07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4062 í B-deild Alþingistíðinda. (4173)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að þetta mál virðist ætla að fara í gegnum þingið á færibandi þó svo ýmsir þm. deildarinnar hafi á s. l. sumri gefið yfirlýsingar um að þeir mundu standa gegn málinu þegar til Alþingis kæmi. En við því er að búast að menn láti undan þrýstingi frá sínum flokkum og ráðherrum og rétti upp höndina með því sem þeir eru í hjarta sínu á móti þegar þannig stendur á. Maður man eftir suðurgöngum úr fornum sögum og ef menn hafa fengið aflausn synda sinna í eitt skipti fyrir öll á helgum stöðum, þá er ekki við því að búast að smáblettur sverti kannske mikið.

Í þessu frv. er svohljóðandi mgr., með leyfi hæstv. forseta: „Skattstjórar skulu fyrir 1. júní ár hvert ókeypis og ótilkvaddir gefa Framleiðsluráði upp, í því formi sem það ákveður, afurðamagn og bústofn á hverju lögbýli og hjá öðrum framteljendum, sem hafa meiri hluta tekna sinna af landbúnaði. Einnig er þeim skylt að veita aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru í þessu sambandi.“

Ég get ekki fellt mig við þvílíkt ákvæði í lögum og tel að það sé dæmalaust og að nauðsynlegt sé að gera úrslitatilraun til þess að þetta ákvæði falli niður. Ég held að ákvæði af þessu tagi eigi sér enga hliðstæðu, en maður er náttúrlega ýmsu vanur orðinn í því lögregluríki sem við erum farnir að búa í, og þetta frv. hefur að því leyti sérstöðu, eins og fram hefur komið, að hinir merkustu lagamenn hafa talið að hér jaðri við stjórnarskrárbrot, þar sem kveðið er á um það, að skattur sé lagður á þegnana eftir ákvörðun ráðh. og þannig um hnútana búið að ekki er einu sinni gert ráð fyrir að þessi skattheimta fari í gegnum fjárlög.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. landbrh., hvort hann muni standa þannig að þessum málum fyrir næstu fjárlagaafgreiðslu að gert verði ráð fyrir að fóðurbætisskatturinn fari inn og út úr fjárlögum. Ég vil enn fremur varpa þeirri spurningu til hæstv. landbrh., hvort hann sé enn sömu skoðunar og hann var á s. l. ári, að skattur þessi kæmi ekki að gagni nema hann kæmi fyrirvaralaust í bakið á mönnum, til þess að þeir gætu ekki „planað“ á vondu máli búskap sinn til langs tíma, gert áætlun um tekjur og gjöld fram í tímann. Þetta er raunar í fyrsta skipti sem ég heyri svo komist að orði, að skattheimtan komi ekki að haldi nema hún sé ákveðin með brbl., en það var nánast það sem hæstv. landbrh. sagði á s. l. sumri um leið og hann lét þess getið, að það væri úrhendis ef Alþingi hefði gefið heimildir til fóðurbætisskattsins áður en þm. fóru heim á því vori.

Ég vil leggja til, herra forseti, að þau orð, sem ég vitnaði til áðan og snerta skattstjórana, falli niður og óska eftir því, að leitað verði heimildar til að þessi brtt. megi verða tekin fyrir.