20.11.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

91. mál, nýting silungastofna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil líka lýsa yfir stuðningi mínum við þessa till., en ég vil samt að þessi umr. endi ekki þannig að það komi ekki hér fram, að það hefur verið unnið dálítið að þessum málum á undanförnum árum. Ég held að það hafi verið sagt af hv. frsm. og 1. flm. þessarar till., að það sé bara eitt vatn í landinu sem sé fullnýtt, þ.e. Mývatn. Ég er áhugamaður í sambandi við fiskrækt og hef farið í nokkur vötn og kynnt mér ögn þessi mál, þó að sú vitneskja sé auðvitað mjög takmörkuð því að þarna er um stór svæði að ræða. Ég veit ekki betur en að t.d. Veiðivötn séu að dómi þeirra, sem hafa umráðarétt yfir þeim, í sjálfu sér fullnýtt. Þar er takmörkuð mjög veiði í sumum vötnunum vegna þess að þeir telja að ekki sé vogandi að veiða þar eins mikið og ásóknin er í þessi vötn.

Ég þekki líka töluvert til vatnanna á Melrakkasléttu og sum þau vötn — kannske eru þau fá, en þau eru þó til — eru fullnýtt að dómi þeirra manna sem þekkja þar til. En það er dálítið einkennilegt með vötnin á Sléttu, að það eru mjög fá vötn þar sem þýðir að renna t.d. og reyna að veiða með stöng, fiskurinn tekur ekki, og það eru ekki eingöngu þau vötn sem eru ónýtt. Því hefur verið haldið fram, að í þeim vötnum þar sem er mikið af silungi, taki hann síður. Ég kom t.d. til bónda í sumar, sem nýtir sitt vatn alveg, og hann vissi til þess, að einu sinni í öll þau ár sem hann hafði verið þar hefði fiskur tekið á spón eða á stöng. Kannske fer þetta eitthvað eftir stofnum, ég veit það ekki, ég hef ekki þekkingu á því.

Ég vil líka að það komi fram, að nú hafa Stéttarsamband bænda og landbrh. stutt við það að menn fari að læra fiskrækt, og nú eru t.d. nokkrir menn að nema þá námsgrein í Noregi og annars staðar þar sem menn eru komnir lengra á veg en við að nýta sér þessi mál, og sérstaklega eru þeir að læra eldi á lax og silungi í sjó.

Þessi till. er samt tímabær að því leyti til, að það þyrfti að gera meira í þessum málum. En ég hygg að okkur vanti enn sem komið er nógu marga kunnáttumenn til þess að kanna ástandið og lífsskilyrðin í þessum vötnum, því að það er erfitt að gera sér fulla grein fyrir ástandi þessara mála nema láta kanna ástand vatnanna sem munu vera mjög breytileg frá einu vatni til annars.

Ég vona svo að þessi till. verði til þess að ýta frekar við þessum málum. Það er enginn vafi á því, að töluverður möguleiki er á að rækta silung í vötnum, þó að ég sé því miður hræddur um að sumir hverjir telji þessa möguleika meiri en þeir muni reynast.