13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

51. mál, bygging útvarpshúss

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég kem hér til að lýsa ánægju minni yfir því, að þessi þáltill. hefur verið lögð fram. Ég tel hana mjög tímabæra miðað við þá stöðu sem er nú í þessu máli.

Ég vil lýsa því yfir, að mér finnst það ekki orka tvímælis að Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins sé byggingarsjóður útvarpsins sem nota eigi til byggingar útvarpshúss. Og ég hef aflað mér upplýsinga um það, enda man ég vel að þegar umr. fór fram um till. hv. þáv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar um að auka framlag til sjóðsins úr 5% í 10% voru þm. almennt sammála um að það væri rétt og sjálfsögð ráðstöfun til að koma hreyfingu á þetta mikla mál.

Það væri vissulega freistandi í þessu sambandi að ræða hér um samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, valdsvið hennar og þá kannske fyrst og fremst um hvort hún ræður við það hlutverk, sem henni er ætlað samkvæmt lögum eða hvort það er æskilegt að slík nefnd hafi það hlutverk sem lögin gera ráð fyrir. Það hefur komið fram og er raunar alltaf að koma fram núna á hverjum einasta degi þegar er verið að ræða um opinberar byggingar, að það eru vankantar á því að þessi ágæta nefnd ráði við þetta hlutverk, bæði að því er varðar undirbúning mála og það hlutverk, sem hún hefur einnig, að segja til um hvort áform um opinberar byggingar séu þess eðlis að eðlilegt sé að láta framkvæmdir fara af stað. Þetta er umhugsunarefni sem ég held að við hv. þm. verðum að skoða í ró og næði og átta okkur á því, hvort hér er ekki þörf á að gera breytingu.

Það er ljóst að þau verkefni, sem Ríkisútvarpið glímir við, eru vissulega risavaxin. Umfram byggingu nýs útvarpshúss, sem allir sjá að er brýn nauðsyn og er raunar þjóðarskömm að ekki skuli hafa enn þá verið hafin sú bygging, þá er ljóst að langbylgjustöð útvarpsins er verkefni sem verður að fara að sinna því að gamla stöðin er að hrynja að mati sérfræðinga. Það á eftir að leggja stórfé í styrkingu og aukningu dreifikerfis hljóðvarps og sjónvarps um landið. Þetta þekkjum við. Einnig skortir hljóðvarp og sjónvarp — sérstakleg a hljóðvarp, — öll ný tæki sem nútíminn krefst á þessu sviði. Það er í þessu máli sem mörgum öðrum að mínu mati mjög brýnt að útvarpið setji upp vandaða fjárfestingaráætlun um öll þessi verkefni. Þegar ég segi: vandaða fjárfestingaráætlun á ég við að sú áætlun sé grundvölluð á þeim möguleikum sem bæði útvarpið sem stofnun og þjóðin hafa til að framkvæma þetta verkefni á eðlilega stuttum tíma.

Það væri vissulega freistandi að hefja hér umr. um fjárhagsvanda hljóðvarps og sjónvarps almennt. Það liggur fyrir í umr. að taprekstur á þessu ári á stofnuninni er sennilega yfir 1 milljarð. Það er margt sem þarna kemur til greina. Það væri t.d. freistandi að ræða um hvernig stendur á því, að þjóðfélagsgerðin skuli vera þannig að bókstaflega er komið í veg fyrir það með ýmsum ákvæðum í vísitölukerfi okkar að svona stofnun geti tekið eðlilegt gjald fyrir þjónustu sína. Um þetta mætti hafa langt mál, en ég ætla ekki að gera það hér. Þessi mál eru nú til meðferðar hjá fjvn. Það verður að segja eins og er: Því miður leysir fjárlagafrv. sjálft, eins og það liggur fyrir, ekki þennan vanda nema veruleg breyting verði gerð. Ég vil segja það hér, að við þm. getum ekki látið hjá líða að horfast í augu við þá staðreynd að þetta mál verðum við að leysa hér við afgreiðslu fjárlaga þegar að því kemur.

Bréf hæstv. menntmrh., sem hér hefur verið nefnt, til fjvn. hefur ekki enn verið tekið fyrir í n. Mér finnst eðlilegt að þegar til afgreiðslu fjárlaga kemur fyrir árið 1981 verði fjvn. búin að taka ákveðna afstöðu til byggingar útvarpshússins. Mér finnst ástæðulaust annað en fjvn. geri það. Ég tel að miður væri farið ef ekki væri hægt að finna lausn á þessu máli, ekki hvað síst þegar sú staðreynd liggur á borðinu, að framkvæmdasjóður útvarpsins, sem er ávaxtaður á vaxtaaukabókum, mun a.m.k. að því er varðar byggingu yfir hljóðvarpið standa algjörlega undir þeirri byggingu. Og ég tel að hvað sem líður því valdi, sem samstarfsnefnd um opinberar byggingar hefur samkvæmt lögum, hljóti að verða að rjúfa þessi tengsl í þessu máli og Alþ. sjálft að taka afstöðu til þess og draga ekki lengur að hægt verði að hefja þessa byggingu sem þegar hefur verið grafinn grunnur fyrir. Um það verðum við að sameinast.