11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

10. mál, samgöngur um Hvalfjörð

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir till. til þál. á þskj. 11, sem við flytjum allir þm. Vesturl. Till. fjallar um samgöngur um Hvalfjörð og er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að gerð verði athugun á hagkvæmustu samgönguleiðum um Hvalfjörð.“

Grg., sem fylgir þessari till., er örstutt, en hún skýrir þó að mínum dómi í aðalatriðum eðli og tilgang þeirrar þáltill. sem hér er fjallað um. Engu að síður vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum um þetta efni.

Því er ekki að neita, að oft hefur þetta mál, þ.e. samgöngur um Hvalfjörð, borið á góma í umr. allt frá því að lagning Vesturlandsvegar hófst árið 1905, en árið 1934 var lokið við að ryðja veg alla leið upp í Borgarfjörð. Síðan þá hefur vegurinn fyrir Hvalfjörð tekið miklum stakkaskiptum, eins og kunnugt er. Þrátt fyrir þá staðreynd tel ég að flestir vegfarendur liti svo á, að þeir leggi óþægilega lykkju á leið sína þegar ekið er inn fyrir Hvalfjarðarbotn, þótt ekki sé fastar að orði kveðið.

Eins og öllum er kunnugt er þessi umr. hér og nú aldeilis ekki sú fyrsta á opinberum vettvangi sem fjallar um samgöngur um fjörðinn. Árið 1944 tók bæjarstjórn Akraness til við áætlanagerð um ferju yfir Hvalfjörð. Byrjað var á hafnarframkvæmdum við Katanes norðan fjarðar, lagður var vegur að hafnarstæðinu og keyptir voru tveir prammar. Úr meiri framkvæmdum varð ekki í það skiptið og lítið sem ekkert aðhafst í málinu allar götur til 1963, en þá var samþ. hér á hinu háa Alþingi þál. um rannsókn á ferjuhaldi yfir Hvalfjörð. Sú till. leiddi til þess, að gerð var áætlun um rekstur ferju. Það verk var unnið af vitamálastjóra. Niðurstöður voru birtar árið 1966 og samkv. þeim var talið að rekstur ferju yrði hagkvæmur að 5 árum liðnum. Að sinni var þó ekki farið ítarlegar í málið, en 1967 var skipuð nefnd þriggja ágætra manna samkv. ályktun Alþ. frá 18. apríl sama ár. — Ég vil geta þess í því sambandi, hverjir voru flm. þeirrar till., en það voru þáv. þm. Vesturl. Jón Árnason, Sigurður Ágústsson, Benedikt Gröndal, sem hér er meðal vor, Ásgeir Bjarnason og Halldór E. Sigurðsson. Í nefndinni voru þeir Sigurður Jóhannsson, Gústaf E. Pálsson og Björgvin Sæmundsson.

Í skipunarbréfi nefndarinnar var þess óskað, að hún skilaði áliti sem fyrst og eigi síðar en í árslok 1968. Úr því varð þó ekki, enda var hér um umfangsmikið og tímafrekt verk að ræða, en verksvið nefndarinnar var að annast alhliða rannsókn á því hvernig hagkvæmast væri að leysa samgönguþörfina milli þéttbýlis í og við Reykjavík annars vegar, Akraness, Borgarfjarðar og til Vestur-og Norðurlands hins vegar. Nefndinni var heimilað að ráða sérfræðilega aðstoð á hinum ýmsu sviðum með það að markmiði að komast að raunsannri niðurstöðu í þessu efni.

Álit nefndarinnar kom út í sept. 1972. Nál. þetta er allmikið að vöxtum og ber að mörgu leyti vitni um ítarleg og nákvæm vinnubrögð. Er ekki ætlunin hér að gera þeirri álitsgerð tæmandi skil, enda yrði það allt of langt mál. Ég tel þó skylt að geta um helstu niðurstöður í því nál. sem vitnað hefur verið til, en þar segir, með leyfi forseta:

„Niðurstöður þeirra athugana, sem nefndin hefur gert, eru í stuttu máli þær, að leggja skuli fullkominn veg fyrir Hvalfjörð. Með þeim styttingum á núverandi vegi, sem hagkvæmar eru, fást þannig 14–15% afkastavextir, og er það álit nefndarinnar, að þessi kostur sé þjóðhagslega hagkvæmastur þeirra sem völ er á. Nefndin álítur jafnframt, að æskilegt sé að einhvers konar farkostur sé í förum milli Reykjavíkur og Akraness. Nefndin telur, að það gæti verið arðsöm fjárfesting, og gerir það að tillögu sinni, að rekstraröryggi og rekstrarafkoma slíks farkosts verði könnuð til hlítar.“

Sú stefna, sem fylgt hefur verið í samgöngumálum um Hvalfjörð hin síðari ár, ber órækt vitni þess, að það hefur verið tekið mið af niðurstöðum þeirrar nefndar sem ég hef vitnað til, enda þótt framkvæmdir hafi kannske gengið hægar en menn hafa óskað.

En nú kann einhver að spyrja: Til hvers er raunverulega að hreyfa þessu máli með tilliti til þeirrar stefnu sem tekin var á sinni tíð? Hafa forsendur breyst svo mikið að ástæða sé til að ætla að niðurstöður yrðu breyttar frá því sem áður var, miðað við hina ýmsu möguleika? Við flm. gerum okkur að sjálfsögðu ljóst að þær endurbætur, sem gerðar hafa verið á veginum um Hvalfjörð á undanförnum árum, gætu vegið allnokkuð í því endurmati sem sú till., sem hét er til umr., gerir ráð fyrir.

Eins og áður er getið eru forsendur þess nál., sem vitnað hefur verð til, orðnar um áratugsgamlar, enda þótt í sumum tilvikum hafi verið reynt að beita framreikningi eða leitast við að spá fram í tímann. Sú leið, sem næsthæsta afkastavexti gaf á sinni tíð, eða 10–12%, var ferja yfir Hvalfjörð milli Galtarvíkur og Kiðafells ásamt endurbótum á veginum fyrir fjörðinn. Þar hefur því augljóslega verið mjög mjótt á munum miðað við þann valkost sem tekinn var. Jarðgöng undir fjörðinn frá Kjalarnesi yfir á móts við Innra-Hólm eða brú miklu innar í firðinum gáfu mun lægri afkastavexti. Ég vil taka það fram í sambandi við jarðgöng, að vegna jarðfræðilegra aðstæðna var talið óhugsandi að leggja göngin með öðrum hætti en í pípu undir fjörðinn, sem steypt hefði þá verið í hlutum og skeytt saman á hafsbotni.

Það er út af fyrir sig erfitt að ráða í það og ekki aðstæður hér að ráða í þau verktæknilegu atriði sem þarna koma til í sambandi við smíði ferja, brúa eða jarðganga, en mér þykir ástæða til að ætla að framfarir hafi orðið í smíði slíkra mannvirkja s.l. 10 ár. Í sambandi við ferju vil ég minna á þá hagkvæmni sem hún skilaði í útreikningum á sinni tíð. Nýjar forsendur eru að sjálfsögðu þau hafnarmannvirki sem þegar eru risin við Grundartanga og mætti hugsanlega nýta vegna ferjusambands yfir fjörðinn.

Fyrir utan þau atriði, sem ég hef nú minnst á og gefa til kynna breyttar forsendur, vil ég auðvitað enn fremur geta um stórhækkað eldsneytisverð sem leiðir af sér að gífurlegur kostnaður fylgir löngum ferðalögum og löngum flutningum og gerir það e.t.v. aldrei brýnna en einmitt nú að stytta vegaleiðir.

Að mínum dómi, eins og ég tók raunar fram í upphafi, er ekki þörf mikilla málalenginga um þessa till. sem ég hef nú mælt fyrir. Ég lít svo á, að í sumum tilvikum megi styðjast við það nál. sem ég hef vitnað til í framsögu minni, en allar hugsanlegar nýjar forsendur þarf að endurmeta til þess að komast að raunsannri niðurstöðu.

Eins og segir í grg. með till. er okkur flm. ljóst, að athugun þessi mun hafa einhvern kostnað í för með sér, en í það megi ekki horfa af þeirri einföldu ástæðu að hagkvæmustu valkostir í samgöngumálum þurfa að liggja fyrir á hverri tíð.

Herra forseti. Ég vona, að þessi till. fái jákvæðar undirtektir þingheims, og leyfi mér að leggja til að að loknum þessum hluta umr. verði till. vísað til allshn.