20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4744 í B-deild Alþingistíðinda. (4971)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem ég sagði áðan, nema ég vil þó gera aths. við það, hvað brtt. mín hefur fengið dræmar undirtektir. Það vefengir enginn, sem til þekkir, hið mikla vandamál, sem hér er til umræðu, eða nauðsyn skjótra úrbóta. Það vefengir þar af leiðandi heldur enginn nauðsyn á fjáröflun til að leysa málið. Ágreiningurinn er um það, hvernig eigi að afla peninganna.

Hv. þm. Albert Guðmundsson hrósaði Reykjavík fyrir stórt átak í málefnum aldraðra og er ég honum þar sammála. Á hann sjálfur mikið hrós skilið fyrir sinn þátt í því. En Reykvíkingar greiða til þess átaks eftir efnum og ástæðum, hver og einn með sínu útsvari. Það er einmitt það sama sem ég er að leggja til. Ég er að leggja til að menn greiði eftir efnum og ástæðum. Það er það sem till. á þskj. 983 gengur út á. M. ö. o.: menn greiði lítils háttar viðbót við sinn tekjuskatt sem er álagður eftir efnum og ástæðum.

Mér finnst alveg fráleitt að barn, 13–14 ára barn, sem vinnur sér inn í garðvinnu 2–3 þús. kr. yfir sumarið, skuli borga jafnháan skatt í þessu tilviki og hv. þm. Albert Guðmundsson, en þannig er frv., sem hann var að hrósa um leið og hann talaði á móti brtt. minni. Þetta finnst mér með öllu fráleitt. Mér finnst lítið geð guma., mér finnst lítil geð alþm. ef þeir eru tilbúnir að leggja jafnháan skatt á barnið, sem vinnur 2–3 vikur í garðvinnu yfir sumarið, og á sjálfa sig.