum og tekin voru að láni í upphafi. Það og það eitt er lán. Og lán er ekki lán nema það sé verðtryggt. Hitt er svo allt annað mál ef um styrki er að ræða. Ég tel, eins og t. d. hv. þm. Matthías Bjarnason, að hin rétta afgreiðsla á þessu máli verði sú, að að mestum hluta verði hér um lán að ræða, en þó geti einnig komið til greina að Bjargráðasjóður veiti styrki. En kjarni málsins er sá, að þarna þurfum við að gera skýran greinarmun á. Lán er sú upphæð sem greidd er til baka á fullu og réttu verði. Annað eru styrkir.

Það hefur einkennt um of efnahagsmálaumr. hér að minni hyggju undanfarin ár — þetta er auðvitað umr. sem menn þekkja í mörgum og margbreytilegum myndum — að röng notkun sé á orðinu „láni“. Það á auðvitað ekki síst við þegar verið er að veita fyrirgreiðslu eins og þá sem hér er um að ræða. Hér er um að ræða sjálfsagt mál og réttlætismál hið mesta, en það réttlætir ekki ranga notkun á hugtökum, eins og gengið hefur í gegnum þessa umr.