19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4631 í B-deild Alþingistíðinda. (4806)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Á þeim stutta tíma, sem ég hef til umráða, hlýt ég að stikla á stóru. Því mun ég aðeins ræða um nokkra mikilvæga málaflokka sem lýsa stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum og í framleiðslu- og framkvæmdamálum.

Við myndun þessarar ríkisstj. lögðum við framsóknarmenn höfuðáherslu á efnahagsmálin, enda má öllum vera orðið ljóst að áframhaldandi og vaxandi víxlhækkun verðlags og launa hlaut fljótlega að leiða til stöðvunar atvinnuveganna. Á þetta sjónarmið var fallist og jafnframt var samþykkt að vinna þannig að hjöðnun verðbólgu að ekki leiddi til byggðaröskunar og atvinnuleysis. Eftir slíkum leiðum hefur verið unnið. Að vísu þótti okkur framsóknarmönnum dragast mjög að hefja markvissar aðgerðir gegn verðbólgu á s. l. ári, og get ég að því leyti til tekið undir það sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði. Um það tel ég þó ekki ástæðu til að fást þar sem fyrir áramótin náðist samkomulag um efnahagsáætlun sem er mjög í anda þeirrar niðurtalningarstefnu sem við framsóknarmenn höfum lagt áherslu á.

Með efnahagsáætlun ríkisstj. er það markmið ákveðið að verðbólga verði á árinu 1981 ekki yfir 40%. Til þess eð þetta megi takast var nauðsynlegt að draga mjög úr þeim mikla verðbólguhraða sem orðinn var. Það var gert með verulegri takmörkun á verðhækkun launa og á hækkun búvöruverðs og fiskverðs 1. mars s. l. Ljóst var jafnframt að vísitalan 1. maí mátti ekki fara að ráði yfir 8% ef fyrrgreindu markmiði átti að ná. Þetta tókst að tryggja með því m. a. að takmarka hækkanir til opinberra stofnana og með niðurgreiðslu verðlags, sem fjármagns var aflað til með samdrætti í opinberum rekstri og framkvæmdum. Má því segja að ríkissjóður og opinberar stofnanir hafi rutt brautina 1. maí s. l.

Því er spáð, að vísitöluhækkun 1. ágúst n. k. verði einnig um 8%. Þá má, eins og hver maður getur reiknað, vísitala 1. nóv. ekki fara yfir 10% og samsvarandi nóv. og des. til þess að fyrrgreindum markmiðum, 40% verðbólgu á árinu 1981, verði náð. Þetta ætti að vera auðvelt ef vilji er fyrir hendi, sem ég sé ekki ástæðu til að efast um. Það er satt að segja ekki lítill áfangi þegar að því er gáð, að spáð var 70–80% verðbólgu á árinu 1981. Og ég verð satt að segja að lýsa furðu minni yfir orðum hv. þm. Vilmundar Gylfasonar úr þessum stól áðan, þar sem hann fullyrti að verðbólga á þessu ári yrði svipuð og á árinu 1980. Þetta er rangt. Þetta getur jafnvel hv. þm. Vilmundur Gylfason sjálfur reiknað.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að það er gífurlegur munur á þeirri hávaxtastefnu, sem Alþfl. boðaði og barðist fyrir með oddi og egg í samstarfi Alþfl., Alþb. og Framsfl., og þeirri verðtryggingarstefnu sem upp hefur verið tekin. Þar er reginmunur á.

Í sambandi við aðgerðir í efnahagsmálum var jafnframt ákveðið að lækka skatta og auka tryggingagreiðslur til þess að kaupmáttur lægri launa lækkaði ekki við þessar aðgerðir umfram það sem orðið hefði með óheftri verðbólgu. Við þetta hefur verið fyllilega staðið.

Þrátt fyrir ýmsar þess háttar ráðstafanir til þess að draga úr áhrifum efnahagsaðgerða á afkomu einstaklinga og fyrirtæki hlýtur fyrir slíku að finnast fyrst um sinn. Það er mikil hræsni þegar stjórnarandstaðan heldur því annars vegar fram, að lítið gangi að lækka verðbólgu, en hneykslast hins vegar nánast í sama orðinu á því, ef skerða verður þjónustu t. d. Ríkisútvarps og Pósts og síma, þegar slíkar stofnanir fá ekki nema hluta af þeirri hækkun sem nauðsynleg er til þess að halda óskertri þjónustu og framkvæmdum. Þó er slíkt að sjálfsögðu gert til þess að draga úr hækkunaráhrifum á vísitölu og verðbólgu. Slík tímabundin óþægindi eru þó smámunir hjá þeim hag sem allir hafa af minnkandi verðbólgu þegar til lengri tíma er litið.

Slagurinn við verðbólguna er að sjálfsögðu ekki unninn með þessum mikilvæga áfanga á árinu 1981. Segja má að illt sé að verðbólguhraðinn muni að öllum líkindum aukast eitthvað í lok ársins, eins og reyndar hefur yfirleitt verið. Mjög er æskilegt að svo verði ekki. Það mun auðvelda áframhaldandi niðurtalningu verðbólgunnar á árinu 1982 sem að er stefnt að sjálfsögðu, eins og segir greinilega í stjórnarsáttmála: Stefnt er að því að verðbólga hér á landi verði á því ári orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum okkar.

Vaxandi verðbólga undanfarin ár hefur sett sitt mark á flestar íslenskar atvinnugreinar. Svo hefur t. d. verið í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Þegar þessi ríkisstj. tók við var ástandið, sérstaklega í fiskvinnslunni, mjög alvarlegt. Á fjögurra mánaða tímabili setustjórnar Alþfl, höfðu kostnaðarhækkanir orðið um 15%, en fiskvinnslan aðeins fengið um 5% hækkun sinnar framleiðslu. Til viðbótar við þetta olli birgðasöfnun og sölutregða og engin verðhækkun á fiski í Bandaríkjunum miklum erfiðleikum. Þessu var annars vegar mætt með ýmsum aðgerðum, eins og lækkun vaxta Fiskveiðasjóðs, tollalækkun á nokkrum fjárfestingarvörum fiskvinnslunnar, tímabundinni hækkun afurðalána og umtalsverðri, endurgreiðslu Seðlabankans á fjármagnskostnaði, en hins vegar með aðlögun gengis að þeirri kostnaðarhækkun sem orðin var. Við slíkar aðgerðir hefur staða frystingar lagast mjög þótt hún sé enn að mínu mati erfið. Vegna verðhækkana á saltfiski og skreið má segja að heildarafkoma fiskvinnslunnar sé hins vegar viðunandi. Þar er þó ekkert svigrúm og því verður að mæta þeim hækkunum, sem fram undan eru 1. júní n. k., með opinberum aðgerðum í einhverri mynd. Í því sambandi vil ég vekja athygli á þeirri staðreynd, að gengisbreyting er vægast sagt heldur vafasöm lækning. Eins og nú er orðið, með flesta hluti gengistryggða, veldur 1% gengisfelling jafnmikilli hækkun verðbólgu á ársgrundvelli.

Öllu meiri áhyggjur hef ég þó af útgerðinni, sérstaklega togaranna. Gífurlegar olíuhækkanir valda vaxandi erfiðleikum. Að meðaltali rennur nú um fjórðungur af aflaverðmæti togarans í olíukostnað, en á neta- og línuveiðum er olíukostnaður hins vegar aðeins um 7–8% aflaverðmætis. Því er spáð, að olía hækki á næstu árum um a. m. k. 10% á ári umfram verðbólgu og þá um leið fiskverð. Þetta þýðir að olíukostnaður togara yrði orðinn 45–50% aflaverðmætis eftir fimm ár. Þarna stefnir í mikið óefni sem við verður að snúast strax, enda er á vegum sjútvrn. hafin athugun á þessu máli.

Að öðru leyti má segja að horfur í sjávarútvegi séu góðar. Afli hefur verið ágætur. Það var a. m. k. áður fyrr ekki talið slæmt. Mikilvægara er þó að þrátt fyrir góðan afla eru nú flestir, einnig fiskifræðingar, orðnir sammála um að þorskstofninn og fleiri fiskstofnar eru í vexti. Alvarlegast er ástand loðnustofnsins. Hann verður að nýta af mikilli gát næstu árin.

Stærstu verkefnin framundan á sviði sjávarútvegsins eru tvímælalaust viðbrögð við gífurlegri hækkun olíu, aukin gæði afla og framleiðslu, aukin hagkvæmni í rekstri og skynsamleg endurnýjun bátaflotans.

Nú liggur fyrir Alþingi stjfrv. um virkjanir. Orkumálin eru tvímælalaust eitt stærsta mál þessarar þjóðar. Í orkulindum eigum við mikinn auð sem getur og reyndar hlýtur að verða einn megingrundvöllur íslensks efnahagslífs. Vegna gífurlegrar verðhækkunar á olíu og að öllum líkindum skorts eftir fáein ár verður að dómi okkar framsóknarmanna ekki hjá því komist að auka verulega virkjunarframkvæmdir á næstu árum.

Á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. á s. l. ári markaði flokkurinn mjög ákveðna stefnu í orkuframkvæmdum og orkunýtingu. Hér er ekki ráðrúm til að rekja það í smáatriðum. Aðeins verður drepið á fáein grundvallarmarkmið.

Við framsóknarmenn viljum stefna að því að verða fyrir aldamót sjálfum okkur nógir um orku, bæði með notkun jarðvarma og raforku beint, þar sem því verður við komið, með framleiðslu eldsneytis í stað innflutts eða með framleiðslu iðnaðarvarnings sem selja má erlendis í stað þeirrar olíu sem óhjákvæmilegt verður að flytja inn. Orkuvinnslugetan verður orðin um 4000 gwst. eftir að tvær vélar Hrauneyjafossvirkjunar hafa verið teknar í notkun. Til þess að ná því markmiði að jafna orkureikning landsmanna um aldamótin þyrfti orkuframleiðslan þá líklega að verða um 10 þús. gwst eða að aukast um 6 þús. Frumvarpið um raforkuver gerir ráð fyrir um 3500 gwst. aukningu. Þá vantar enn um 2500 upp á það markmið sem hér er sett fram. Með tilliti til þessa og jafnframt með það í huga, að um 5–6 þús. Íslendingar þurfa að fá vinnu við iðnað á næstu 12–15 árum, teljum við framsóknarmenn skynsamlegt að stefna að því, að þeim virkjunum, sem ráð er fyrir gert í frv., verði lokið á 12 árum.

Hér lýsti hv. þm. Kjartan Jóhannsson hugmyndum þeirra Alþfl.-manna í virkjunarmálum. Undir margt það, sem þeir hafa sett fram, get ég tekið. Ég verð hins vegar að lýsa því, að eftir ítarlega athugun á þeim virkjunarhraða, sem þeir leggja til, þ. e. að virkja nánast þetta sama á 8 árum, fæ ég ekki séð að slíkt geti staðist, og augsýnilega mundi það valda gífurlegri þenslu. Því hygg ég að ráðlegra sé að fara aðeins varlegar í málin. Við höfum því sett markið við 12 ár eins og ég var að lýsa.

Að sjálfsögðu er slíkur virkjunarhraði háður því, að komið verði á fót arðbærum iðnaði til þess að nýta þá orku, sem er umfram almennar þarfir, og til framleiðslu eldsneytis, sem arðbær verður orðin á þessum tíma. Í því sambandi er sjálfsagt að leggja áherslu á ýmsar minni iðngreinar sem nýtt geta raforkuna. Hins vegar er að mínum dómi fjarstæða að afneita orkufrekri stóriðju, jafnvel með erlendri aðild. Við framsóknarmenn höfum á því sviði markað ákveðna stefnu. Við leggjum áherslu á að slík stóriðja sé að meiri hluta í eigu Íslendinga. Tryggja verður fullkomnar mengunarvarnir og verksmiðjan verður að lúta íslenskum lögum. Að sjálfsögðu eru minni verksmiðjur hentugri fyrir íslenskar aðstæður. Á þær ber því að leggja áherslu.

Því miður liggja enn ekki fyrir nægar upplýsingar um arðbæran orkufrekan iðnað til þess að unnt sé að móta ákveðna orkunýtingarstefnu. Í þessu sambandi er jafnframt nauðsynlegt að hafa í huga, að stærri virkjanir, t. d. Fljótsdalsvirkjun, geta verið vafasamar án iðnaðar sem nýtir verulegan hluta af afgangsorku þeirra. Iðnaðarathugunum þarf því að hraða.

Ef ákveðið er að virkja allt það, sem frv. gerir ráð fyrir, á 12 árum skiptir að mínu mati í raun og veru litlu máli í hvaða röð virkjað er. Æskilegt er að virkja utan eldvirkra svæða, eins og stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir. Hins vegar er mikilvægast að ekki verði að nýju orkuskortur eins og varð í vetur. Á því höfum við engin efni. Þjóðhagsleg hagkvæmni verður því fyrst og fremst að ráða virkjunarröð.

Frumvarp ríkisstj. um raforkuver er fyrst og fremst mikilvægur áfangi í stefnumörkun á sviði orkuvinnslu og orkunýtingar. Á þeim grundvelli, sem þar er lagður, þarf að vinna áfram og mikið á næstu mánuðum þannig að orkunýtingarstefna liggi fyrir í lok ársins.

Á morgun verður afgreidd frá Alþingi ný vegáætlun. Með henni er gert ráð fyrir verulegri aukningu fjármagns til vegamála. Eftir töluverða aukningu, sem varð á árinu 1980, var framlag til vegamála það ár 1.92% þjóðarframleiðslunnar. Nú verður það nálægt 2.1%. Það er í samræmi við till. til þál. sem ég hef lagt fram um langtímaáætlun í vegamálum. Í þessum áætlunum er m. a. gert ráð fyrir að leggja 150–200 km af bundnu slitlagi á ári. Það er gífurleg aukning frá því sem verið hefur. Samtals eru nú þjóðvegir með bundnu slitlagi aðeins um 360 km á landinu öllu.

Góðir hlustendur. Ég hefði gjarnan viljað ræða fleira, t. d. landbúnaðarmálin þar sem mjög athyglisverð aðlögun á sér stað að breyttum markaðsaðstæðum. Það og margt fleira verður að bíða seinni tíma.

Þessum orðum lýk ég með því að lýsa þeirri von okkar framsóknarmanna, að þessari ríkisstj. megi takast að standa við þau markmið sem hún hefur sett sér í efnahagsmálum. Það er sannfæring okkar, að þá muni henni og þjóðinni vel farnast.

Samfara því er nauðsynlegt að auka og bæta framleiðsluna. Á slíkri framleiðslustefnu hvílir framtíð þessarar þjóðar.

Ég þakka þeim sem hlýddu.