27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

57. mál, takmörkun aðgangs erlendra herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel að Benedikt Gröndal, 4, þm. Reykv., hafi hér hreyft mjög nauðsynlegu og nýtu máli sem rétt sé að fái hér skjóta og greiða afgreiðslu. Mér sýnist hins vegar að það sé tilhneiging til þess, að umr. hneigist í nokkuð annan farveg og það gæti barnalegrar bjartsýni um vissar hugmyndir í því sambandi. Það er jafnvel gefið í skyn, að ef varnarliðið hyrfi héðan á brott mundi öll herskipaumferð í grennd við landið hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ég held að þessu sé einmitt þveröfugt farið. Þá fyrst mundi kapphlaupið aukast ef þetta gerðist, þá mundu stórveldin vissulega keppast um að reyna að fara víðast um þetta svæði allt, þá hefði hér verið raskað ákveðnu jafnvægi og kapphlaupinu hefði verið hleypt af stað. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr að varnarlið sé hér á landi og við tökum þátt í NATO, þá held ég menn verði samt að viðurkenna að á seinustu áratugum og eftir að þessi skipan mála komst upp hefur ríkt hér friður og bærilegt jafnvægi. Það byggist á því, að bæði stórveldin vita nákvæmlega hvar þau standa að því er þetta svæði heimsins varðar.

Ég held að líka sé barnalegt að ætla að einföld þál. Alþingis um að hér um slóðir yrði kjarnorkuvopnalaust svæði mundi valda því, að þeir, sem tala hæst um vopnabúnað í Bandaríkjunum, hættu því, það yrði eins og tappi herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands. 1000 upp í forsetaefnið Reagan. Ég hef ekki trú á því. Ég hef ekki heldur trú á því, að það mundi hafa þau áhrif að Rússar hyrfu út úr Afganistan. Sannleikurinn í þessu máli er auðvitað sá, að þó að það sé góðra gjalda vert að gefa yfirlýsingar af þessu tagi hljótum við ævinlega að skoða málin raunhæft. Stórveldin bæði standa grá fyrir járnum hvort frammi fyrir öðru. Það næst áreiðanlega ekki árangur eftir öðrum leiðum en þeim sem t.d. Willy Brandt hefur barist fyrir um slökunarstefnu, þar sem tortryggni sé eytt stórveldanna í milli og þar sem skrefin eru tekin hvert og eitt fyrir sig og með þeim skilningi að það eina, sem stórveldin geta sætt sig við, er að það ríki jafnvægi þeirra í milli.

Ég get vel hugsað mér að í framtíðinni gæti ákvörðun af þessu tagi verið liður í slökunarstefnunni. En einhliða ákvörðun mundi einungis verða til þess að skapa óróa. Ég held að það sé nauðsynlegt, að við gerum okkur grein fyrir þessu. Besta framlag okkar til þess að gera friðvænlegra í heiminum er vitaskuld að hvetja til þess, að þeim tilraunum, sem uppi hafa verið í slökunarátt og um gagnkvæma afvopnun stórveldanna, verði haldið áfram. Ég læt mig dreyma um að af slíku gætum við Íslendingar haft verulegan ávinning í framtíðinni.

Ég get tekið undir þau orð sem hér hafa fallið um hörmulega þróun í vopnabúnaði, stórkostlega fjármuni sem varið er til slíks á sama tíma og milljónir manna, tugmilljónir manna svelta. En einmitt þess vegna held ég að við eigum að leggja áherslu á að hjálpa til við þá slökunarstefnu sem Willy Brandt má teljast upphafsmaður að, en hefur að vísu átt í nokkrum erfiðleikum undanfarið. Það er lykillinn að því að draga úr vígbúnaðarkapphlaupinu með raunhæfum hætti. Það er lykillinn að því að leysa úr læðingi fjármuni og krafta til þess að mæta þeim hörmungum sem við búum við á ýmsum öðrum stöðum á jarðkringlunni.

En þetta segi ég einungis vegna þeirrar umr. sem hér hefur farið fram. Ég veit að það eru skiptar skoðanir um dvöl varnarliðsins hér á landi og það mál verður ekki útkljáð á neinn nýjan hátt hér á þessum stað í dag. En sú till., sem Benedikt Gröndal hefur flutt, er gott og nauðsynlegt mál og ég held að það væri sómi Alþingis að afgreiða það fljótt og greiðlega. Það er spor í rétta átt, það er spor sem ég tel að við eigum að stíga.