09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er sérstakt gleðiefni, þó að ekki séu nema tveir hæstv. ráðh. hér við umr., að það er þó einn af hæstv ráðh. Alþb. mættur hér. Eru það sjaldséðir gestir á þessum stað.

Hæstv. viðskrh. taldi sig þurfa að gera það að sérstöku umræðuefni, að hann ásamt hæstv. sjútvrh. gerðu sér fullkomlega grein fyrir að ekki væri allt í lagi í þjóðfélaginu, gerðu sér fullkomlega grein fyrir því, að um rekstrarvanda atvinnuveganna væri að ræða og sérstaka og aukna skuldasöfnun við útlönd. Þetta hljóta menn að verða að skilja sem svo, að hinir átta hæstv. ráðh., sem í ríkisstj. eru, geri sér ekki grein fyrir þessu. Ella væri ekki ástæða til þess fyrir hæstv. viðskrh. að taka sérstaklega fram að hann og hæstv. sjútvrh. gerðu sér fullkomlega grein fyrir þessu. En hvort sem þessir hæstv. tveir ráðh. hafa gert sér grein fyrir þessu eða ekki, þá hafa þeir þó látið draga sig með í því stjórnarfari sem staðið hefur verið að undir forustu núv. hæstv. ríkisstj. Við vitum að það eru til ráðh. í hæstv. ríkisstj. sem telja að ekkert sé að og halda því fram, þ. á m. hæstv. félmrh. sem hér situr inni. Það væri annars gott að fá að heyra frá hæstv. félmrh. hvernig hann telur ástand atvinnuveganna í landinu vera. Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á þessu og þá spurningunni um það, hvort hér sé fyrirboði þess, að einhver brestur sé að koma í stjórnarsamstarfið, hvort hæstv. ráðh. Framsfl. séu orðnir eitthvað órólegir í því samstarfi, hvort hæstv. viðskrh. sé hér að boða einhver stórtíðindi í sambandi við stjórnarfar í landinu. Ekki kæmi mér á óvart þó að óróleika væri farið að gæta hjá sumum hverjum hæstv. ráðh. í þessari ríkisstj. Ég tek ummæli hæstv. viðskrh., sem hann viðhafði hér áðan í þeim dúr sem hér hefur verið lýst, sem merki þess að menn séu ekki alls kostar ánægðir í samstarfinu.

Það frv., sem hér er um að ræða, er enn ein bráðabirgðaráðstöfunin sem verið er að gera. Og það er augljóst mál, að það virðist vera stefna núv. hæstv. ríkisstj. að lifa á þeim sjóðum sem til eru í landinu meðan hægt er að lifa á þeim. Spurningin er hversu lengi er hægt að lifa á þeim sjóðum sem búið er að safna upp á undangengnum árum, hversu lengi er hægt að lifa á þeim án þess að allt bresti.

Hæstv. viðskrh. og hv. þm. Matthías Bjarnason virðist greina á um það, hvort hér sé verið að fara inn á nýjar leiðir að því er varðar Verðjöfnunarsjóðinn. Ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur þeirra. Það varðar mig engu hvort þetta hefur verið gert áður eða ekki, ef hér er um ranga aðgerð að ræða, og það tel ég vera. Hér er beinlínis gengið þvert á það sem verið hefur eðli og tilgangur Verðjöfnunarsjóðsins til þessa. Og þá skiptir engu hvort hv. þm. Matthías Bjarnason sem ráðh. eða einhver annar hefur gert slíkt áður. Sé það rangt, þá á ekki að gera það. Það er því haldlítil rök hjá hæstv. viðskrh. að einhver annar hafi gert þetta áður.

Þetta frv. skiptist í meginatriðum í tvo liði. Það er annars vegar um tilfærslu innan Verðjöfnunarsjóðs, sem ekki á að gera, og í öðru lagi um lántöku — og það er þó sérkafli í málinu — lántöku til hækkunar fiskverðs, ávísun á framtíðina til skattborgaranna.

Það mun vera rétt að áður hefur það gerst að ríkissjóður ábyrgðist slíkar lántökur, en ekki í þeim tilfellum að fyrirsjáanlegt hafi verið að Verðjöfnunarsjóður mundi ekki greiða lánið. Það er yfirlýst af aðilum og ljóst að þessi lántaka kemur til með að verða greidd af ríkissjóði algjörlega, og það er nýtt í málinu. Það má segja að hér sé verið að ávísa á fiskverð í framtíðinni, því að auðvitað hlýtur það að þýða skerðingu á tekjum sjómanna, þó að það sé greitt í skattaformi með öðru en því að fiskverðið lækki. Þetta er enn ein sönnun þess, að hæstv. ríkisstj. stjórnar með bráðabirgðaráðstöfunum frá degi til dags, situr meðan sætt er og ætlar sér greinilega að halda því áfram og lifa á og tæma alla þá sjóði sem til eru og ætlast til þess að það dugi út kjörtímabilið. (Gripið fram í: Það voru engir sjóðir.) Það voru greinilega til sjóðir því að hæstv. viðskrh. meðal annarra ráðh. hefur gengið í þá sjóði.

Það er augljóst mál og meira en það, að það er svo um hnúta búið og haldið um stjórnvölinn af hæstv. ríkisstj., að það er engu líkara en hún stefni að því að gera upptækar eignir borgaranna í þeim sjóðum sem þeir hafa lagt til. Það verður ekki annað séð á þeim fyrirætlunum sem nú eru uppi t. d. varðandi lífeyrissjóðina. Þar er það ríkissjóður sem gengur á undan og hirðir alla þá fjármuni, sem þar eru til ráðstöfunar, í skuldabréfakaupum áður en hinir atvinnuvegasjóðirnir, eins og Framkvæmdasjóður, koma þar til greina. Krumla ríkisvaldsins í skattheimtunni seilist í allar hugsanlegar áttir og enginn verður þar undanskilinn. (Viðskrh.: Það eru borgaðir vextir.) Borgaðir vextir, já. Er það ekki líka til atvinnuvegasjóðanna? Var ekki meiningin að það væru borgaðir vextir þar líka? (Viðskrh.: Þeir eru á sérsamningum.) Ekki aldeilis. Það liggja fyrir skýrslur um það, hæstv. ráðh., að það er ríkissjóður sem hefur tileinkað sér viðskipti og krafist viðskipta við þá lífeyrissjóði sem best eru stæðir og mest fjármagn hafa, en skilið síðan atvinnuvegasjóðina eftir og ætlar þeim að skipta við hina litlu og vanmegnugu sjóði sem ekki geta, þótt þeir vildu, staðið við það sem um hefur verið rætt. Þetta ætti hæstv. viðskrh. að vera ljóst.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða öllu fleiri orðum um þetta. En mér þótti rétt að koma inn á þessi atriði vegna sérstaks tilefnis sem hæstv. viðskrh. gaf, fyrst það hvort nýrra tíðinda væri að vænta á stjórnarheimilinu, sem hann gaf fyllilega tilefni til að ætla að væri, og svo hins, að hér er farið inn á nýjar brautir að minnsta kosti að því leyti, að verið er að taka lán sem ríkissjóður á að greiða í framtíðinni, en það hefur ekki verið gert áður.

Ég tel að um þetta verði frekar fjallað, þegar málið hefur fengið athugun í nefnd, og þá gefist kannske tækifæri til að ræða frekar um það sem hér er verið að fjalla um.