12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Í fyrsta lagi ætla ég út af ummælum hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar, 5. þm. Suðurl., að leiðrétta hluta af því sem hann sagði.

Þau lög, sem eru í landinu nú varðandi vaxtatekjur og munu gilda við álagningu skatts á árinu 1981 fyrir árið 1980, segja einfaldlega að allar vaxtatekjur, hvort sem eru af bankainnstæðum eða veðskuldabréfum hjá einstaklingum, séu skattfrjálsar. Það er mjög mikilvægt að þetta sé skýrt vegna þess að alls konar misskilningur er í gangi í þjóðfélaginu og einhvern veginn hefur mönnum ekki tekist að koma þessum ákvæðum til skila. Hitt er svo annað mál, að vaxtagjöld eru ekki frádráttarbær í öllum tilfellum. Þannig getur maður, sem skuldar 10 millj. kr. skuldabréf með vöxtum og á annað skuldabréf á móti, fengið skerðingu á vaxtafrádrætti sínum vegna eignarinnar. En frá og með árinu 1981, ef ekki verður gerð breyting á lögunum, munu vaxtatekjur hjá t.d. eldra fólki, sem selur húsnæði sitt og fær veðskuldabréf í staðinn, ekki verða skattskyldar. Þetta er eðlileg þróun og eðlileg breyting. Verðhækkun eigna þessa fólks, t.d. fasteigna, er ekki skattskyld. Það fær ákveðna vexti vegna rýrnunar veðskuldabréfa sinna og óeðlileg t að skattleggja slíkar tekjur. — Þetta vildi ég leiðrétta því að það er mikilvægt að menn túlki reglurnar rétt gagnvart því fólki sem á að búa við þær og er að gera alls konar ráðstafanir og selja eignir sínar í ákveðinni trú um ákveðnar reglur.

Varðandi það mál, sem hér er til umr. og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Halldór Blöndal flytja varðandi hærra mark á vaxtafrádrætti, liggur það fyrir að mörk í núgildandi lögum eru miðuð við allt annað verðlag en nú er, þ.e. 1 500 þús. hjá einstaklingi og 3 millj. hjá hjónum. Ég er alveg sammála því, að þessi mörk verður að endurskoða, en að hækka þau í 4 millj. á einstakling er nánast það sama og að fella mörkin niður. Það er skoðun mín að það sé miklu betra að fella alveg niður þessi mörk en að hækka þau í 8 millj. hjá hjónum.

Hvaða fólk er það, sem getur borgað 8 millj. á ári í vexti? Það er ekki nema hátekjufólk sem getur það. Venjulegt launafólk stendur hreinlega ekki undir því að taka nema ákveðna upphæð að láni vegna þess að það sér enga leið til að standa undir svona háum lánum og borga af þeim. Þannig hefur það verið á undanförnum árum, að þeir, sem hafa fengið mestan vaxtafrádráttinn í þjóðfélaginu, eru fyrst og fremst þeir sem hafa haft tækifæri til að taka lán og hafa haft lánstraust í bönkum vegna framtíðartekna sinna. Hins vegar hafa þeir vextir í sjálfur sér ekki verið vextir í þeim skilningi, heldur að mestu leyti haldið í við verðrýrnun peninganna. Þannig hefur ríkissjóður hjálpað þeim mun meir til þess að komast yfir eignir sem mest mega sín í þjóðfélaginu. Þessu geta menn ekki gengið fram hjá.

Það hefur verið almenn pólitísk samstaða hér á Alþ. um að setja bæri einhver takmörk á vaxtafrádrátt. Hver sú takmörkun á að vera er undir ýmsu komið, en ég held að það sé raunhæfast að miða þá takmörkun við það sem atmennt gerist hjá launþegum og það sem almennir launþegar geta staðið undir með sæmilegu móti.

Nú vil ég einnig taka fram í þessu sambandi, að það, sem er frádráttarbært núna, er aðeins greiddar verðbætur. Menn vita að verðbætur, sem falla á t.d. húsnæðismálastjórnarlán árlega, eru miklu meiri en þær verðbætur sem greiðast árlega, vegna þess að áföllnum verðbótum er deilt á allan lánstímann eða 25 ára tímabil. Af hámarksláni í húsnæðismálastjórn eru því ekki greiddar á fyrsta ári nema kannske 400–500 þús. í verðbætur og vexti, jafnvel þótt það séu einar 4 millj. sem lánið hækkar um. Það er mikilvægt að menn skilji þarna á milli þegar menn eru að hugsa um þetta hámark.

Ég vil taka það fram, að ég er því sammála að hámarki á vaxtafrádrætti þurfi að breyta. En ef á næstum því að þrefalda það tel ég miklu hreinlegra að leggja það niður og fella það úr lögunum. Það hámark, sem hér er sett, hefur engan tilgang.

Annað atriði. Ég skil þetta frv. þannig, að gert sé ráð fyrir að hætt sé við að gera tilraun til að skilja á milli vaxta til kaupa á íbúðarhúsnæði og annarra vaxtaútgjalda. Sú skilgreining er felld niður í þessu frv. Vissulega er nokkrum annmörkum háð að skilja þarna á milli, en hugsun laganna er sú, að vaxtafrádrátturinn og þeir fjármunir, sem eru til ráðstöfunar í því skyni í þjóðfélaginu, komi fyrst og fremst því fólki til góða sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, en þessi vaxtafrádráttur komi þeim ekki til góða sem hafa lokið því og eru að taka lán til annarra þarfa: bílakaupa, einkaneyslu og annars sem kannske skiptir ekki eins miklu máli og menn þurfa ekki eins á aðstoð samfélagsins að halda til að geta fullnægt. Þetta er mikilvægt í mínum huga. Það má með ýmsum hætti koma ungu fólki í húsakaupum til aðstoðar. Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi að auka þá aðstoð, en ekki endilega með því að hækka vaxtafrádráttinn sem mest, heldur geti einnig komið til greina að greiða niður að einhverju leyti þann mikla fjármagnskostnað húsnæðismálalánanna sem leggst á þetta fólk. Það er ein leiðin. Með vaxtafrádrættinum er í reynd ekki verið að gera neitt annað en að greiða þennan mikla fjármagnskostnað niður með óbeinum hætti. Þegar hæsta skattprósenta er 50% þýðir það að viðkomandi aðili greiðir þeim mun minni skatta og ríkissjóður verður af þeim mun meiri tekjum við það að vaxtafrádrátturinn er heimilaður.