19.05.1981
Sameinað þing: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4594 í B-deild Alþingistíðinda. (4791)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur unnið að athugun og afgreiðslu till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1981–1984 í samráði við þm. einstakra kjördæma. Nefndin hefur öll að venju fjallað um skiptingu fjármagns milli einstakra þátta vegamálanna svo og kjördæma. Það var niðurstaða allra fulltrúa nema eins að standa að skiptingu milli kjördæma, en ný regla var tekin upp sem viðurkennt er af flestum að geti orkað tvímælis og því spurning hvort minnihlutamenn hefðu átt að standa að, en niðurstaðan varð þessi. En ég vil láta í ljós þá skoðun, að þetta þurfi að athuga nánar síðar.

Ég vil nota tækifærið til þess að þakka formanni og meðnm. mínum fyrir gott samstarf í fjvn. og Snæbirni Jónassyni vegamálastjóra og hans mönnum fyrir lipurð í öflun allra upplýsinga því að það var margt og mikið sem við fjvn.-menn spurðum þá um, en við fengum yfirleitt mjög greið svör.

Ríkisstj. og stuðningsmenn hennar á Alþingi bera sem fyrr ábyrgð á heildarfjáröflun til vegamála og heildarstefnunni, sem fram kemur í till. Við, sem skipum minni hl. fjvn., teljum þessa stefnu í vegamálum og skattlagningu á umferðina fráleita og andstæða þjóðarhagsmunum og höfum gefið út sérstakt nál. til þess að rökstyðja þessar skoðanir okkar. Ráðherrar Framsfl. og Alþb. hafa haft á hendi æðstu stjórn vegamála og ríkisfjármála frá hausti 1978. Vart mun ágreiningur um að á sviði vegamála bíði þjóðarinnar einna arðbærustu opinberu framkvæmdir við hlið stórvirkjana, sem völ er á í landinu, og jafnframt ein mestu félagslegu umbóta- og byggðamál sem krefjast úrlausnar. Raunar kom þetta fram í framsögu formanns fjvn. áðan. Í ljósi þess er einkar athyglisvert hver þróunin hefur orðið í skattlagningu á umferðina, fjármögnun vegaframkvæmda og vinnubrögð við gerð vegáætlana á valdatíma forustumanna þessara flokka, þ. e. 1979–1981. Höfuðatriðiðn eru þessi:

1. Skattar á bensín hafa hækkað um 115.4 millj. nýkr. að raungildi, 11.5 milljarða gkr. eða 36.5% á föstu verðlagi síðan 1978.

2. Þessi skattahækkun hefur svo til öll verið notuð til að auka eyðsluútgjöld ríkissjóðs, en ekki í vegaframkvæmdir.

3. Lántökur til vegaframkvæmda voru tvöfaldaðar að raungildi 1980 miðað við 1978 og eru svipaðar 1981 og í fyrra. Þessir víxlar falla síðar á skattgreiðendur.

4. Nýframkvæmdir vega og brúa urðu ekki meiri en svo 1980 og samkv. till. 1981 þrátt fyrir allar lántökurnar, að meðaltal framkvæmdamagns árin 1979–1981 að báðum meðtöldum verður hliðstætt meðaltali framkvæmda áranna 1974–1978 þegar skattar á bensín voru þriðjungi minni að raungildi.

5. „Stóru stökkin“ upp á við í vegamálum, sem áttu að nást 1980 og 1981 með þeirri vegáætlun sem samþykkt var á Alþingi 1979, reyndust fyrst og fremst sjónhverfingar og blekking. Nú er ljóst að 110 millj. nýkr., 11 milljarða gkr., skortir á að raungildi þeirra „stóru stökka“ í vegamálum 1980 og 1981 hafi náðst.

Staðreyndin er sú og reynslan sýnir það svart á hvítu, að framangreind stefna í vegamálum, svo alvarleg sem hún er, getur talist skólabókardæmi um stefnu Framsóknar og Alþb. á öðrum sviðum skatta- og ríkisfjármála. Eyðslan í ríkisútgjöldum er svo gegndarlaus að stórhækkun skatta nægir hvergi til. Framlög ríkissjóðs til framkvæmda og atvinnuvega hafa verið skorin niður við trog, en lán tekin í staðinn á sumum sviðum sem skattgreiðendum er ætlað að borga síðar. Jafnvel svo arðbærar félagslegar framkvæmdir sem bættar vegasamgöngur eru fá þessa útreið á sama tíma sem skattheimta á umferðina hefur verið aukin umfram verðlagshækkanir sem raun ber vitni og ég sagði hér áðan.

Vinnubrögð samgrh., sem setið hafa frá 1978, að mótun vegáætlana eru einnig skólabókardæmi um þær blekkingar sem bornar hafa verið á borð fyrir almenning. Þegar vegáætlun var til umr. á Alþingi 1979 fyrir árin 1980 og 1981 sagði þáv. samgrh., hæstv. núv. fjmrh. Ragnar Arnalds, að hún markaði tímamót. Hann sagði einnig að taka ætti stórt stökk upp á við í fjárveitingum til vega og brúa 1980. Enn fremur sagði hæstv. ráðh.: Næsta stóra stökkið verði ákveðið við endurskoðun vegáætlunar 1980. — Vegaframkvæmdir bæði þessi ár hafa verið skornar niður þannig að 11 milljarða gkr, skortir til þess að sú veg: ætlun, sem samþykkt var 1979 fyrir 1980 og 1981, yrði framkvæmd svo sem til stóð og eins og ég lýsti áðan.

Frá árinu 1978 hafa skattar á bensín hækkað samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar og Vegagerðar ríkisins um 115.4 millj. nýkr. á föstu verðlagi. Sáralítið af því fjármagni fer til vegamála í ár og ekkert af þeirri hækkun eykur vegaframkvæmdir, þ. e. nýframkvæmdir vega og brúa. Þessar skattahækkanir hafa verið notaðar til almennrar eyðslu ríkissjóðs. Hluti ríkissjóðs af sköttum á bensín hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Á árunum 1975–1978 fóru 45–50% af skattaálögum ríkissjóðs á bensín til vegamála. Á árinu 1978 var þetta hlutfall 50.6%. En samkv. forsendum þessarar till. til vegáætlunar er gert ráð fyrir að 39.7% af skattálögum á bensín fari til vegamála samkv. upplýsingum Vegagerðar ríkisins og Þjóðhagsstofnunar. Það er svo atriði út af fyrir sig, að hæstv. ríkisstj. hefur enn ekki tekið ákvörðun um að hækka bensíngjald eins og þessi vegáætlun gerir ráð fyrir, af þeirri einföldu ástæðu að hún vill með því fresta hækkun framfærsluvísitölunnar um nokkra mánuði og þar með kaupgjaldsvísitölunni. En ef sama hlutfall af bensínsköttum færi til vegamála í ár eins og 1978 væri til ráðstöfunar 46.7 millj. nýkr., 4670 millj. gkr., til vegaframkvæmda í ár fram yfir þá fjárhæð sem gert er ráð fyrir í till. sem hér er til umr.

Lántökur til vegamála hafa verið auknar mjög frá 1978 og er það í samræmi við almenna stefnu stjórnvalda á þessum sviðum, einkum á árunum 1980 og 1981. Í fyrra voru lántökur tvöfaldaðar miðað við 1978, þ. e. á föstu verðlagi, og í ár er stefnt að litlu minni lántökum til vegaframkvæmda en í fyrra. Í þessu sambandi má geta þess, að samkv. lánsfjáráætlun stefnir ríkisstj. að því að taka 100 þús. millj. gkr. í erlend lán til opinberra þarfa á þessu ári, sem er 105% hækkun frá því í fyrra, á ári þar sem samdráttur er í orkuframkvæmdum og öðrum stórframkvæmdum í landinu.

Í fyrra tók stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að eigin frumkvæði ákvörðun um að lána einn milljarð gkr. til vegagerðar og í ár sem svarar 2 milljörðum á verðlagi vegáætlunar í ár. Jafngildir þetta fjármagn bæði árin 3.5 milljörðum gkr. Ef þetta fé hefði ekki bæst við vegáætlun þessi tvö ár væri niðurskurður upphaflegu áætlunarinnar þeim mun meiri en 14.5 milljarðar gkr. Þetta frumkvæði stjórnar Framkvæmdastofnunar sýnir, að þm. blöskrar stefna hæstv. ríkisstj. í vegamálum, og er jafnframt til vitnis um að menn telja vegamálin eitt brýnasta byggðamálið sem við er að fást. Þar sem auknar vegframkvæmdir eru jafnarðbærar félagslegar umbætur og raun ber vitni er ljóst að vel kemur til greina að taka lán til þess að hraða þeim. Sú stefna er út af fyrir sig ekki gagnrýnisverð. En auknar lántökur til þess að gera það eitt kleift að krækja í allar skattahækkanir á umferðina í ríkissjóð til eyðslu eru lántökur í óráðsíu, en ekki til vegagerðar. Sú ráðstöfun er hér harðlega gagnrýnd.

Nýframkvæmdir vega og brúa voru minnstar á þessum áratug árið 1979, einmitt á því ári sem hækkun bensínskatta umfram verðlag varð mest. Frá þessu algera lágmarki jukust vegaframkvæmdir árið 1980 talsvert, en þar komu einvörðungu til auknar lántökur. „Stóra stökkið“, sem stefnt var að við endurskoðun vegáætlunar í ár, verður alger kyrrstaða. Nýjar framkvæmdir vega og brúa verða ívið minni en í fyrra samkv. útreikningi Vegagerðar ríkisins. Séu bornar saman nýbyggingar vega og brúa 1979–1981 samkv. fyrirliggjandi till. og 1974–1978 að meðaltali hvert ár á föstu verðlagi fæst eftirfarandi niðurstaða: Meðaltal nýframkvæmda árin 1979–1980 er 181.6 millj. nýkr., en 1974–1978 177.3 millj. nýkr. eða nánast það sama. Þótt lántökur hafi verið stórauknar og skattar á bensín þriðjungi meiri að raungildi í ráðherratíð Framsóknar og Alþb. í samgöngu- og fjárhagsmálaráðuneyti er niðurstaðan sú, að ekki hefur þokast meira áleiðis síðustu þrjú árin í vegaframkvæmdum en áður.

Nýframkvæmdir vega og brúa voru minnstar á þessum áratug árið 1979, eins og ég sagði áðan, í samgrh.-tíð hæstv. núv. fjmrh. Ragnars Arnalds, einmitt á því ári sem hækkun bensínskatta umfram verðlag varð mest. Mikil fyrirheit voru þá gefin um bætta tíð og blóm í haga. Ég hef rifjað hér upp ummæli hæstv. ráðh. um „stóru stökkin“ 1980 og 1981. Í umr. um þá vegáætlun á Alþingi 1979 var á það bent, að áætlunin væri óskhyggjuplagg þar sem alla stefnumótun skorti í fjáröflun og ekki síst ákvörðun um fjárveitingar af skattlagningu á umferðina sem fara ætti til þess að framkvæma vegáætlunina, koma „stóru stökkunum“ í framkvæmd. Hæstv. samgrh. Ragnar Arnalds rakti í löngu máli að allt tal um þetta væru óþarfar áhyggjur, eins og hann orðaði það. Því miður reyndust þó þessi varnaðarorð ekki ástæðulaus. Stóru stökkin, sem hæstv. samgrh. Ragnar Arnalds setti á blað í vegáætlun fyrir árin 1980 og 1981, urðu að hálfgerðum hænufetum eftir að fyrrv. samgrh. settist í sæti fjmrh. og þurfti sem mest að nota peningana til annars þarfara að hans mati.

Þegar framkvæmd upphaflegrar vegáætlunar fyrir árin 1980 og 1981 er athuguð og þá miðað við reynsluna 1980 og fyrirliggjandi vegáætlun fyrir 1981, kemur eftirfarandi í ljós:

1. Niðurskurður raungildis framkvæmdafjár nýbyggingar vega og brúa nam samtals 68 millj. nýkr. eða 6.8 milljörðum gkr. á þessum árum.

2. Niðurskurður annarra liða varð verulegur eða samtals 3.2 milljarðar gkr. Samtals verður niðurskurðurinn 11 milljarðar kr.

3. Vetrarviðhald reyndist stórlega vanáætlað.

4. Óvænt fé barst framkvæmdaáætluninni frá Byggðasjóði, samtals að upphæð 3.5 milljarðar gkr.

5. Ef þetta fé hefði ekki borist hefði þurft að óbreyttri stefnu að skera áætlunina niður í 14.5 milljarða gkr. á þessum árum „stórra stökka“ í vegamálum.

Það er athyglisvert, að tekist hefði að standa við stóru orðin og láta „stóru stökkin“ rætast í vegaframkvæmdum ef eftirfarandi forsendur hefðu verið fyrir hendi:

1. Ef sama hlutfall bensínskatta gengi til vegamála og 1978. Með því móti væru til ráðstöfunar 46.7 millj. nýkr. í ár fram yfir till. að vegáætlun.

2. Ef beint framlag ríkisins væri það sama að raungildi og 1978. Á það skortir 13.2 millj. nýkr. Sama stefna í ríkisfjármálum og var 1978 að því er varðar fjárframlög til vegamála hefði fyllilega tryggt að unnt hefði verið að standa við „stóru stökkin“ í vegamálum 1980–1981 án þess að slá í jafnmiklum mæli og nú er gert, víxla sem skattgreiðendur verða að borga síðar.

Stjórn ríkisfjármálanna brást og af því stafar niðurskurðurinn.

Nú þegar verið er að afgreiða vegáætlun fyrir árið 1981 er veikasti hlekkur hennar sá sami að því er varðar árin 1982 og síðar, að fjáröflun er ekki skilgreind og engin ný stefnumörkun í framlögum ríkissjóðs til vegaframkvæmda af sköttum á umferðina. Þegar þessi þáltill. var til 1. umr. sagði núv. samgrh., hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson, að með henni væri brotið í blað í vegamálum. Þetta líkist helst öfugmælavísu að því er varðar árið í ár, eins og fleira sem kemur frá hæstv. ríkisstj. um þessar mundir. Þetta brotna blað í vegamálum þýðir niðurskurð á framkvæmdamætti gildandi vegáætlunar í ár um tæplega 20 millj. nýkr., 2 milljarða gkr., að því er varðar nýbyggingarfé til vega og brúa og nokkurn samdrátt í vegaframkvæmdum frá því í fyrra.

Um framkvæmd vegáætlunar 1982 og 1983 ríkir ekki síður óvissa en um „stóru stökkin“ fyrrv. samgrh. þegar þau voru fest á blað. Sú magnaukning, sem stefnt er að á pappírnum í þessari áætlun, helgast af því að hækka liðinn „Önnur fjáröflun“. Það eru nákvæmlega sömu vinnubrögðin og 1979. Engin ný stefna er mörkuð í fjárframlögum af bensínsköttum og beinum framlögum ríkissjóðs né heldur skilgreint hvernig fjáröflun skuli hagað á annan hátt til þess að ná markmiðum áætlunarinnar. Hætt er því við að brotna blaðið verði að óbreyttri framkvæmd svipað sjónarspil og blekking og „stóru stökkin“ urðu, eins og reynslan sýnir.

Samþykkt fyrirliggjandi till. til þál. hefur í för með sér verulegan niðurskurð gildandi vegáætlunar fyrir árið 1981 sem samþykkt var 1979. Ég skal nú fara nokkrum orðum um það, hvernig þessi niðurskurður kemur niður.

Mestur er niðurskurðurinn í nýjum framkvæmdum við vegi og brýr eða nákvæmlega 19.82 millj. nýkr. eða 1982 millj. gkr. Því næst er sumarviðhald skorið niður að raungildi um 16.10 millj. nýkr. eða 1610 millj. gkr., en vetrarviðhald hækkar um 9.86 millj. nýkr., og verður þó að gera ráð fyrir endurskoðun á þessum lið í haust þar sem hann hefur farið verulega fram úr áætlun 1980 og það sem af er árinu. Þessi aukni kostnaður við snjómokstur er svipaður þeirri raungildishækkun sem verður í framlögum úr ríkissjóði frá því í fyrra. Hún er ekki meiri en svo að dugi til að standa undir auknum snjómoksturskostnaði.

Þegar breytingar á nýframkvæmdum eru bornar saman á gildandi vegáætlun og till., sem fyrir liggur, kemur í ljós að almenn verkefni og sérstök verkefni eru skorin niður um 25 millj. nýkr., en bundin slitlög hækkuð að raungildi um 12.5, enda er töluvert af fé úr Byggðasjóði bundið því að hraða framkvæmdum við bundin slitlög. Þessi áherslubreyting stafar að nokkru leyti af auknum áhuga einstakra þm. á því að sinna þessu þjóðþrifaverkefni betur en gert hefur verið. Hefur allveruleg stefnubreyting orðið hjá almennum þm. í þessu efni á síðustu árum og tel ég það stefna í rétta átt.

Þm. Sjálfstfl. hafa flutt till. til þál. um langtímaáætlun til 12 ára í vegagerð á öllum þingum síðan 1978. Í till., sem gerir ráð fyrir stórauknum framkvæmdum á sviði vegagerðar, er verkefnum raðað í þrjú fjögurra ára tímabil. Lögð er áhersla á að bundin slitlög og uppbygging lélegra vetrarvega komist í framkvæmd og verði hraðað og mörkuð ákveðin stefna um fjáröflun sem er sterkasti þáttur þessarar áætlunargerðar. Þessi till. var endurflutt á þessu þingi og hefur verið til athugunar í fjvn. Hún nýtur þar stuðnings fjögurra fulltrúa Sjálfstfl. og Karvels Pálmasonar, fulltrúa Alþfl. Á þessu þingi var lögð fram af samgrh. till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð. Fjvn. fól Vegagerð ríkisins að gera drög að sameiginlegri till. n. sem tæki tillit til beggja þessara till., en fjvn. hefur ekki tekið enn afstöðu til þessarar till. Hér skal það þó tekið fram, að ekki er vanþörf á slíkri langtímaáætlunargerð um bætt vinnubrögð og skýrari stefnumörkun í vegamálum og aukinni áherslu á vegaframkvæmdir næstu árin.

Til þess að sýna hve mikil arðbær verkefni biðu þjóðarinnar í vegamálum, óskaði fjvn. eftir upplýsingum Vegagerðar ríkisins um eftirfarandi: a) Lengd vega í hverju kjördæmi og kostnað við að leggja bundið slitlag á þá vegi sem arðbært er talið. b) Heildarkostnað við að fullgera stofnbrautakerfi landsins í það horf sem ráðgert er. c) Sparnað í viðhaldi vega og rekstri bifreiða sem næst með lagningu bundins slitlags.

Svör Vegagerðarinnar voru í stórum dráttum sem hér segir:

Arðbært er talið, miðað við ákveðna skilgreiningu, þ, e. 100 bíla sólarhrings ársumferð, að leggja alls slitlag á 2528 km á öllu landinu. Þetta mundi kosta 723 millj. nýkr. eða 72.3 milljarða gkr. Nokkuð er það misjafnt milli kjördæma hvað lagt yrði af slitlagi miðað við þessa arðsemisreglu. Á Suðurlandi yrðu það 546 km, Reykjanesi 250 km, Vesturlandi 452, Vestfjörðum 120, Norðurlandi vestra 344, Norðurlandi eystra 420 og Austurlandi 396 km. Samtals 2528 km. Kostnaður við að fullgera stofnbrautir upp í ákveðinn staðal er talinn nema 2547 millj. nýkr. og það tæki 17 ár að ljúka þessu verkefni miðað við óbreyttar þarfir og það fjármagn sem hugsað er að setja í þetta. Ég verð nú að slá þann varnagla, að ég býst við að þetta sé miðað við það fjármagn sem talað er um að leggja til í langtímaáætlun ríkisstj.

Eitt atriðið, sem spurt var um, er um arðsemina. Þar segir svo í svari Vegagerðar ríkisins við spurningum fjvn.:

„Ef við gefum okkur að þeir vegir, sem lagðir eru bundnu slitlagi í ár, hafi að meðaltali 300 bíla umferð á dag er sparnaður á ári 12.3 millj. nýkr. frá vondum malarvegi í bundið slitlag.“

Þar er sem sagt um hreinan sparnað að ræða á annan milljarð gkr. af því að búið er að leggja þessa vegi bundnu slitlagi. Af þessum upplýsingum sést að framkvæmdir í vegamálum eru ekki einvörðungu félagslegt jafnréttis- og byggðarmál, heldur eru þær einnig með arðbærustu opinberu verkefnum sem bíða úrlausnar.

Þá er rétt að geta þess; herra forseti, að algjör samstaða náðist í fjvn. um að tekist verði á við þrjú verkefni utan vegáætlunar á næstu árum. Þar er um samgöngubætur að ræða sem leysa af hólmi kafla á vegum sem eru lífshættulegir við sérstakar aðstæður, þ. e. vegum á Ólafsfjarðarmúla, Óshlíð og Ólafsvíkurenni. Fé til rannsókna og könnunar nýrra lausna á samgöngum á þessum slóðum er í till. fjvn. um vegáætlun, en gert er ráð fyrir að fjár verði aflað sérstaklega til framkvæmdanna með lögum þegar þar að kemur, svo sem fram kemur í nál. meiri hl. fjvn., en þar er birt yfirlýsing hæstv. samgrh. um þetta mát sem lögð var fram í fjvn. í gærkvöld.

Ég vil sérstaklega þakka meðnm. mínum fyrir góða samvinnu og samstöðu í þessu mikilvæga hagsmunamáli nokkurra öflugra byggðarlaga í þessu landi. Það má nánast segja að þar sé um að ræða félagsleg mannréttindamál.

Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið.