19.11.1980
Neðri deild: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í fundarsköpum Alþingis er komist svo að orði um málfrelsi ráðh.: „Ráðh. mega tala svo oft sem þeim þykir þurfa, sbr. þó næstu mgr. hér á eftir og niðurlagsákvæði 38. gr.“ — En fremur segir, með leyfi hæstv. forseta, í 37. gr.: „Forseti gefur þm. venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð, er þeir beiðast þess. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðh. og frsm., svo og til þess, að ræður með og móti málefni skiptist á, eða til þess, að þm. geti gert stutta leiðrétting eða athugasemd, er snertir sjálfan hann.“

Ég get ekki séð að þessar heimildir eða leiðbeiningar um málfrelsi ráðh. réttlæti að hæstv. landbrh. hefur nú tvívegis fengið orðið. Í fyrra skiptið fékk hann orðið á síðasta fundi rétt um klukkan fjögur og talaði þá í umdeildu máli í hálftíma. Nú fékk hæstv. ráðh. orðið fyrir 40 mínútum, en þá voru tveir hv. þm. búnir að kveðja sér hljóðs og annar þessara þm., hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, hefur lýst því yfir á fundi þar sem hæstv. ráðh. var, að hann væri andvígur þeirri framkvæmd brbl. sem var í sumar, auk þess sem fyrir liggur að hann var fjarverandi er þessi brbl. voru rædd á þingflokksfundi. Ég get þess vegna ekki séð annað en að ég verði að gera athugasemd við það, að hæstv. ráðh. skuli geta gefið hér yfirlýsingar um skoðanir þm. sem eru á mælendaskrá, án þess að þeir hafi tækifæri til að svara fyrir sig sjálfir, og gagnrýna að hann skuli hvað eftir annað fá að hlaupa hér í ræðustólinn í lok ræðutíma án þess að einstakir þm. fái að svara fyrir sig.

Ég vil svo að öðru leyti aðeins segja að ég kann vel við röggsemi hæstv. forseta og finnst hann réttlátur í dómum sínum, en þess vegna harma ég þau mistök sem honum hafa orðið á gagnvart hæstv. landbrh.