20.10.1980
Neðri deild: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég er mótfallinn því frv. til l. sem hér er til umr. Koma þar m.a. til rök sem hæstv. sjútvrh. sjálfur hefur notað um þetta gjald. Hér voru tilfærð rök eftir hv. þm. Garðari Sigurðssyni. Þau rök vil ég einnig gera að mínum og endurtek að ég tel þetta frv. ekki skynsamlegt í þessari mynd og er þá með engum hætti að afneita þeim vandamálum sem hér eru til staðar.

En ég hygg að þetta frv. til l. gefi ástæðu til að huga nokkuð að því kerfi í verðlagningarmálum sjávarútvegsins sem notað hefur verið, — þessu kerfi þar sem ríkisvaldið hefur oddamann við endanlega ákvörðun. Ríkisafskipti af þessu verðkerfi hafa á síðustu árum farið æ meira í vöxt. Ég hygg að það sé kominn tími til að við spyrjum grundvallarspurninga um réttmæti þessa kerfis. Saga þess er sú, að þegar farið var út úr hinu gífurlega uppbótakerfi í sjávarútvegi á árunum eftir 1960 beitti ríkisstj., sem þá sat, viðreisnarstjórnin, sér fyrir nýju kerfi og raunar í tveimur áföngum, fyrst 1960 og síðan árið 1964, í þeirri mynd sem við nú þekkjum þetta. Þetta var hluti af þeim stóru efnahagsráðstöfunum og virðingarverðu efnahagsráðstöfunum sem þessi ríkisstj. beitti sér fyrir á þeim árum. Ég hygg að á þeim tíma hafi þetta verið skynsamlegt kerfi. Ríkisfulltrúinn í verðákvörðuninni gegndi því hlutverki að bræða saman sjónarmið og hagsmuni sem eðli málsins samkvæmt voru tortryggnir hverjir á aðra.

En á síðustu árum hefur allt þetta kerfi breytt mjög um mynd. Fulltrúi ríkisins, sem auðvitað starfar vart sem sjálfstæður aðili, heldur er eins konar sendiboði fyrir ríkisstj. og þá pólitík sem hún er að reka á hverjum tíma í þessum efnum, er á síðustu árum farinn að gegna allt öðru hlutverki. Þátttaka hans þarna hefur í vaxandi mæli þýtt að sitjandi ríkisstj. tekur á sig ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem fiskverðið felur í sér. Það er viðurkennt af báðum samningsaðilum þegar ákvörðun er tekin, að bæði verði skipin rekin með tapi og fiskvinnslan. M.ö.o. eru hér gerðir samningar, sem engin verðmæti eru til á bak við. Vegna ábyrgðar ríkisvaldsins á þessum samningum skuldbindur það sig jafnframt til að bera ábyrgð á og hreyfa til efnahagsstærðir í kjölfar samninganna. Og með hverju er það gert? Jú, það er auðvitað gert með því fyrst og fremst að rýra myntina, að fella gengið, að láta það síga. Svo er komið að þessi ákvörðun, sem menn voru fyrir nokkrum árum sammála um að væri efnahagsráðstöfun af því tagi að um hana ætti ekki að vita áður en hún ætti sér stað, er orðin efnahagsráðstöfun sem menn eru farnir að tilkynna um leið og hún er látin gerast eða jafnvel með góðum fyrirvara.

Ég held að allt þetta mál, og þetta olíugjald er auðvitað ekki annað en tiltekin tilfærsla ríkisvalds á fé til þess að endar á samningum um fiskverð nái saman, fjalli um afskipti ríkisvalds sem séu óæskileg. Hið eiginlega kerfi í þessum efnum ætti að vera þannig, að tveir frjálsir aðilar, þ.e. fiskkaupendur og fiskseljendur, komi sér saman um verð á þessari vöru á frjálsum markaði og beri þá hver um sig ábyrgð á niðurstöðunni sem þar fæst.

Nú er þetta auðvitað mikil einföldun, og ég bæði játa og viðurkenni að öll þessi ákvarðanatekt er flóknari. Þetta er auðveldara að segja en að gera. Mér er líka ljóst að breytingar á þessu kerfi, þar sem farið væri — ég veit ekki hvort má taka svo til orða — til baka í áttina að frjálsu samningakerfi, gerast ekki á einni nóttu eða í einu vetfangi, en engu að síður stendur sannfæring mín til þess, að þessi umr. ætti einnig að leiða huga okkar að því og jafnvel kenna okkur að ríkisafskiptakerfi af þessum tilteknu samningum er komið út í fullkomnar ógöngur. Ríkið tekur á sig ábyrgð. Það er orðin viðurkennd stefna. M.a. fjallaði framsöguræða hæstv. sjútvrh. áðan um í fyrsta lagi ábyrgð ríkisins vegna afskipta af þessu og þar með hvernig ríkisvaldið grípi með lögþvingunum eða með öðrum hætti inn í. Almennt og yfirleitt talað leiðir ríkisafskiptastefna af þessu tagi af málum til þess, sem bæði verkalýðshreyfing og vinnuveitendur svokallaðir vilja forðast. Í sögu beggja þessara hreyfinga eru hugmyndir um að kerfi sem þessi eigi að vera frjáls og ekki eigi að koma til ríkisafskipta. Hins vegar er rétt, að það er tiltekinn klofningur hugarins í þessum efnum, bæði hjá verkalýðshreyfingu og vinnuveitendum, þ.e. hvar og þá hvenær ríkisafskipti séu æskileg. En í verðlagningarkerfi sjávarútvegsins hygg ég að við séum komin út í algjörar ógöngur með ríkisafskipti og það sé fullkomlega tímabært að hugsa þá hugsun upp á nýtt og hverfa aftur til frjálsra samninga þar sem viðsemjendur, annars vegar fiskkaupendur og hins vegar fiskseljendur, semja um þau verðmæti, sem þeir telja að möguleiki sé að semja um, og bera síðan sjálfir ábyrgð á niðurstöðum samninganna. Það er ein leið til þess að treysta stöðu gengis. Þá er væntanlega verið að semja um verðmæti að óbreyttu kerfi. Þetta er einn af þeim hnútum sjálfvirkninnar sem við verðum að fara að huga að að leysa.