20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég mótmæli harðlega málflutningi hæstv. forsrh. þegar hann dregur þrjár eða fjórar linur út úr plaggi sem er ekki stefna Alþfl. í efnahagsmálum, heldur hugmynd sem flokkurinn lagði fram sem umræðugrundvöll í sambandi við myndun ríkisstj. Þessar fáu línur, sem hann dregur út, eru auðvitað það neikvæða, en hann sleppir öllu hinu og m.a. því, að þetta plagg, sem var unnið af sérfróðum mönnum, þeim sömu sérfræðingum sem aðrir flokkar nota hér og treysta, hefði örugglega tryggt það að verðbólgan í lok ársins hefði orðið 30%, þannig að hagur launþega hefði við þær skipulegu aðstæður í launamálum, sem þarna var gert ráð fyrir með öðrum aðgerðum, staðið betur, að ég hygg, heldur en hann stendur í dag.

Ég vil taka fram að Sjálfstfl. var þá óklofinn og fyrir hans hönd og varaformanns flokksins fengu þessar tillögur ágætar undirtektir svo það er ekki að ástæðulausu að okkur gruni að hæstv. forsrh. sé móttækilegur fyrir eitthvað slíkt — slitið úr samhengi eins og hann gerir sjálfur við plaggið.

Varðandi hans hátign Ólaf Ragnar Grímsson vil ég segja honum það, að fulltrúar í verkalýðsfélögunum á Íslandi þekkja vel efnahagstillögur undanfarinna ára. Allar þær tillögur, sem hann ruddi úr sér og kallaði kjaraskerðingartillögur Alþfl., eru vel kunnar verkalýðsleiðtogum. Þó hefur farið svo að þeir hafa ekki í áratugi kosið eins marga Alþfl.-menn á Alþýðusambandsþing og nú. það er svarið við hávaðanum og látunum í þessum hv. þm.