08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4157 í B-deild Alþingistíðinda. (4291)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hefði getað fallið frá orðinu vegna þess að í ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar kom fram það sjónarmið sem ég vildi hafa orð á. Ég held að það sé ekki eðlilegt að tefja þetta mál meira en nú þegar er orðið, því að það hafa verið óeðlilegar tafir á því hér í deildinni. Menn hafa gengið á það lagið að biðja endalaust um fresti og reynt að láta tímann líða. Hæstv. sjútvrh. er búinn að vera hér viðstaddur á fjöldamörgum fundum þegar þetta mál hefur verið á dagskrá, og einstakir þm. hafa stöðugt beðið um að fá frest á málinu. Ég vil hafa orð á því, að hæstv. viðskrh. fer með málefni, sem mundu tilheyra sjútvrh., meðan sjútvrh. er í opinberri heimsókn í Bretlandi og hæstv. sjútvrh. verður ekki kominn á mánudaginn kemur, heimsókninni er ekki lokið þá, kemur ekki fyrr en einhvern tíma um miðja viku. Ég sé ekki ástæðu til annars en þessi umr. geti hafist. Ég minnist ekki þess, að hv. þm. Karvel Pálmason, þegar hann í gær fékk málinu frestað, orðaði það nokkurn skapaðan hlut að hann óskaði eftir að því yrði frestað um tvo daga.