07.05.1981
Efri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (4160)

183. mál, kirkjubyggingasjóður

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um þetta mál og mælir með því að frv. verði samþ. Einn nm., Gunnar Thoroddsen, var fjarstaddur afgreiðslu málsins.

Hér er um að ræða frv. til l. um Kirkjubyggingasjóð. Kirkjubyggingasjóður var stofnaður með lögum nr. 43/1954, en þau lög hafa tvívegis sætt breytingum, þ. e. 1955 og 1962. Þessi sjóður hefur gegnt markverðu hlutverki og stuðlað mjög að kirkjubyggingum hér á landi þótt fjárskortur hafi jafnan bagað.

Í upphafi var gert ráð fyrir að Kirkjubyggingasjóður gæti veitt lán sem næmu 1/5 til 2/5 af byggingarkostnaði kirkna. Þetta hefur þó farið mjög á annan veg þar sem framlög ríkissjóðs til sjóðsins hafa lengstum numið að verðgildi miklu lægri fjárhæð en til var stofnað árið 1954 og síðar með lagabreytingu árið 1962. Samkv. lögunum frá 1954 skyldi lágmarksfjárhæð úr ríkissjóði vera 50 þús. kr., en sú fjárhæð var hækkuð í 1 millj. kr. árið 1962.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði að upphæð 600 þús. kr. Svarar það til að framreiknaðar séu upphæðir sem gert var ráð fyrir að sjóðurinn legði fram árið 1954 og svo með breytingu laganna árið 1962. Samkv. gildandi lögum nemur upphæðin núna 10 þús. nýkr. sem ber að leggja til Kirkjubyggingasjóðs, en frv. leggur til að þessi upphæð verði 600 þús. nýkr.

Auk þess eru í þessu frv. nokkrar breytingar frá fyrri lögum. Þar er m. a. það þýðingarmikla ákvæði, að gert er ráð fyrir að sú upphæð, sem ríkissjóður greiðir í Kirkjubyggingasjóð, sé verðtryggð þannig að hún breytist í samræmi við byggingarvísitölu.

Þá er gert ráð fyrir í frv. að sú breyting verði á stjórn Kirkjubyggingasjóðs, að hún skuli kosin af Kirkjuþingi, en ekki Synodus eins og er samkv. gildandi lögum. En þegar gildandi lög voru sett var Kirkjuþingi ekki fyrir að fara.

Enn er það nýmæli í þessu frv., að nú er gert ráð fyrir að lán, sem Kirkjubyggingasjóður veitir til kirkjubygginga, beri vexti, en þau hafa fram að þessu verið vaxtalaus.

Enn fremur má geta þess, að sú breyting er í frv., að gert er ráð fyrir að lán Kirkjubyggingasjóðs, sem verið hafa til 50 ára, verði til 40 ára.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta merka frv. En það má minna á að sums staðar í öðrum löndum, þar sem þjóðkirkja er eins og hér hjá okkur, stendur hið opinbera algerlega að kostnaði við kirkjubyggingar. Hér á landi hefur verið, eins og kunnugt er, almennur áhugi á kirkjubyggingum, einstaklingar og félagasamtök hafa lagt fram fé til þessara mála. Með tilliti til þess er ekki óeðlilegt að ríkið leggi sitt af mörkum.

Ég vil svo að lokum geta þess, að breytingar þær, sem hv. Nd. gerði á frv., eru einungis fólgnar í því að færa gamlar kr. til nýkr., auk þess sem sett voru eðlileg ákvæði um gildistöku laganna. Það er ekkert nema gott að segja um breytingar þeirra í Nd. og sýnir að þar neðra er lofsverður kirkjulegur áhugi.