18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4562 í B-deild Alþingistíðinda. (4733)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég get ekki séð að þessi lög ráði neinum úrslitum um hvort áfram verði haldið eðlilegri símavæðingu strjálbýlisins. Ég vil minna á að engir nýir bæir í strjálbýll bætast við á þessu ári. Það var allt skorið niður nema þeir bæir sem frestað var í fyrra. Ekkert nýtt hefur bæst við. Síðan hæstv. fjmrh. samdi þetta frv. hefur lánsfjáráætlun verið samþ. a. m. k. tvisvar sinnum. Hæstv. ríkisstj. hefði verið í lófa lagið að taka umbeðnar fjárveitingar inn í lánsfjáráætlun ef hugur hennar stóð til þess að hressa upp á lagningu sjálfvirks síma. En hugur hennar stóð alls ekki til þess. Hæstv. ríkisstj. vildi ekkert gera til að hraða símavæðingu strjálbýlisins. Þess vegna hafa framkvæmdirnar dregist saman. Marklaust pappírsgagn eins og þetta frv. ræður engum úrslitum. Þó að það verði samþykkt að gera framkvæmdaáætlun af þessu tagi hefur hún ekki gildi nema henni sé fylgt eftir með peningum. Sagt er að peningar séu afl þess sem gera þarf. Sími verður ekki lagður nema með lögum frá Alþingi, en það þarf miklu verðmeiri pappíra til að hrinda þessu máli í framkvæmd.

Hæstv. fjmrh. segir að það megi ekki dragast að lög af þessu tagi verði sett. Ég vil bæta því við: Það skal ekki standa á að stjórnarandstaðan fylgi því eftir að ríkisstj. standi nú einu sinni við það sem hún lofar. Hennar frammistaða í símamálunum hefur ekki verið þannig síðan þessi hæstv. ráðh. settist í stjórnarráðið að það sé til að hrósa því. En hins vegar hefur það komið fyrir hann áður að ætla að auka framkvæmdirnar fram í tímann.

Hvernig er t. d. með vegáætlunina? Það er verið að auka fjármagn til vega um 50% á þessu ári í vegáætluninni. Varðandi framkvæmdirnar í sumar hefði orðið að auka framlögin um 100% ef standa átti við vegáætlunina. M. ö. o. stelur ríkisstj. fjórðu hverri krónu. Það veldur m. a. því, að hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, er uppvís að því að hafa haft rangt fyrir sér fyrri partinn í vetur þegar við vorum að deila um hvort lokið yrði við veginn yfir Melrakkasléttu á þessu ári eða ekki. Hann sór og sárt við lagði að endar mundu nást saman í sumar, ríkisstj. mundi standa við sín loforð og ef hún mundi ekki gera það mundi 2. þm. Norðurl. e. koma og taka í rassinn á henni. En hann fór til Ísrael í staðinn og fékk þar syndaaflausn og vegurinn kemur ekki í ár, verður að bíða og það dregst a. m. k. ár eða svo.