09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Bjarnason ræddi nokkuð almennt um stjórnmálin í sambandi við það mál, sem hér er til umr., og skammaði ríkisstj., eins og hann er vanur, og fann henni flest til foráttu. Það mætti nú segja ýmislegt um stjórnarandstöðuna. Hún hefur haft sitthvað að gera í sumar og haust annað en að standa í eðlilegum landsstjórnarmálum og stjórnarandstöðu á þeim vettvangi. En ég skal ekki fara nánar út í það hér. (Gripið fram í.) Ég get ítrekað það sem ég sagði í útvarpsumr., að það eru tvö atriði sem eru sérstök áhyggjuefni. Ég hef ekki farið leynt með það og hæstv. sjútvrh. ekki heldur. Það er annars vegar rekstrargrundvöllur atvinnuveganna og hins vegar vaxandi skuldasöfnun við útlönd. Það er því enginn nýr sannleikur sem hér kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni. Við höfum viðurkennt þetta og talið þetta vera vandamál sem þarf að snúast gegn og leysa.

Það hefur oft verið um það rætt, sérstaklega í málflutningi stjórnarandstæðinga, að opinber fyrirtæki væru illa á vegi stödd vegna of mikils aðhalds af hálfu ríkisstj. í verðlagsmálum. Hafa alveg sérstaklega verið tekin til fyrirtæki eins og t. d. Hitaveita Reykjavíkur og Landsvirkjun í því sambandi. Ég get ekki stillt mig um að minna á það, að hækkanir, sem hafa verið leyfðar á töxtum Hitaveitu Reykjavíkur á tveimur árum, þessu ári og seinasta ári, nema samtals 135%. Og hækkanir, sem hafa verið leyfðar á töxtum Landsvirkjunar, nema samtals 193% á þessum tveimur árum. Ég hef þess vegna ekki trú á því, að þessi fyrirtæki hafi verið að safna vanda á þessum tveimur árum. Hins vegar veit ég að þau söfnuðu vanda áður, það er kannske sá vandi sem við er að fást. En að t. d. Landsvirkjun, þegar menn eru að leggja áherslu á að standa gegn hækkun verðlags og verðbólgu, hækki taxta sína meira en um 193% samtals á tveimur árum, miðað við þá verðlagsþróun sem á sér stað í landinu, efast ég stórlega um að sé skynsamlegt. Hins vegar eru sum önnur opinber fyrirtæki í vanda, ég skal ekki andmæla því. En það er ekki alveg nýtt.

Hv. þm. gerði verðbólguna að umræðuefni. Það hefur farið fram lauslegur framreikningur á stöðunni í þeim málum. Þjóðhagsstofnun hefur gert slíkan framreikning og samkv. honum er gert ráð fyrir að verðbólgan frá upphafi til loka ársins verði um 42% og verðbólgustigið í lok ársins milli 45 og 50%. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort þetta reynist rétt þegar upp er staðið, það leiðir auðvitað tíminn í ljós. En ég geri ráð fyrir að þeir menn, sem þetta unnu, hafi gert það eftir bestu samvisku. Hins vegar er rétt að taka það fram, að það er ekki auðvelt verk fyrir þessar stofnanir, sem standa í því að áætla t. d. verðbólguna, að gera það rétt, eins og þróunin hefur verið hjá okkur mörg undanfarin ár. Það er miklu auðveldara að gagnrýna þá eftir á vegna þess að spár þeirra hafi ekki staðist, vegna þess að það er ákaflega erfitt að spá um þetta.

En það, sem ég vildi aðallega minnast á í þessum orðum, er að það er sagt að farið sé inn á nýja braut með þessu frv. Ég er ekki sammála því, vegna þess að ég álit að þegar hv. þm. Matthías Bjarnason var sjútvrh. hafi hann einmitt tekið þátt í því — ég studdi það og margir fleiri þm. að sjálfsögðu og ráðh. á þeim tíma, — tekið þátt í því að gera upptækan gengismun og flytja sérstaklega yfir til frystideildar og mjöldeildar. Þetta var gert vorið 1978. Þá var stofnaður gengismunarreikningur vegna gengisbreytingarinnar sem gerð var í febr. 1978. Þá hafði Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins stofnað til skuldar við ríkissjóð, sem var þá að upphæð rúmar 173 millj. gkr. og skiptist þannig, að vegna freðfisks voru 83 millj. og vegna loðnumjöls um 90 millj. Um ráðstöfun gengishagnaðarins sagði m. a. í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 2 frá 1978 orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Enn fremur skal endurgreiða ríkissjóði það sem hann hefur vegna framleiðslu ársins 1976 greitt til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til þess að gera honum mögulegt að standa við greiðslu bóta í samræmi við viðmiðunarverð.“

Við endanlegt uppgjör á umræddum gengishagnaði 10. nóv 1978 var skuld Verðjöfnunarsjóðs við ríkissjóð greidd auk vaxta að upphæð 53 millj. gkr. eða samtals rúmar 226 millj. gkr. Og eins og lögin kváðu á um var skuld þessi greidd af óskiptu. Það er ástæða til að undirstrika það. Allar gengismunarskyldar afurðir áttu að bera þetta í réttu hlutfalli við innstreymi gengismunarfjárins. Þess vegna er ég ekki sammála hv. þm. um að hér sé farið inn á nýja braut, heldur eru farnar svipaðar leiðir og stundum hefur verið gert áður þegar gerðar hafa verið skammtímaráðstafanir til að leysa vanda af þessu tagi.

Ég er sammála hv. þm. um að það á að reyna að forðast millifærslur eins og unnt er. En stundum getur verið óhjákvæmilegt að beita þeim í smáum stíl, eins og hér er gert og eins og gert var 1978. En aðalreglan álít ég að eigi að vera sú, að það eigi yfirleitt ekki að beita miklum millifærslum, vegna þess að það skapar ævinlega vissan vanda. Það leysir kannske í bili vanda, en þá venjulega þannig að menn skapa nýtt vandamál. En höfuðatriðið er þetta, að hér er ekki farið inn á nýjar brautir, heldur eru hér þræddar brautir sem hafa verið farnar áður, m. a. af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni þegar hann var sjútvrh.