21.05.1981
Neðri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4829 í B-deild Alþingistíðinda. (5096)

213. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins aths. við orð hv. síðasta ræðumanns. Hann sagði að ég hefði vaknað seint til þess að huga að þeirri endurskoðun sem ég hafði hér kynnt að ég mundi láta fram fara. Ég tók til máls við 1. umr. um frv. til l. um dýralækna í hv. Ed. fyrir nokkrum mánuðum og kynnti þar bréfaskipti, sem fram hafa farið á milli rn. og yfirdýralæknisembættisins, og þær fyrirætlanir, sem þessu eru tengdar. Því miður missti ég af framsöguræðu hv. 1. flm. frv. um dýralækna hér í hv. Nd. Þykir mér mjög miður að hafa misst af þeirri umr. því að ég hefði kynnt þessar sömu fyrirætlanir þar.

Ég vildi aðeins láta þess getið. Þetta er mál sem hefur verið á döfinni síðustu vikurnar og síðustu mánuðina í rn., og samræming laganna, sem hv. þm. talaði um, var þar einnig í undirbúningi, en er frestað með tilliti til þeirra breytinga sem kunna að verða á lögunum við þá endurskoðun sem á döfinni er.