11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vona að menn hafi tekið eftir orðum fjmrh. þegar hann sagði að það muni verða háð vilja ríkisstj. og Alþingis hvað gerist í þessum málum. Þetta eru auðvitað viðkvæm mál vegna þess hvaða tengsl eru á milli þeirra og varnar- og utanríkismála. En við skulum athuga hvað hefur gerst í ríkisstj. síðasta áratug.

Minnihlutaflokkur, sem er á móti varnarliðsstefnunni og öllu því er henni fylgir, hefur haft aðstöðu til þess að komast í samsteypustjórnir og hefur reynt að knýja það fram gegnum stjórnarsamninga sem hentar þessum minnihlutaflokki, en gengur á móti meiri hl. Alþingis. Þegar sagt er: „vilji ríkisstj. og Alþingis“, ber að minnast að það er engin ríkisstj. nema með vilja Alþingis.

En það vill svo til í þessu máli, að hæstv. utanrrh. hefur stóran meiri hl. Alþingis með sér, og það væri stjórnarfarslegt hneyksli ef núv. ríkisstj. eða nokkur önnur léti minnihlutaflokk koma því í gegn með stjórnarsetu að stöðva vilja meiri hl. Alþingis. Þess vegna eru fráleit ákvæði í stjórnarsamningnum eins og það, að ekki megi byggja hús á varnarsvæðinu á Reykjanesi nema með leyfi Alþb. Þetta er ómerkt af því að það gengur beint gegn stjórnkerfi okkar, lýðræði og stjórnarskrá.

Í þessum málum á að ríkja vilji meiri hl. Alþingis, og við eigum ekki að láta Alþb.-mennina hafa okkur alla að fíflum með því að láta þeim takast að stöðva þessar framkvæmdir eða tefja þær. Þær eiga að halda áfram eins og meirihlutavilji er fyrir.