09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Eins og hefur áður komið fram í þessari umr. hefur þetta frv. þrívegis verið flutt áður hér á Alþingi, en hefur eigi náð fram að ganga. Í sjálfu sér sýnist ekki vera mála brýnast að setja á stofn sérstakt ráð eða stofnun til að annast þau verkefni sem í þessu frv. er fjallað, og raunar heyrist mér máli þeirra hv. þm., sem hér hafa þegar talað, að á það séu menn nokkuð sáttir.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki ástæða til að stofna sérstakt ráð eða stofnun til að fjalla um þessi mál. Hins vegar vil ég á það benda, að nokkrir þm. Alþfl. í Nd. hafa flutt frv. til l. um mörkun byggðastefnu og byggðaþróunaráætlana og í því frv. er fjallað um Byggðastofnun ríkisins, sem samkv. frv. skal starfa í tveimur deildum, áætlanadeild og lánadeild. Auðvitað væri mjög eðlilegt að mál af þessu tagi heyrði undir Byggðastofnun ríkisins. Í 7. gr. þess frv. segir, með leyfi forseta, þar sem fjallað er um áætlunardeild, að sú deild fjalli einnig um áhrif opinberra aðgerða á byggðaþróun og geri tillögur til úrbóta ef þörf krefur. Þannig finnst mér að megi með nokkrum hætti segja að gert sé ráð fyrir því í þessu frv. um byggðastefnu og gerð byggðaþróunaráætlunar, að Byggðastofnun ríkisins hafi það hlutverk sem þessu flutningsráði er ætlað samkvæmt því frv. sem hér er til umr. Nú hefur það komið fram í þessum umr. að þótt svo í lögum séu ákvæði um það, hvar ákveðnar stofnanir skuli hafa aðsetur og höfuðstöðvar, þá er þeim ákvæðum ekki hlýtt. Ég tek undir þá hugmynd, sem hér kom fram hjá hæstv. utanrrh. í sambandi við þær umr. og þau ummæli sem hér hafa fallið um aðalskrifstofu Síldarverksmiðja ríkisins, að þm. þess kjördæmis taki sig nú saman og riti viðkomandi ráðh. bréf og bendi honum á að fara að lögum landsins. Þetta finnst mér vera sjálfsagt mál og hefði raunar átt að gera fyrir löngu, strax og þetta mál kom upp, vegna þess að séu þetta landslög, þá er hitt auðvitað ekki til umræðu að óbreyttum lögum. (Gripið fram í.) Við skulum vona að hann láti skipast við það og hlíti landslögum.

Aðeins, herra forseti, eitt að lokum varðandi þau ummæli sem hæstv. utanrrh. viðhafði hér um 6. gr. þessa frv. Ég er honum fullkomlega og algerlega sammála og mun beita mér fyrir því, verði þetta mál afgreitt frá allshn., að þá verði það örugglega ekki afgreitt með þessu orði, starfskraftar. Satt best að segja er þetta ónefni sem ekki ætti að heyrast eða sjást og er óþarft vegna þess að þess í staðinn geta komið ágætisorð eins og starfsfólk og starfsmenn. Mér finnst oft umr. um þetta og sú hlægilega viðkvæmni, sem hjá sumum gætir gagnvart þessu bera það með sér að menn gleyma því, að samkv. íslenskri málvenju eru konur menn.