22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4917 í B-deild Alþingistíðinda. (5258)

301. mál, umferðarlög

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er vægast sagt mjög margt í þessu frv. sem mjög orkar tvímælis hvort lögleiða eigi, svo að ekki sé meira sagt. Eins og þessi setning t. d. í 1. gr. frv.: „Heimilt er að aka á reiðhjólum og leiða reiðhjól á gangstéttum og gangstígum ef það er ekki til hættu eða óþæginda fyrir aðra vegfarendur.“

Þetta er furðuleg setning í lögum. „Ef það er ekki til hættu eða óþæginda fyrir aðra vegfarendur,“ segir í greininni. Hver á að segja til um hvenær þetta er til hættu eða óþæginda fyrir vegfarendur? Er það þegar slys hafa orðið á gangstéttum? Oftast held ég að segja megi að það sé til hættu eða óþæginda fyrir vegfarendur, sérstaklega fyrir gamalt fólk sem á erfitt með að víkja undan hættunni þegar hjólað er gáleysislega á stéttum. Margt aldrað fólk hefur látið í ljós ótta sinn yfir því, að þetta verði lögfest, og er það að vonum.

Ég held að óhætt sé að segja að hér sé í raun verið að keyra í gegnum þingið mál sem mjög skiptar skoðanir eru um og gangi gegn réttarvitund margra þm. að greiða atkv. með og efi í hugum margra að rétt sé að staðið. Það sést vel á því, að þrír nm. allshn., sem hafa athugað þetta mál, hafa fyrirvara á undirskrift undir nál. Hér er auðvitað um mikla skerðingu á persónufrelsi að ræða, þegar verið er með lagaboði að reyna að hafa vit fyrir fólki á þennan hátt, og raunar mjög skiptar skoðanir um málið úti í þjóðfélaginu. Í máli sem þessu tel ég að nauðsynlegt sé að fá fram hver er raunverulegur vilji fólksins til þess að lögleiða bílbelti, fá fram hvort meirihlutavilji sé fyrir slíku, áður en Alþingi tekur endanlega afstöðu til málsins. Ég tel að rétt væri að fá fram þá afstöðu áður en ákvarðanir eru teknar um að þvinga fólk gegn vilja þess til að nota bílbelti. Ég mun því flytja hér ásamt hv. þm. Albert Guðmundssyni og hv. þm. Karvel Pálmasyni till. til rökstuddrar dagskrár í málinu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þar sem æskilegt er að vita nánar um vilja þjóðarinnar í þessu máli, áður en Alþingi tekur endanlega ákvörðun um það, og í trausti þess, að afstaða hennar verði könnuð með þjóðaratkvgr. samfara næstu almennum kosningum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Nái þessi tillaga ekki fram að ganga mun ég sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.