22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4889 í B-deild Alþingistíðinda. (5224)

274. mál, varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka formanni landbn. Nd. fyrir þær brtt. um málfar sem hann flytur hér varðandi þetta frv. Ég vil í tilefni af þessum brtt. vekja athygli á því, að það gerist nú æ tíðara í málfari á frumvörpum og tillögum sem fluttar eru hér á Alþingi, að orðalag þeirra er með þvílíkum eindæmum, að það verður að mínu mati að fara að gera einhverjar lagfæringar í sambandi við þann „kansellístíl“ sem kemur fram í frumvörpum frá embættismönnum og ráðuneytum og er fyrir neðan allar hellur og Alþingi til skammar.

Mig langar að nefna nokkur dæmi úr þessu frv. sem hér liggur fyrir og hv. landbn. hefur flutt brtt. við. Þess má geta, að í jafnstuttu frv. og hér er á ferðinni og grg., sem því fylgir, kemur orðið skaðvaldur fyrir a. m. k. 11 sinnum. Þá má nefna fleira í orðalagi þessa frv. sem n. þótti einsýnt að yrði að breyta. Ég vil nefna sem dæmi að orðið mark er notað í fleirtölu, þ. e. hámark er notað í fleirtölu sem hámörk í frv. Síðan er talað um það á einum stað, að það skuli framkvæma aðgerðir. Hvað skyldu nú íslenskumenn í útvarpinu vera búnir að hamra oft á því að menn framkvæmi ekki aðgerðir? Menn gera ýmislegt og taka sér ýmislegt fyrir hendur, en þeir framkvæma ekki aðgerðir.

Þá er á öðrum stað í frv., í grg., talað um kartöfluskaðvalda. Ég verð að segja fyrir mig að ég er ekki alveg með á nótunum hvað þetta þýðir: kartöfluskaðvaldur. Er það maðurinn sem borðar kartöfluna? Hver er það sem gengur svona hart að kartöflunni að hann kynni að eyðileggja hana? (Gripið fram í: Sýklar.) Já, sýklar, meindýr, ýmislegt annað hefði verið hægt að nota í staðinn.

Ég vil nefna aðra setningu hér þar sem segir „að hún veiti tryggingu gagnvart skaðvöldum á öllum tegundum kartaflna“. Þarna er notað orðið gagnvart. Þar hefði mátt nota orðið gegn t. d. Svo kemur hér setning í grg. sem er skýring á 4. gr.: „Upplýsingaskylda almennings gagnvart þeim aðila, sem annast skal eftirlit eða framkvæmd með settum fyrirmælum.“ Hver skilur þetta? Ég skil þetta ekki. Það þarf talsverða yfirlegu til að tilgangurinn með þessari setningu síist inn í þá sem eiga um þetta að fjalla.

Síðan kemur ein setning sem einnig er frábær að mínu mati. Þar stendur: „Nauðsynlegt getur verið að banna ræktun á móttækilegum tegundum um tíma, meðan verið er að svelta ákveðinn skaðvald út. Með plöntur gæddar ákveðnum eiginleikum er t. d. átt við ónæm afbrigði innan sömu tegundar.“

Herra forseti. Ég vil nú beina því til forseta þingsins og þeirra ráðamanna sem með valdið fara í sambandi við þetta, hvort ekki væri unnt að þingið færi yfir eða hefði starfsmann, íslenskufræðing. Ég veit að hér er mjög fær maður, sem gegnir því starfi þegar hann hefur tíma til, a. m. k. fyrir þm. En nauðsynlegt væri að fá mann sem færi yfir frv. og tillögur og annað sem þinginu berst frá ráðuneytum og færði orðalagið og málfarið til betri vegar. Ég held að þetta væri mikið nauðsynjaverk. Eins og fram kemur í brtt., sem hv. formaður n. hefur gert grein fyrir, reyndi n. að gera nokkra bragarbót á þessu máli, en ég veit ekki hvort það hefur nægt.