21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4780 í B-deild Alþingistíðinda. (5027)

336. mál, langtímaáætlun um vegagerð

Frsm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Til hv. fjvn. var á þessu þingi vísað tveimur till. sem fjölluðu um langtímaáætlun um vegagerð. Eins og kunnugt er höfum við sjálfstæðismenn flutt á undangengnum þingum till. um langtímaáætlun í vegagerð þar sem mörkuð er skýr og ákveðin stefna í vegamálum um stórauknar framkvæmdir, einkum að því er varðar uppbyggingu vega úr snjó og lagningu bundins slitlags á hringveginn og tengsl við helstu þéttbýlisstaði. Þessi till. hefur ekki fengið afgreiðslu á undangengnum þingum. Á yfirstandandi þingi lagði hæstv. núv. samgrh. fram till. um langtímaáætlun um vegagerð. Hafa þessar till. báðar verið til athugunar hjá hv. fjvn. Nefndin óskaði eftir því við Vegagerð ríkisins, að hún kannaði möguleika á að fella þessar till. saman og taka tillit til sjónarmiða í báðum þessum till. Nefndin hefur breytt þessum drögum, sem Vegagerð ríkisins lagði fyrir n., að verulegu leyti og varð sammála um að flytja þá till. sem fyrir liggur hér á þskj. 105. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta Vegagerð ríkisins gera í samráði við fulltrúa þingflokkanna langtímaáætlun um framkvæmdir í nýbyggingum vega og brúa í stofnbrautum og þjóðbrautum.

Fjárhagslegar forsendur áætlunarinnar séu þær, að 2.2% af vergri þjóðarframleiðslu sé að meðaltali varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun. Hlutfall þetta ber að skoða sem lágmark, en það skal aukið í 2.4% innan 3 ára, og skal áætlunin þannig úr garði gerð að auka megi framkvæmdahraða ef meira fjármagn kemur til en hér er gert ráð fyrir. Skal það m. a. gert með því að taka fyrir langa og heillega vegarkafla.

Áætlunartíminn skal vera 12 ár og skal framkvæmdum skipt niður í 3 tímabil, 4 hvert ár. Jafnframt skal gerð grein fyrir því í áætluninni, hverjar framkvæmdir eru eftir til að koma vegakerfinu í viðunandi horf, eins og það er metið á hverjum tíma. Langtímaáætlun þessi skal endurskoðuð fjórða hvert ár og þá bætt við nýju fjögurra ára tímabili í stað þess er lauk.

Við gerð áætlunarinnar skal stefnt að eftirfarandi jafngildum markmiðum:

1) Vegir hafi fullt burðarþol (10 tonn) allt árið.

2) Vegir séu byggðir upp úr snjó eftir því sem unnt er.

3) Bundið slitlag sé lagt á vegi, þar sem gera má ráð fyrir að umferð verði meiri en 100 bílar á dag allt árið, þegar viðkomandi vegur hefur verið fullgerður. Enn fremur skal leggja slitlög á vegarkafla næst þéttbýliskjörnum, þó að umferð sé minni, og á vegarkafla sem yrðu óhóflega dýrir í viðhaldi sem malarvegir vegna skorts á hentugu malarefni. Stefnt skal að því, að bundið slitlag verði lagt á a. m. k. 1/4 hluta stofnbrauta í hverju kjördæmi og samfelldir kaflar á vegakerfinu verði lagðir undir bundnu slitlagi.

4) Tekið sé tillit til umferðaröryggis við uppbyggingu vega.

Áætlun þessi skal lögð fyrir Alþingi eigi síðar en vorið 1982.“

Í fjvn. var meiri hluti fyrir því að afgreiða till. okkar sjálfstæðismanna úr nefnd, en hins vegar var ljóst að meiri hluti á Alþingi mundi trauðla vera fyrir slíkri till. þar sem hún hafði ekki fengist samþykkt á undangengnum þingum. En þegar þessi till. lá fyrir fannst okkur minnihlutamönnum í fjvn. að þessi kostur, að ná saman um slíka till. sem þessa, væri álitlegur og í rauninni markaði það viss tímamót, að Alþingi gæti náð saman með slíkt mál sem þetta, þó að á það beri að leggja hér áherslu að þetta sé fyrst og fremst og í rauninni ósk Alþingis um að láta gera áætlun sem síðar verði lögð fyrir Alþingi og að sjálfsögðu, eins og jafnan þegar slíkar till. eru lagðar fram af þn., þá hafi menn frjálsar hendur um að taka afstöðu til einstakra þátta þeirrar áætlunar þegar hún kemur fram.

Ég tel fyrir mitt leyti að það sé gengið hér mjög að ýmsum grundvallarsjónarmiðum sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram um vegamálm. Það má nánast segja að það sé sama markmið sett fram í þessari till. og í till. okkar þegar á heildina er lítið. Þó má kannske frekast að þessari till. finna að hún markar ekki stefnu í fjáröflun til vegamálanna eins og till. okkar gerði.

Ég held að það vefjist ekki fyrir neinum hv. þm., að vegamálin eru ein mikilvægustu framfaramál þessarar þjóðar. Það hefur verið mikið um það talað á síðustu árum, að þar sé ekki að finna einungis arðbærar framkvæmdir, heldur sé þarna á ferðinni málaflokkur sem mundi hafa í för með sér einna mestar félagslegar umbætur og treysta byggð í landinu. Þess vegna tel ég það merkan áfanga, að Alþingi nái saman um tillögugerð sem slíka, og vil vænta þess, að hún fái góðar viðtökur hjá þingheimi.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Þessari till. fylgir grg., sem skýrir málið nánar, og það verður að koma í ljós, þegar þetta verk er unnið, hvort það verður aðgengilegt eða ekki. En alla vega er það merkur áfangi ef slík áætlunargerð verður unnin í samráði við þingflokkana.