11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi, hv. 3. landsk. þm., hefur lesið fsp. svo að ég rifja þær ekki upp. Svarið við fyrri spurningu er þetta:

Endanleg hönnun nýrrar flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli, þar með taldar allar teikningar, verklýsingar, efnislýsingar, kostnaðaráætlanir o.s.frv., mun væntanlega liggja fyrir um næstu mánaðamót. Hefur henni heldur seinkað frá því sem gert var ráð fyrir. Samþykki ríkisstj. að ráðast í byggingu nýrrar flugstöðvar gætu verkframkvæmdir við bygginguna hafist í maí eða júní á næsta ári og væntanlega lokið síðari hluta árs 1983, ef ekki stendur á fjármagni. Það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að fjár til þessarar framkvæmdar væri aflað með lántöku. Ég leyfi mér annars í þessu sambandi að vísa til prentaðrar skýrslu fyrrv. utanrrh. sem lögð var fyrir Alþingi í okt. 1979.

Svar við síðari fsp. er þetta:

Ríkisstj. hefur ekki tekið afstöðu til byggingar nýrra eldsneytisgeyma fyrir varnarliðið í Helguvík, sem sumir vilja reyndar kalla Helgavík. Ég hef gefið ríkisstj. skýrslu um málið og hún hefur fengið í hendur álit eldsneytisgeymanefndar. Það álit hafa einnig utanríkismálanefndarmenn fengið. Málið hefur ekki verið rætt síðan í ríkisstj. Fjárveitingar til þessa verkefnis munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir næstu áramót. Þá verður hægt að fara að vinna að hönnun. Mál þetta verður því ekki ákvörðunarefni fyrr en á næsta ári. Verkframkvæmdir geta, ef til kemur, hafist vorið 1983. Ákvörðunarvald um byggingu eldsneytisgeyma er, eins og um aðrar framkvæmdir varnarliðsins, í höndum utanrrh. En vitaskuld er ekkert því til fyrirstöðu að málið sé rætt á ríkisstjórnarfundi.