15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4446 í B-deild Alþingistíðinda. (4504)

250. mál, siglingalög

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um breytingu á siglingalögum sem fjórir alþm. hafa flutt, einn úr hverjum stjórnmálaflokki. Umsagnir bárust frá siglingamálastjóra, frá Samábyrgð Íslands, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Landhelgisgæslunni, Slysavarnafélagi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.

Það má segja að allar þessar umsagnir áttu það sameiginlegt, að þær tóku jákvætt á till:, mæltu misjafnlega sterklega með henni, en allir aðilarnir töldu að það væri nauðsynlegt að samræma og endurskoða ákvæði ýmissa þeirra laga er að siglingum og björgun lúta.

Að athuguðu þessu máli í nefndinni á nokkrum fundum var nefndin sammála um að mæla með því að till. yrði samþ. með einni smávægilegri breytingu. Hana er að finna á þskj. 797 og er hún þannig, með leyfi forseta:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna hvort þörf sé breytinga á þeim ákvæðum siglingalaga, sem lúta að björgun skipa og skipshafna, með það að markmiði, að skipstjórnarmenn þurfi aldrei að veigra sér við kostnaðarins vegna að biðja um þá aðstoð, sem þeim sýnist að mestu gagni mætti koma í hverju tilviki.“