07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

129. mál, lokunartími sölubúða

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun veita þessu frv. brautargengi til nefndar og veit að í nefndinni leita menn upplýsinga um málið, eins og það liggur nú fyrir, og fá að sjálfsögðu þau sjónarmið sem komið hafa fram í umræðum um þessi lokunartímamál undanfarið í borgarstjórn Reykjavíkur og víðar. Ég mun því ekki á þessu stigi tala langt mál.

Hér er mikið talað um og margminnst á hagsmuni neytenda, að þeir séu augljósir. Ég er ekki viss um að þeir séu augljósir. Það er mikil kostnaðaraukning við að hafa fyrirtæki opin fram eftir á kvöldin. Það þarf að lengja vinnutíma starfsfólks. Það eru ekki bara augljósir hagsmunir neytenda. Það getur vel verið að verðlag þurfi að breytast. Það hefur verið rætt. Það hafa komið rök með og rök á móti. En það, sem ég held að sé hvað mest áberandi, er að ekki er hægt að aðskilja neytendur og atvinnurekendur eða verslunarmennina sjálfa og verslunareigendur. Þeir eru líka neytendur. Þeir þurfa líka að komast í aðrar búðir en þær sem þeir starfa í. Hvar endar þetta hagsmunakapphlaup? Fyrir hvaða neytendur er unnið? Það er eins og sé verið að skipta fólkinu í neytendur annars vegar og einhverja aðra sem ekki eru neytendur. Af hverju koma þá ekki þessir hugdjörfu talsmenn frjáls vinnutíma með tillögur um að gefa verslunina frjálsa á allan hátt og hætta forsjá opinberra aðila með þeim, sem kallaðir eru neytendur, og hinum, sem ekki eru viðurkenndir neytendur?

Ég mun sem sagt ekki ræða þetta mál frekar. Ég er alveg sannfærður um að þegar málið hefur fengið málefnalega athugun í nefnd verða flm. þessa frv. komnir á aðra skoðun en kemur fram í frv.