22.05.1981
Efri deild: 118. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4866 í B-deild Alþingistíðinda. (5155)

102. mál, Lífeyrissjóður Íslands

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér litlu við það að bæta sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður n. og frsm., sagði. Þar var, eins og hans er von og vísa, allt saman rétt og skilmerkilega frá greint. Það er kannske nokkuð óvanalegt að nefndir sendi frá sér álit með þessum hætti, að taka ekki afstöðu til málsins, en það hefði að sjálfsögðu verið hægt að gera og er hægt að gera í framhaldsnál. ef þing dregst á langinn sem ekki eru nú horfur á. En sem sagt, við vildum vekja athygli á frv. Þetta mun vera eina frv. sem nú er fullbúið og hefur verið lagt fram, en auðvitað geri bæði ég og aðrir flm. frv. okkur fulla grein fyrir því, að það mun ekki ná fram að ganga óbreytt. Að vísu er það nú svo, að þáltill., sem Alþfl. hefur lagt fram, er efnislega mjög svipuð þessu frv., og komið hafa fram hjá talsmönnum annarra flokka mjög svipuð sjónarmið, þannig að ég er að gera mér vonir um að á haustþingi muni verða unnt að samræma sjónarmið manna. Þau eru kannske ekki eins ólík, þegar þau eru skoðuð ofan í kjölinn, eins og menn í fyrstunni kynnu að álíta. Þessi lífeyrissjóðamál eru í mesta ólestri og óréttlæti í lífeyrissjóðamálunum er náttúrlega algerlega óþolandi. Það vita allir og gera sér grein fyrir og þess vegna hlýtur að verða gerð gangskör að því að leiðrétta misréttið og að koma á heildarskipun sem fólk getur áttað sig á og tryggir öllum landsmönnum hæfilegan lífeyri.

Ég er mjög þakklátur meðnm. mínum fyrir að vilja með þessum hætti vekja athygli á frv., gera mönnum grein fyrir því, að það er til umræðu, það er til umfjöllunar. Það mun verða til þess að hvetja aðra til að gera grein fyrir sínum skoðunum. En sú 17 manna nefnd, sem að þessu mun starfa, mun ekki vera komin nægilega langt áleiðis með sínar álitsgerðir. En vonandi hlutast ríkisstj. til um að þessi nefnd ljúki störfum, helst áður en þing kemur saman, og þá verði hægt að taka málið föstum tökum.

Málið var sent fjölmörgum aðilum til umsagnar, en aðeins fáir hafa þegar skilað aths. sínum eða umsögnum. Það má kannske segja að við í n. höfum ekki rekið nægilega á eftir þessum umsögnum. En við gerðum okkur grein fyrir því, a. m. k. ég, að þetta frv. mundi ekki ná fram að ganga á þessu þingi, bæði vegna ýmiss háttar anna og svo er það nú einu sinni svo, að þegar frv. kemur frá stjórnarandstöðu og það flókið frv. eins og þetta, þá er ekki venjan að þeir, sem með meirihlutavald fara, hlaupi til og samþykki slíkt skoðunarlítið — og jafnvel ekki með mikilli skoðun.

En mergurinn málsins er sá, að með þessu nál. er vakin athygli á málinu. Ég tel þetta hið merkasta mál. Það er ekki mér að þakka að þetta frv. hefur verið unnið. Það var gert af öðrum, eins og hér hefur fram komið. Guðmundur H. Garðarsson og fleiri fluttu það upphaflega og höfðu sérfræðing til að vinna frv. Eftir því sem ég kynnti mér málin meir sannfærðist ég meir um að þarna er í meginatriðum rétt stefna hvort sem einhverjar breytingar verða á frv. gerðar. En ósk mín og von er sú, að Alþingi muni bera gæfu til þess strax á haustþinginu að ná saman um að leysa úr þessu mikla óréttlæti og þeirri miklu flækju eða frumskógi sem þetta kerfi allt er komið í.

Ég endurtek þakkir mínar til nm.