20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Dagsetning fyrir krónuskipti hefur fyrir löngu verið ákveðin. Miklar athuganir hafa farið fram á slíkum krónuskiptum, bæði áður fyrr og snemma á þessu ári. Sérfræðingar, sem um það fjölluðu, voru um eitt sammála, að meginráðstafanir til að gera krónuskiptin varanlega gagnleg yrðu að gerast fyrir skiptin, meginráðstafanir vegna krónuskiptanna verða að gerast áður en skipt er um mynt, en ekki eftir á.

Nú eru liðnir 10 mánuðir og enn fást þau einu svör, að mál séu í athugun. Því miður er ógerningur annað en segja að þessi óvenjulega tregða ríkisstj. hafi valdið og valdi þjóðinni mikilli óvissu, sem hlýtur að auka verðbólgubálið, og að þessi loðnu svör sýni ótvírætt stjórnleysi í efnahagsmálum.

Það eina, sem hefur komið fram í opinberri tilkynningu nú nýlega, var fullyrðing um að ríkisstj. hefði tekið við 60% verðbólgu. Það er orðaleikur eins og oft áður um það efni. Þeir reikna sjálfir út við hverju þeir hafi tekið, það hefði alveg eins mátt reikna 20–30 ár aftur í tímann og segja að þeir hafi tekið við 1000% verðbólgu eða eitthvað svoleiðis.

Samkv. sérstakri rannsókn, sem gerð var af Efnahagsstofnun þegar núv. ríkisstj. tók við, hafði verðbólguaukning á 4 mánuðum þar á undan verið 16–17%, sem framreiknað á ársgrundvöll er 42%. Ég endurtek það

sem hv. þm. Magnús Magnússon sagði hér síðast og við höfum sagt áður, að það er ómerkilegt af ríkisstj. að leika slíkan talnaleik í fölsunarskyni.