08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þegar útvarpsumræður fóru fram, að mig minnir 22. okt., um stefnuræðu forsrh., kom það mjög ljóslega fram í þeirri stefnuræðu og sömuleiðis í ræðum Alþb.-manna og þeirra sjálfstæðismanna, sem töluðu í þeim umr. og eiga sæti í ríkisstj., að allt væri með eðlilegum hætti. Atvinnulífinu og gangi þess var lýst með ákaflega fögrum orðum. Saltfisksverkun og skreiðarverkun er rekin með hagnaði, afkoma frystingar er lakari, var sagt í stefnuræðunni. Það voru aðeins fulltrúar Framsfl. sem töluðu af sér í þessum umr., fóru út af línunni og sögðu að það væri ekki allt með felldu í þjóðfélaginu. Þeir höfðu áhyggjur af ýmsu, bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh. Því má kannske ætla og þjóðin ætlar kannske að það sé ekki þörf á neinum efnahagsaðgerðum fyrst allt var í svona góðu lagi 22. okt. Það var allt slétt og fellt og stefnuræðan var sett í mjög góðan búning, enda smekkmaður sá sem er aðalhöfundur þeirrar ræðu þó að aðrir hafi lagt henni eitthvað til.

Hv. síðasti ræðumaður, sem var að ljúka máli sínu, minntist á að þrír ráðherrar væru nú erlendis þó að nú væri komið að afgreiðslu fjárlaga og jafnvel fleiri mála. Það er nú þannig með þessa hæstv. ríkisstj., að það er aldrei minna í burtu eða úr landinu en þrír ráðherrar og upp í sjö. Formenn þingflokka beggja stjórnarflokkanna, Alþb. og Framsfl., eru einnig erlendis, sagði síðasti ræðumaður, sem er rétt. Er að búast við því, að þ jóðin liti á Alþingi sem stofnun, sem taki málefnin alvarlega, þegar þannig er kastað til höndunum á öllum sviðum?

Ég get mætavel skilið hæstv. landbrh. þegar hann óskaði eftir því við 1. þm. Reykv., formann Sjálfstfl., að hann biði með þessa fsp. þar til hinn reglulegi forsrh. væri kominn heim. Það er ekkert gaman að svara fyrir svona stjórnleysi, og það er mikil tryggð, sem hann sýnir, að standa upp og reyna að svara þó að svarið hafi auðvitað verið ákaflega lítið, enda var ekki við öðru að búast, það er eins og efni standa til. Hitt líkar mér ekki, þegar er starfandi nefnd á vegum ríkisstj., að þeir annaðhvort óski eftir eða láti draga sig í fjölmiðla til þess að gefa þar yfirlýsingar. Ég hélt að þetta væru undirsátar ríkisstj. Það eru þessir menn sem tala, en ríkisstj. er mállaus, a. m. k. hér á Alþingi, gersamlega. Að vísu er hún ekki mállaus, eins og síðasti ræðumaður sagði, þegar hæstv. ráðherrar koma út í bæ, þegar þeir ávarpa einhverja aðra fundi, eins og formaður Framsfl. Í þessu bréfi, sem heitir Sambandsfréttir og er fréttabréf Sambands ísl. samvinnufélaga, sem hlýtur að fara með áreiðanlegar heimildir af ræðu sjútvrh., segir: „Hann ávarpaði fundinn og ræddi einkum efnahagsmál og baráttuna við verðbólguna. Hann kvað verðbólguna í ár verða um 40% sem væri talsverður árangur, því að hún hefði stefnt í 70–80% s. l. haust. Hins vegar kvaðst hann sannfærður um að fiskverðshækkunin, sem nú er fram undan, yrði ekki undir 13–14%, sem væri hækkun sem atvinnuvegirnir gætu augljóslega ekki tekið á sig án aðstoðar. Ljóst væri að á næsta ári færi verðbólga yfir 50%, ef ekkert yrði að gert, og yrði slíkt að teljast algert skipbrot svo áfram væri nauðsynlegt að beita varnaraðgerðum.“

Þegar þetta var ljóst lét formaður Alþb. í sér heyra og var ekki ánægður með yfirlýsingu formanns Framsfl. Ég spyr: Varðar Alþingi Íslendinga ekkert um efnahagsmál? Varðar Alþingi Íslendinga ekkert um það, að slíkar yfirlýsingar séu gefnar? Er það hyggilegt fyrir einn ráðh. að tala um, áður en hin réttu samtök koma saman, hvað fiskverð eigi að hækka eða hvað landbúnaðarafurðir eigi að hækka eða einhverjar aðrar vörur, — tala um það við fólk úti í bæ? Á ekki að leita samninga og samstarfs á milli þeirra aðila sem eiga að ráða fram úr vandanum með ríkisvaldinu? Hér er sem sagt verið að gefa boltann. Það er lágmark, að ég fel, að fiskverðið hækki um 13–14%. Þeir, sem vilja fá hækkað fiskverð, grípa þetta vitaskuld fegins hendi og segja: Meira að segja ráðh. sagði 13–14% lágmarkshækkun. Þá held ég að þeir geti nú hækkað eitthvað fram yfir það til að koma til móts við okkur og okkar sjónarmið. — Þetta er ekki talinn hygginna manna háttur í samningum.

Nú er ég ekki að segja að fiskverð eigi ekki að hækka, ég vil taka það fram. Á meðan þessar víxlhækkanir eru, þá er ekki hægt að ráðast á eina stétt, sjómenn og útgerðarmenn, eins og hefur verið gert af hæstv. ríkisstj. nú við síðustu fiskverðsákvarðanir.

Það er eftirtektarvert að þegar slík umr. sem þessi fer fram, þá situr aðeins inni staðgengill forsrh. af ráðherrum ríkisstj. og hæstv. viðskrh. Ráðherrar Alþb. taka sprettinn. Maður sér bara í afturendann á þeim hér út úr þingsalnum, þeim sem ekki voru komnir út áður en umr. byrjuðu. Fjmrh. spratt upp úr sæti sínu þegar farið var að tala um efnahagsaðgerðir. Hvað varðar hann um að ræða efnahagsaðgerðir við Alþingi Íslendinga? Hann er ráðamaðurinn uppi í Arnarhvoll. Þar eru ráðin tekin. Hér er talað um það af töluverðu steigurlæti af hæstv. landbrh., að ríkisstj. hefur ekki ákveðið hvenær Alþingi fari í jólafrí. Ég vil benda hæstv. ráðh. á að það er Alþingi sem á að taka þessa ákvörðun en ekki ríkisstj. Það er Alþingi sem á að samþykkja hvenær það fer í jólafrí og hvað það verður lengi. Og það kemur ekki til greina, ef hér á að ríkja þingræði í þessu landi, að þm. verði sendir heim þegar ríkisstjórninni passar, hvor sem ráðh. verða hér á landi eða annars staðar. Alþingi á kröfu til þess og þjóðin á kröfu til þess, að vandamál þjóðarinnar séu lögð fram á Alþingi, en ekki á fundum hingað og þangað úti í bæ, og að þar séu ekki gefnar mikilvægustu yfirlýsingarnar. Þetta verða þessir ágætu menn að hafa í huga.

Hv. frummælandi hér sagði að þegar núv. ríkisstj. var mynduð hefði það verið gert til þess, að sagt var af þeim, að bjarga heiðri Alþingis. Hvað er orðið um heiður Alþingis núna, þegar litið er á Alþingi sem ómerkilega afgreiðslustofnun fyrir það sem ríkisstj. í lítillæti sínu leggur fyrir það, en að öðru leyti virðast þeir ráða alveg sjálfir ferðinni hver fyrir sig? Það er stundum hægt að nota Alþingi, ef menn vilja hægja á einhverjum málum, en það er hægt að afgreiða fram hjá Alþingi milljónir og tugi milljóna kr. á sama tíma og framlög og ákvarðanir Alþingis eru hundsaðar á mörgum sviðum. Þetta vitum við að er satt og rétt og hér er komið undir því, hvort þeir þm., sem enn þá hafa þrek til að styðja núv. ríkisstj., ætla að láta nota sig lengur til slíkra verka og láta lita á sig sem jafnþýðingarlausa persónu og ríkisstj. litur á sitt þinglið.