11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. forseti tók út af dagskrá mál, sem var hér fyrst til umr., um breytingu á gjaldmiðlinum, þá var ég honum alveg sammála. Ef svo hefði staðið á fyrir ráðherrum sem hefðu verið mínir ráðherrar, að þeir hefðu setið eins og klumsa merar undir því sem þá fór fram, þá hefði ég vafalaust gert þetta sama. Og ég veit ekki heldur til hvers á að bíða eftir hæstv. viðskrh., Tómasi fóstra, því að hann er þegar búinn að segja meira en hann má í því máli.

Nú held ég að hæstv. forseta verði nær, ef hann ber hag og virðingu þessarar hæstv. ríkisstj. fyrir brjósti, að taka þetta mál hið snarasta út af dagskrá og stöðva frekari upplok á þessum hæstv. ráðherrum. Hér stendur hæstv. utanrrh. upp og lýsir því yfir, að fjmrh. — hann orðaði bull hæstv. ráðh. kurteislega — hefðu orðið mismæli. Síðan kemur hæstv. fjmrh. upp og lýsir yfir þvers og kruss: Rétt er rangt, eftir því sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson talar, út og suður, þannig að það er ekki heil brú í neinu í þessum málflutningi hæstv. ríkisstj. Herra forseti. Ég legg til að þeim sé hlíft við frekari skömmum í þessu máli.