20.05.1981
Neðri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4767 í B-deild Alþingistíðinda. (4991)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mörgum kann nú að virðast það tilgangslítið að halda uppi umræðum af þessu tagi þegar langt er liðið á nótt, en ég held að ljóst sé af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, að það er mjög alvarlegur misskilningur uppi í sambandi við þetta mál, og ég held að þó að langt sé liðið á nótt sé ómaksins vert að ræða þetta mál nokkra stund hér ef það má verða til að eyða ýmsum misskilningi sem uppi er.

Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði áðan, og læt það nægja sem ég upplýsti um afstöðu fjmrn. í þessu máli. En vegna þess að máske verður gluggað í þessar umræður, sem hér fara fram í kvöld, af þeim sem síðar fjalla um þetta mál við framkvæmd þessara laga, tel ég alveg bráðnauðsynlegt að leiðrétta nú strax einn grundvallarmisskilning sem fram kom í máli hv. þm. Halldórs Blöndals nú seinast og gætir í tali margra annarra um þetta mál, en sá misskilningur er svo alvarlegur að mjög illt væri ef hann stæði án þess að honum hefði verið mótmælt.

Hv. þm. sagði að eftir að þessi lög hefðu komið til framkvæmda ættu forstöðumenn sjálfseignarstofnana og hálfopinberra stofnana að ákveða það í hverju verkalýðsfélagi starfsmennirnir yrðu, hvort þeir yrðu í einhverju Alþýðusambandsfélaginu eða í BSRB. Það er mjög alvarlegur misskilningur að málið snúist um þetta. Í dag er það svo, að starfsmenn þessara stofnana eru ýmist opinberir starfsmenn í BSRB eða í einhverju af Alþýðusambandsfélögunum. Ef forstöðumaður sjálfseignarstofnunar ákveður að þessi lög skuli taka gildi um hans stofnun afhendir hann fjmrn. samningsumboðið, en það breytir engu um stöðu starfsmannanna í verkalýðsfélögum. Þessir starfsmenn hafa væntanlega verið í ýmsum verkalýðsfélögum fyrir og þeir verða það áfram. Yfirlýsingin, sem gefin var í dag og gefin var 30. okt. um þetta mál af fjmrn., leggur einmitt sérstaka áherslu á að fjmrn. hyggst ekki breyta samningssviði Alþýðusambandsins í einu eða neinu við samþykkt þessara laga, heldur mun ganga út frá því, að það verði samið við BSRB-menn þar sem það á við og við Alþýðusambandsmenn þar sem það á við.