08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Mér finnst nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn þegar hæstv. viðskrh. er að láta liggja að því, að dráttur á aðgerðum ríkisstj. í þessu máli sé mér að kenna. Hæstv. ráðh. skipaði mig í þessa nefnd. Hann skipaði líka fleiri. Ég hef gengið út frá því, að störf nefndarinnar hafi verið unnin í samráði við ráðh., þó að ráðh. hafi ekki haft samband við mig í því efni. En ég lofaði ráðh. því áðan, að ég skyldi á næsta fundi nefndarinnar leggja til að nefndin legði þegar í stað til að orðið yrði við þeim tillögum sem ég hef lagt fram í þessu efni.

Hæstv. ráðh. talaði um að þetta væri mjög víðtækt mál. Auðvitað er þetta víðtækt mál, upphitunarmálin. Ég hef hér aðeins verið að ræða um olíuupphitun, en hæstv. ráðh. minntist á frv. sem við vorum flm. að, ég 1. flm. og hann 2. flm. og fleiri sómamenn á eftir okkur. En hæstv. ráðh. er búinn að gleyma því, að í þessu frv. var um fleira að ræða en bara niðurgreiðslu á olíu til beinnar olíuupphitunar. Þar var um að ræða niðurgreiðslu á olíu til fjarvarmaveitna, rafveitna til rafmagnsframleiðslu o. s. frv. Þetta vil ég minna hæstv. ráðh. á. En hæstv. ráðh. var þess mjög minnugur, hve gott frv. þetta var, vegna þess að þegar sett var sú löggjöf, sem nú gildir um þetta efni, var því lofað af hálfu ráðh. að löggjöfin yrði hið bráðasta endurskoðuð og þá skyldi taka tillit til þess frv. sem við ásamt félögum okkar lögðum fram og ég var að vitna til áðan.