21.05.1981
Efri deild: 116. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4854 í B-deild Alþingistíðinda. (5134)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Það er rétt, sem hv. frsm. sjútvn., 3. þm. Norðurl. v., sagði áðan, að það urðu býsna harðar umr. um þetta mál í Nd., enda hefur dragnótaveiði í Faxaflóa lengi verið hitamál.

Ég ætla að segja það strax, að ég er andvígur dragnótaveiðum í Faxaflóa í ljósi þeirrar reynslu sem af þeim veiðum hefur fengist fyrir ýmis byggðarlög hér við flóann. Ég ætla þó ekki að fara að hafa mörg orð um það mál. Hins vegar er skylt að taka það fram, að í þessari deild hefur þetta mál tekið töluvert aðra stefnu en í Nd. Ég tel að sú yfirlýsing, undirrituð af sjútvrh., sem hér fylgir með, geri þetta mál þess eðlis, að það er illskárra að þola það en áður var.