15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4453 í B-deild Alþingistíðinda. (4507)

388. mál, utanríkismál 1981

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá fróðlegu og ítarlegu skýrslu sem hann hefur lagt hér fram. Hins vegar vil ég harma að rétt þykir að taka þessa skýrslu til umr. nú eða halda þeirri umr. áfram, sem hófst hér s. l. mánudag og stóð ekki mjög lengi, — nú þegar næstum er komið miðnætti, ákaflega fáir þm. í húsinu, að því er virðist vera, og aðeins einn eða tveir ráðh. viðstaddir — að vísu hæstv. utanrrh. að sjálfsögðu og svo er félmrh. nýkominn í salinn. Ég held satt best að segja að þessi mikilvægi málaflokkur verðskuldi aðra meðferð en að vera ræddur hér þegar svo fátt hv. þm. er viðstatt.

Ástæða væri e. t. v. til að víkja að ýmsum atriðum í þessari skýrslu, en ég mun þó aðeins fjalla um fátt eitt vegna þess að í stórum dráttum, að því er varðar utanríkisstefnuna og varnarsamstarf, er ég sammála því sem hæstv. utanrrh. segir í skýrslu sinni. Hins vegar langar mig til að beina þeirri spurningu til hans, hvort í ríkisstj. hafi verið fjallað um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni sem vikið er að á bls. 20 í skýrslunni, en þar segir, með leyfi forseta: „Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um það, hvort Ísland skuli gerast aðili að stofnuninni.“ — Nú fýsir mig að vita hvort um þessi mál hafi verið fjallað á hinum síðustu dögum í ríkisstj., þar sem ég hef ásamt fleiri þm. flutt hér till. um að ríkisstj. verði falið að gera ráðstafanir til þess að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni.

Þegar þessi skýrsla kom hér til umr. s. l. mánudag flutti hæstv. félmrh. langa ræðu. Ég get ekki tekið undir það sem hann sagði, nema eitt atriði langar mig til að taka undir sem hæstv. félmrh. minntist á. Hann taldi að í þessa skýrslu vantaði greinargerð um starfsemi Íslenskra aðalverktaka. Þetta tek ég undir. Þetta stóra fyrirtæki hefur að verulegu leyti einokunaraðstöðu til framkvæmda á Kaflavíkurflugvelli og þetta fyrirtæki er sérstætt fyrir ýmissa hluta sakir. Rekstur þess virðist ganga ótrúlega vel, ef aðeins er lítið á fjárfestingu þess hér í Reykjavík. Mér fyndist ekki óeðlilegt að í skýrslu um utanríkismál og varnarmál væru þessu fyrirtæki gerð nokkur skil. Vona ég að hæstv. utanrrh. taki það til athugunar eigi hann eftir að leggja fleiri skýrslur af þessu tagi fyrir þingið.

Ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs í þessum umr., er kannske fyrst og fremst sú ræða sem hæstv. félmrh. flutti á mánudaginn var. Það verður að segja eins og er, að hann varði meginhluta eða mjög verulegum hluta af tíma sínum í að rifja upp 30–40 ára gamla sögu. Það ver auðvitað hver tíma sínum svo sem honum þykir henta hér í ræðustól, en fátt nýtt held ég að hafi komið fram í þessum lestri ráðh., sem mér raunar þótti ekki merkilegur. Hins vegar hlýtur það náttúrlega að vera mönnum sífellt umhugsunarefni hér, að Alþb. skuli nú enn einu sinni taka þátt í ríkisstj. sem hefur lýst yfir að hún muni fylgja óbreyttri stefnu í varnarmálum, það verði „status quo,“ eins og hæstv. félmrh. sagði orðrétt þegar hann flutti ræðu sína hér. Þetta hlýtur að vera mönnum umhugsunarefni og raunar er aldeilis furðulegt hvernig Alþb. getur setið í ríkisstj. þar sem það er ósammála stefnunni í grundvallarmálefnaflokki þar sem eru utanríkismál. Staðreyndin er sjálfsagt sú, að Alþb. hefur gert það upp við sig að það sé því hagfelldara að vera í ríkisstj. og nota þau völd og þau áhrif, sem flokkurinn þannig öðlast, þó svo það kosti fórnir á þessu sviði, þó svo það kosti það, að í fjórðu ríkisstj. síðan 1956 svíkur Alþb. þá stuðningsmenn sína sem vilja varnarliðið burt úr landinu. Það virðist vera að þeir nýju herrar, sem nú ráða ríkjum í Alþb., hafi gert þetta dæmi upp við sig kalt og yfirvegað og komist að þeirri niðurstöðu að þau áhrif og völd og möguleikinn á að raða sínu fólki inn í kerfisbásana, eins og þeir hafa raunar óspart gert, sé svo mikils virði að fyrir það sé fórnandi utanríkisstefnu flokksins. A. m. k. held ég að erfitt sé að túlka afstöðu þeirra og hegðun öðru vísi en í þessa veru.

Hæstv. félmrh. sagði í upphafi ræðu sinnar að hann ætlaði ekki á þessu stigi málsins að svara ýmsum atriðum sem fram komu í ræðu Benedikts Gröndals, fyrrv. utanrrh., sem talaði hér og vék ýmsum orðum að Alþb. Hæstv. félmrh. svarar þessum ummælum sjálfsagt hér á eftir. Hann hlýtur að standa við þau orð sín. (Félmrh.: Hvar er Benedikt?) Hann var hér fyrr í kvöld, hv. þm. Benedikt Gröndal. Ég get ekki svarað því, hvar hann er niður kominn núna. Menn eru ekki hér í þingsölum öllum stundum, ekki frekar hann en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem ég hef ekki séð hér í þingsölum nokkra undanfarna daga. (ÓRG: Ég hafði fjarvistarleyfi, hv. þm., þann dag. Hefur Benedikt Gröndal fjarvistarleyfi?) Ég get ekki svarað því. Það er forseta að svara því. En fjarvistir manna geta verið af ýmsum toga, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sjálfsagt veit. Menn geta verið fjarverandi þó að þeir þurfi ekki að fara til útlanda.

Hæstv. félmrh. talaði hér mikið um að forráðamenn þeirra flokka, eins og hann orðaði það, þ, e. lýðræðisflokkanna, sem svo eru jafnan nefndir, yrðu að gera sér grein fyrir því, hve mikið fylgi væri við þá stefnu sem þeir hafa fylgt og hann kallaði raunar einhvers staðar í ræðu sinni bandaríska utanríkisstefnu, ef mig ekki misminnir. Hann styður nú ríkisstj. sem fylgir slíkri stefnu, en mig minnir fastlega að hann hafi tekið þannig til orða í ræðu sinni. Hann segir hér: „Þessi leið, sem þeir hafa fylgt, kann að vísu að hafa stuðning nokkurs meiri hl. þjóðarinnar, en hún hefur aldrei notið stuðnings yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar.“ Ég veit ekki hvaðan hæstv. ráðh. kemur vitneskja eða þekking til að láta svona fullyrðingar frá sér fara. Þeir þrír flokkar, sem eru fylgjandi aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu og þátttöku í varnarsamstarfinu, hafa fengið nokkuð drjúgan meiri hluta atkv. Alþb. hins vegar, sem barist hefur gegn þessari stefnu, hefur fengið um 20% atkv. Ég veit ekki hvaðan hæstv. félmrh. koma þessar upplýsingar. (ÓRG: Skoðanakannanir sýna að fjórðungur af fylgi Alþfl. er á móti hernum.) Skoðanakannanir geta sjálfsagt verið ágætar, en þær eru ekki einhlítur sannleikur. A. m. k. veit ég að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson veit hverja annmarka skoðanakannanir hafa. Þær eru ekki algildur sannleikur. Þær gefa visst til kynna, en það er hins vegar ekki rétt að slá niðurstöðum þeirra svona upp. Þær eru unnar með mismunandi hætti og mismunandi heiðarlega. Þetta veit hv. þm. mætavel.

Í ræðu sinni þakkaði félmrh. herstöðvarandstæðingum það að lokun Keflavíkursjónvarpsins hefði orðið að veruleika. Þetta er auðvitað fjarri öllum sanni. Það voru langtum fleiri sem vildu lokun Keflavíkursjónvarpsins en þeir sem kalla sig herstöðvaandstæðinga. Hér var um menningarpólitískt mál að ræða sem átti stuðning langt fyrir utan raðir þeirra sem kallaðir eru herstöðvaandstæðingar.

Hann talaði ýmsum orðum hér um baráttu herstöðvaandstæðinga og mátti skilja svo að hún væri nú með miklum blóma og ætti jafnvel vaxandi fylgi að fagna. Mig langar til að rifja upp fyrir ráðh. ummæli sem voru í Þjóðviljanum 7. maí s. l. í viðtali við Vilborgu Dagbjartsdóttur rithöfund. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta: Blaðamaður spyr: „Heldurðu að andófið gegn hernum hafi haft mikið að segja?“ Síðan kemur svarið: „Ég var með í baráttunni gegn hernum frá fyrstu tíð, með í undirbúningi fyrstu Keflavíkurgöngunnar og seinna í stofnun Samtaka hernámsandstæðinga. Baráttuöflin voru sterk í upphafi. Við trúðum því, að barátta okkar mundi leiða til sigurs, en eftir að undirskriftasöfnun hernámsandstæðinga rann út í sandinn og eftir að klofningur kom upp og nýir stjórnmálaflokkar voru stofnaðir hefur þetta mest verið sýndarmennska. Ég efast ekki um einlægni þess unga fólks sem staðið hefur í eldlínunni, en broddinum var kippt úr baráttunni, hreyfing herstöðvaandstæðinga hætti að vera það afl sem hún áður var og það ríkir ákveðið vonleysi í kringum þetta andóf. Við vitum ekki enn hvað getur komið í staðinn.“

Þetta eru athyglisverð ummæli konu sem tekið hefur þátt í þessari baráttu frá upphafi, og þau sýna svo að ekki verður um villst að vindurinn er úr seglunum þó svo að reynt sé að halda uppi núna með nýjum blekkingaraðferðum málþófi. Hér talar kona sem þekkir þessa baráttu frá upphafi, og það er vægt til orða tekið að það sé vonleysistónn í þessum ummælum. Ég hygg að hinir eldri og reyndari í röðum herstöðvaandstæðinga geri sér grein fyrir því, að það er til einskis að verið.

Verulegur hluti af ræðu hæstv. félmrh. var að lesa hér viðtal sem kom í Þjóðviljanum þennan sama dag, 7. maí, og sá ræðumaður, sem talaði hér næst á undan mér, hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, gerði þetta viðtal einnig að nokkru umtalsefni, viðtal við Norðmanninn Anders Hellebust. (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson talaði allítarlega um þetta viðtal og ég er að hugsa um að gera það líka.

Það var gert mikið úr því að þessi ágæti maður, Anders Hellebust, hefði greint frá því fyrir fimm árum úti í Noregi að Lóran-C stöðvarnar væru m. a. notaðar til að senda kafbátum upplýsingar. Hverjum skyldi koma það á óvart? Héldu menn kannske, að þessar stöðvar hefðu verið reistar fyrir fiskiskipaflotann á Norður-Atlantshafi? Auðvitað voru þessar stöðvar reistar til þess m. a. að veita herskipum staðarákvarðanir. Ég skil ekki að það hafi farið milli mála hjá nokkrum manni. Nú er hins vegar svo komið að þau tæki, lórantækin, sem í upphafi voru eingöngu ætluð herskipum og hernaðarfarartækjum í lofti einnig, nota öll okkar fiskiskip, og ég er hræddur um að íslenskum sjómönnum brygði við ef þetta staðarákvörðunarkerfi væri ekki til. Það gegnir, að ég hygg, ómetanlegu hlutverki fyrir fiskiflota okkar. Og svo er verið að halda því hér fram sem einhverri sérstakri nýrri vitneskju, að þetta Lóran-C staðarákvörðunarkerfi hafi m. a. verið notað af bandarískum kjarnorkukafbátum. Sjálfsagt hefur það verið notað af þeim eins og öðrum herskipum. (ÓRG: Norsk stjórnvöld höfðu neitað því.) Ég veit ekkert hverju norsk stjórnvöld höfðu neitað, en ég hygg að þetta hafi öllum mönnum verið ljóst hér og ekkert farið milli mála.

Fleira í þessu viðtali mætti tína til. Þessi Norðmaður talar um að ekki megi raska því jafnvægi óttans sem hann talar um. Þetta er, held ég, alveg rétt og við eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að raska ekki þessu jafnvægi. Ef farið yrði að ráðum Alþb. og varnarliðið látið fara héðan og við hætta aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu mundum við raska þessu jafnvægi, þá mundum við skapa hér tómarúm og við mundum breyta þessu jafnvægi og það væri hættuleg og ábyrgðarlaus aðgerð. Ég er sammála því sem þessi Norðmaður segir hér, að við eigum ekki að raska þessu jafnvægi, en ég dreg aðrar ályktanir af þeim orðum hans en þeir Alþb. menn gera.

Það var vissulega athyglisvert sem kom fram í ræðu Benedikts Gröndals. Hann vitnaði til þingskjala, að mig minnir, sem voru lögð fram á flokksþingi Alþb. eða einhverjum slíkum fundi þeirra. Þar sagði orðrétt: „Nauðsynlegt er að hefja eins konar hræðsluáróður gegn stöðinni.“ Þetta er nákvæmlega það sem Alþb. hefur verið að gera að undanförnu. Það hefur verið að freista þess að færa umræðurnar um Keflavíkurstöðina í nýjan farveg. Það hefur verið að freista þess að skapa ótta hjá almenningi, svo falleg sem sú gerð þeirra nú er. Það er verið að freista þess að skapa ótta og hræðslu h já íslenskum almenningi. Nægir þar að minna á t. d. upphlaup þeirra í fyrra, þegar þeir voru uppfullir af því hér dag eftir dag að kjarnorkuvopn væru geymd á Keflavíkurflugvelli. Þrátt fyrir margar yfirlýsingar núv. utanrrh. og forvera hans í því embætti um að svo væri ekki var þessu þyrlað upp. Þegar haft er í huga það sem stóð í þessu þskj. frá landsfundi Alþb., að ég hygg, frekar en einhverri ráðstefnu þeirra um herstöðvamál, þá skilst þetta auðvitað allt betur. Þetta var liður í þeirri aðgerð að hefja eins konar hræðsluáróður gegn Keflavíkurstöðinni. Þegar skoðaður er málflutningur Alþb., hvort sem þeir eru þá að tala um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndunum, minnast nú reyndar aldrei á Kólaskagann í því sambandi sem er er við dyr Norðurlanda, hann skiptir ekki máli í þessu sambandi, — þegar málflutningur Alþb. í utanríkismálum og varnarmálum Íslands er skoðaður kemur í ljós að allur þeirra málflutningur er leynt og ljóst, og þó miklu frekar ljóst en leynt, stuðningur við utanríkisstefnu Sovétríkjanna án þess að það sé sagt berum orðum. Það er aldrei sagt berum orðum nú vegna þess að það hentar ekki, en leynt og ljóst er þetta stuðningur við þá stefnu sem Sovétríkin fylgja. Það hentar ekki við núverandi íslenskar aðstæður að segja þetta berum orðum, en svona er þetta engu að síður.

Þeir tala mikið um það nú að eðlisbreyting hafi átt sér stað á varnarstöðinni í Keflavík. Það er rétt, að eðlisbreyting átti sér stað á þeirri starfsemi sem þar fór fram fyrir rúmum 20 árum. En þeir hljóta að fylgjast illa með úr því að þeim er fyrst að verða þetta ljóst núna, sem allir, að ég hygg, sem um þessi mál hafa hugsað og með þeim fylgst hafa vitað. Það var ekkert leyndarmál að verið var að leggja hér út kapla bæði frá Stokksnesi og hérna í grennd við Hafnirnar. Það unnu við þetta menn frá þessum stöðum. Þetta vissu allir. Það var ekkert leyndarmál að þarna var verið að leggja út hlustunartæki. Síðan er langur tími liðinn, en þeir Alþb.-menn virðast fyrst vera að gera sér grein fyrir þessu núna og nú er talað um þetta breytta eðli stöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, sem manni skilst að hafi átt að breytast á síðustu 2–3 árum. Þetta eru hreinar rangfærslur og þetta er liður í þessari eins konar hræðsluáróðursherferð gegn stöðinni á Keflavíkurflugvelli. (Gripið fram í.) Ég hef þetta rétt eftir. Hv. þm. getur þá komið hér í ræðustól á eftir og leiðrétt þetta og hætt að gjamma úr sæti sínu eins og hans er siður daginn út og daginn inn. (Gripið fram í: Það er gamall siður að kalla fram í fyrir þm.) Já, en mönnum tekst það misjafnlega hins vegar og er það misjafnlega lagið. — En þessi eðlisbreyting á Keflavíkurstöðinni, sem þeir Alþb. gera núna að meginatriði í sínum málflutningi í þessari kerfisbundnu hræðsluáróðursherferð, sem þeir beita sér fyrir, er rangfærsla á staðreyndum.

Það var eitt af því sem hæstv. félmrh. vék hér að í sinni ræðu, að hann talaði um nýjan evrópskan valkost í öryggismálum. Hann fór ekki um þetta mörgum orðum, en ég vil mælast til þess að hann geri nánari grein fyrir því hér á eftir í hverju þessi evrópski valkostur er fólginn. Ég veit að það er verið að ræða eitt og annað í þessum efnum, en ákaflega fátt virðist þar vera fastmótað. Svo virðist nú raunar sem Alþb. ætli sér að taka upp baráttu fyrir einhverju þarna sem ekki er enn þá vitað hvað er.

Það er í rauninni gaman að fylgjast með því, hvernig þessi flokkur, þetta kamelljón íslenskra stjórnmála, hagar seglum eftir vindi í stjórnmálabaráttunni. Nú er skemmst að minnast þess þegar franskir sósíalistar eða jafnaðarmenn unnu frækinn sigur í kosningabaráttu. Þá er Alþb. allt í einu orðið hliðstæða franska sósíalistaflokksins. Ég minnist þess fyrir fáeinum árum þegar gengi kommúnista í Frakklandi var meira en það er nú. Þá var leiðtogi franskra kommúnista ástvinur Alþb., að manni skildist, og þegar sem mest var talað um Evrópukommúnismann var það helst á Alþb.-mönnum að skilja að sá Evrópukommúnismi hefði verið fundinn upp hér á Íslandi. Nú er vegur franskra kommúnista lítill og þess vegna er ekki um þetta talað. En þetta er eitt dæmi um hvernig þetta kamelljón íslenskra stjórnmála skiptir litlum eftir því sem vindurinn blæs hverju sinni. (Gripið fram í: Að austan.) Já, austanvindurinn, rétt er það. Það er ekki annar vindur sem kemur í segl þessa flokks.

Herra forseti. Ég hef kannske gerst nokkuð langorður um þetta, en það er ástæða til og hlýtur að verða mönnum ævarandi undrunarefni og umhugsunarefni að þessi flokkur, Alþb., skuli taka þátt í störfum ríkisstj. og vera um leið andsnúinn meginstefnu hennar í utanríkismálum. Þetta ætti í rauninni að vera ósættanlegt, en eins og ég vék að áðan hafa þeir ágætu menn gert það upp við sig að valdaaðstaðan sé þeim meira virði en það sjónarmið að varnarliðið skuli fara héðan.

Ég ætla að síðustu að víkja hér að einni setningu úr ræðu hæstv. félmrh. Hann segir orðrétt: „Ég minni á í þessu sambandi, að engin Norðurlandaþjóð önnur en Íslendingar hefur tekið í mál að opna fyrir dvöl erlends hers í landi sínu á friðartímum, og við skulum muna að nær 90% þeirra ríkja, sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum, hafa kosið að standa utan hernaðarbandalaga risaveldanna.“

Þetta er auðvitað rétt. En því er sleppt hér, sem er meginatriði þessa máls, að Norðurlandaþjóðirnar hinar, hver um sig, hafa eigin her. Það höfum við ekki. Og nú skora ég á hæstv. félmrh. eða hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sem sjálfsagt á eftir að koma hér upp í þennan ræðustól, að benda á einhverja þjóð sem hefur ekki annaðhvort eigin her eða hefur falið einhverjum öðrum að sjá um varnir sínar. Ég hygg að það muni engin þjóð sem ekki hefur annaðhvort eigin her eða hefur samið við eitthvert annað ríki um að sjá um varnir sínar. Það er engin þjóð, sem ég þekki til, varnarlaus. Það er stundum bent á Costa Rica, að mig minnir, að það land hafi ekki her. Maður heyrir stundum þá röksemd. En þá gleyma menn að það land hefur lögreglu sem við mundum kalla her, sem er búin skriðdrekum og öðrum þeim vopnum, sem herir þjóða eru yfirleitt búnir. Ég þekki enga þjóð sem hefur ekki annaðhvort eigin her eða hefur falið öðru ríki að sjá um sínar varnir. Þess vegna er sú stefna, sem Alþb. fylgir í þessum efnum, að hér verði varnarlaust land, held ég einsdæmi í veröldinni, og eins og ég sagði áðan er allt tal þeirra Alþb.-manna um utanríkismál leynt og ljóst stuðningur við stefnu Sovétstjórnarinnar, og tal þeirra um að Ísland verði varnarlaust er auðvitað ekkert annað en þjónkun við þá stefnu þó að þeir þori ekki að segja það berum orðum.