02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Þingheimur heyrði vandlætingartóninn í hæstv. félmrh. þegar hann var að fárast yfir því, áð þm. hefðu ekki nægilegan skilning á þeim erfiðleikum sem þjóðarbúið hefði orðið fyrir vegna olíuverðshækkana undanfarið. Það hefur enginn dregið í efa þá erfiðleika. En nefndi þessi þáv. hv. þm., núv. hæstv. ráðh., einu orði á þeim tíma langtum meira áfall, langtum meiri verðhækkun olíu á árunum 1973 og 1974? Hann tók þá slíkt áfall þjóðarbúsins, sem var hér um bil helmingi meira hvað viðskiptakjararýrnun snerti, ekki alvarlega. Hann hafði ekki skilning á því þá. En við í stjórnarandstöðunni núna höfum mjög góðan skilning og undirstrikum að þetta hlýtur að hafa áhrif á hag allra landsmanna.

Hæstv. ráðh. talaði í fyrri ræðu sinni um að kaupmáttarskerðingin ætti rætur sínar að rekja til Ólafslaga. Hver bar ábyrgð á Ólafslögum? Var það ekki hæstv. ráðh.? Greiddi hann ekki atkv. með þeim lögum? Og var ekki hæstv. ráðh. í síðustu ræðu sinni að tíunda þrjú eða fjögur atriði sem þau lög hefðu breytt frá samningum vinnuveitenda og launþega, „sólstöðusamningunum“ sem hæstv. ráðh. lofaði að setja í gildi? Hann játaði í þessum ræðustól að hann hefði skert þá samninga, skert kaupmáttinn samkvæmt þeim samningum, hann hefði svikið loforðið um „samningana í gildi.“ Þetta er játning hæstv. ráðh. fyrir þingheimi og þarf ekki frekar vitnanna við.