18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna útreikninga hæstv. forsrh. á verðbólgunni fyrr og nú.

Við notum fjöldann allan af vísitölum, óteljandi margar næstum því, og við notum þær á allan mögulegan máta. Við berum saman ársgrundvöll, þriggja mánaða grundvöll, og allt þar á milli. Ýmsir stjórnmálamenn leika sér með þetta fram og til baka og fá þær tölur sem þeim henta í það og það skiptið, bera sem sagt saman ósambærilega hluti. Það gerir hæstv. ríkisstj. nú og hæstv. forsrh. Oft og tíðum að undanförnu fellur hann í þá gröf. Mér finnst að þá sé farið að taka í hnúkana þegar ríkisstj. beitir slíkum aðferðum.

Víðast hvar er verðbólga reiknuð út mánaðarlega og verðhækkanir frá byrjun til enda mánaðar yfirfærðar á ársgrundvöll. Þannig er verðbólgustigið reiknað út hjá öllum nálægum þjóðum. Við höfum aftur á móti nákvæman útreikning á þriggja mánaða fresti og yfirfærum það síðan á ársgrundvöll. Það er auðvitað rétt þó það sé ekki eins nákvæmt og annars staðar er notað. Hæstv. forsrh. notar þriggja mánaða tímabilið núna — það síðasta — og yfirfærir það á ársgrundvöll og fær út úr því að vísitalan nú sé um 51%. Þetta er auðvitað rétt. Hins vegar gerir hann sig sekan um að nota allt aðra aðferð þegar hann reiknar út verðbólguna áður en núverandi hæstv. ríkisstj. tók við. Þá notar hann ársgrundvöll.

Síðasta þriggja mánaða tímabilið áður en núverandi ríkisstj. tók við, þ.e. frá 1. nóv. 1979 til 1. febr. 1980, hækkaði verðbólgan um 9.1%, og þá nota ég verðvísitölu framfærslukostnaðar eins og venjulega er gert í þessum efnum, 9.1% sem segir á ársgrundvelli 41.2%, ekki 61% eins og nú er haldið fram. Um sumarið 1979 var vísitalan aftur á móti eða verðbólgan reiknuð á sama hátt 80%.

Það er hægt að leika sér með tölur og það gera óvandaðir stjórnmálamenn. Mér finnst það vera fyrir neðan virðingu hæstv. ríkisstj.