15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4509 í B-deild Alþingistíðinda. (4593)

275. mál, atvinnuleysistryggingar

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna þess að ég og hv. 10. þm. Reykv. höfum orðið sammála um að flytja skriflega brtt. við þetta frv. Það hefur verið vakin athygli okkar á því viðhorfi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs sem var lýst áðan í ræðu hv. 1. þm. Vestf. Okkur þykir mjög óeðlilegt að ekki sé komið að nokkru til móts við það viðhorf stjórnarinnar sem lýst er í bréfi sem hún skrifaði heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar 15. apríl s. l.

Eins og fram kom í ræðu þess þm., sem talaði hér næstur á undan mér, gerði stjórnin samþykkt 14. apríl og segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hluti sjóðsstjórnar, Jón Ingimarsson, Eðvarð Sigurðsson, Daði Ólafsson, Guðmundur Þ. Jónsson og Hermann Guðmundsson, mælir með að frv. þetta verði samþykkt með þeirri breytingu einni að gildistaka laganna verði miðuð við n. k. áramót“ — o. s. frv.

Ég tel mig ekki þurfa að vitna frekar í þeirra mál. Við höfum orðið ásáttir um það, við hv. þm. Friðrik Sophusson, að flytja brtt. sem hljóðar á þá leið, að 1. málsl. 42. gr. orðist svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. okt. 1981.“ Við teljum að þá sé gengið til móts við það álit stjórnarinnar, að hún fái tíma til þess að undirbúa málið eins og henni þykir þurfa og hún lýsir nánar í bréfinu, en jafnframt verði staðið við það að lögin taki gildi svo fljótt sem nokkur kostur er.

Ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir því, að þessi till. megi koma fyrir.