10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Flm (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 9 leyft mér ásamt þremur öðrum hv. þm. að flytja till. til þál. um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni.“ Þessi till. var flutt á síðasta þingi, en svo seint þingsins að hún náði því ekki að koma hér til umr. Því er hún nú endurflutt.

Ísland hefur tekið þátt í störfum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, frá því að sú stofnun var sett á laggirnar árið 1960. Undanfari þeirrar stofnunar var Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, OEEC, en Ísland tók einnig þátt í starfi þeirrar stofnunar frá upphafi hennar eða frá árinu 1948.

Árið 1974 var komið á fót sjálfstæðri stofnun innan vébanda OECD, Alþjóðaorkustofnuninni, IEA (International Energy Agency). Þessi stofnun var sett á laggirnar með ákvörðun ráðs OECD. Fulltrúi Íslands í ráði OECD greiddi atkv. með þeirri ákvörðun.

Á árunum næst þar á undan hafði athygli ríkjanna innan OECD í mjög vaxandi mæli beinst að hinu ótrygga ástandi í olíuviðskiptum í veröldinni. Árið 1971 var í OECD-ráðinu samþykki tillaga þar sem aðildarríki stofnunarinnar voru hvött til að ná sem allra fyrst því marki að eiga hvert um sig a. m. k. 90 daga olíubirgðir. Ísland greiddi atkv. með þeirri tillögu. Árið 1972 samþykkti ráð OECD ákvörðun um neyðaráætlanir og ráðstafanir og úthlutun olíubirgða á neyðartímum á svæði stofnunarinnar í Evrópu. Ísland greiddi einnig atkv. með þeirri ákvörðun.

En þegar á reyndi kom í ljós að þetta viðbúnaðarkerfi, sem OECD-ríkin höfðu komið sér upp, dugði ekki vegna þess að það brást að mjög verulegu leyti í olíukreppunni á árunum 1973 og 1974. Sú staðreynd leiddi hins vegar til þess, að þá var ákveðið að koma þessu samstarfi ríkjanna á traustari grunn en áður hafði verið. Það var gert með því að koma á fót Alþjóðaorkustofnuninni. Aðilar að henni eru öll aðildarríki OECD nema þrjú. Þessi þrjú eru Frakkland, Ísland og Finnland. 21 aðildarríki af 24 taka sem sé þátt í þessu orkusamstarfi. Vert er að leggja áherslu á að á meðal ríkjanna, sem taka virkan þátt í þessu samstarfi, eru Noregur, Svíþjóð og Danmörk.

Grundvöllur Alþjóðaorkustofnunarinnar er Samningur um alþjóðaorkuáætlun sem greinist í 10 meginþætti. Hinn fyrsti fjallar um neyðarbirgðir olíu, annar um takmörkun á eftirspurn eftir olíu á neyðartímum, sá þriðji um úthlutun á olíu á neyðartímum, fjórði um framkvæmd neyðarráðstafana, fimmti um upplýsingamiðlun um alþjóðaolíumarkaðinn, sjötti um aðstöðu til samráðs við olíufélög; sjöundi um langtímasamstarf í orkumálum, áttundi um tengsl við olíuframleiðslu- og notkunarlönd, í hinum níunda eru ákvæði um stjórnun og almenn atriði, en í tíunda kafla eru lokaákvæði. Viðauki er um neyðarbirgðir olíu.

Samkv. l. kafla samningsins skulu aðildarríkin eiga a. m. k. 90 daga neyðarbirgðir af olíu. Ég vek athygli hv. þm. á því, að í grg. með þessari till. hefur slæðst inn villa. Þar á að standa: Miðað við það, sem var árið 1979, hefur Ísland 54 daga birgðir af olíu, en ekki, eins og er prentað hér, að Ísland skorti 54 daga birgðir. — Ísland hafði 54 daga birgðir er þetta var kannað á árinu 1979.

Áreiðanlega er enginn ágreiningur um það hér á landi, að nauðsyn sé að efla og auka olíubirgðir í landinu, og auðvitað fylgir því nokkur kostnaður. Hins vegar fæst með því nauðsynlegt öryggi, — öryggi sem okkur er brýnt að skapa ekki aðeins fyrir atvinnulíf í þessu landi, heldur og fyrir mannlíf. Að mati flm. þessarar tillögu verður því markmiði að tryggja hér nægar olíubirgðir best náð með því, að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni og taki þátt í þessu alþjóðlega samstarfi.

Í lok októbermánaðar 1979 ákvað íslenska ríkisstjórnin að efna til könnunarviðræðna við Alþjóðaorkustofnunina um hugsanlega aðild Íslands. Í jan. 1980 var skipuð nefnd til að kanna náið málefni þessarar stofnunar. Sú nefnd hefur skilað ítarlegri skýrslu (Skýrsla nefndar til að kanna málefni Alþjóðaorkustofnunarinnar) og var sú skýrsla birt í júní 1980 og var í fyrstu trúnaðarmál, en er það nú ekki lengur. Í niðurstöðukafla þeirrar skýrslu segir á þessa leið, með leyfiforseta:

„Ef af aðild Íslands verður má búast við að það jafngildi hálfu viðbótarstarfi við sendiráð Íslands í París og vissri starfsaukningu í viðskrn., iðnrn. og undirstofnunum þess svo og hjá olíufélögum, m. a. vegna upplýsingaskyldu um olíumál og orkumál almennt. Þessu fylgir viss kostnaður. Ef Ísland kýs að taka þátt í einstökum rannsóknarverkefnum geta fylgt því talsverð útgjöld. Þá má búast við að áhersla verði lögð á að auka fjárframlög hér á landi til orkurannsókna, svo að dæmi séu nefnd. Löndum þeim, sem taka þátt í orkusamstarfi Alþjóðaorkustofnunarinnar, hefur farið fjölgandi og eru þau almennt ánægð með starf stofnunarinnar, eins og einkum má merk ja á ráðherrafundum: Er athyglisvert að Bandaríkin, Bretland, Japan, Kanada og Sambandslýðveldið Þýskaland hafa fylgt þeirri föstu reglu að vísa málum, sem snerta alþjóðlegt orkusamstarf, til Alþjóðaorkustofnunarinnar. Nefna má að t. d. Danir og Svíar leggja mikið upp úr hinu aukna olíuöryggi sem fæst vegna aðildar að Alþjóðaorkustofnuninni þar eð þeir verða ekki eins háðir sveiflum í aðdráttum frá einstökum viðskiptalöndum sínum. Sama máli gegnir um afstöðu þeirra til sjálfvirkni í framkvæmd neyðarráðstafana, upplýsingastarfsemi stofnunarinnar um olíumálefni og orkumál almennt og orkusparnaðarstarf hennar.“

Að sjálfsögðu er unnt að benda á atriði sem til bóta mega horfa. Nefndu Danir og Svíar t. d. að æskilegt hefði verið að setja landsmarkmið varðandi olíuinnflutning fyrir árið 1980 fyrr en gert var, í des. 1979. Norðmenn taka þátt í starfi stofnunarinnar samkv. sérsamningi og ákveður norska ríkisstjórnin t. d. á grundvelli hans hvernig Noregur standi að framkvæmd neyðarráðstafana. Er gert ráð fyrir því, að í reyndinni verði framlag landsins til olíuneyðarkerfis stofnunarinnar svipað og af hálfu hinna ríkjanna. Síðan segir í þessari skýrslu:

„Ef Ísland gerist aðill að Alþjóðaorkustofnuninni felur það í sér samþykki á samningnum um alþjóðaorkuáætlun og ákvörðunum stjórnarnefndar stofnunarinnar frá byrjun. Þar eð nauðsyn er á löggjöf hér á landi til framkvæmda samningsins þykir rétt að leggja frv. til l. fram þegar í upphafi, þannig að fá megi heildaryfirlit yfir málefni stofnunarinnar þegar afstaða er tekin til þess, hvort sækja skuli um aðild að henni eða ekki. Af hálfu aðildarríkja stofnunarinnar,“ segir hér í skýrslunni, „hefur verið gefið óformlega til kynna að Íslandi mundi veittur 5 ára aðlögunartími til að auka olíugeymarými og olíubirgðahald í áföngum við hagkvæmar aðstæður. Í bréfi, þar sem sótt yrði um aðild yrði þá formlega farið fram á 5 ára aðlögunartíma miðað við inngöngu Íslands, en jafnframt væri væntanlega rétt að koma að aths. af Íslands hálfu varðandi þrjú atriði í ákvörðun stjórnarnefndar stofnunarinnar á svipaðan hátt og Norðmenn hafa gert. Það hefur verið tekið fram, að Íslendingar teldu V. kaflann í ákvörðun stjórnarnefndarinnar um áætlun um langtímasamstarf hafa að geyma almennar meginreglur sem væru ekki lagalega bindandi. Í þessu sambandi yrði undirstrikað í samræmi við upphafsákvæði kaflans, að Ísland hefði rétt til að eiga og ráða yfir náttúruauðlindum sínum og efnahag svo og vernda umhverfi sitt og öryggi þegna sinna og mundi framkvæma V. kafla á þann hátt sem samræmdist íslenskri orkustefnu, m. a. í fjárfestingarmálum.“

Fleiri atriði eru hér rakin varðandi þetta, en síðan segir: „Ísland gæti sagt samningnum um alþjóðaorkuáætlun upp með 12 mánaða fyrirvara hvenær sem er eftir að það gerðist aðili að stofnuninni.

Á Íslandi og í öðrum löndum er eins og áður segir lögð aukin áhersla á orkumál og nauðsyn virkra aðgerða. Kemur þetta m. a. fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, þar sem vikið er að öryggi í olíumálum, orkusparnaði, þróun innlendra orkugjafa, orkurannsóknum og orkustefnu. Eru markmiðin þar svipuð og hjá Alþjóðaorkustofnuninni.

Þegar tekin er afstaða til hagkvæmni aðildar þarf fyrst og fremst að meta hina fjárhagslegu hlið málsins, m. a. tjón fyrir atvinnulíf og þjóðarbú ef til tímabundins olíuskorts kæmi, kostnað við aukið olíubirgðahald til að uppfylla 90 daga neyðarbirgðaskyldu Alþjóðaorkustofnunarinnar, nauðsyn þess að auka olíubirgðahald til muna hvort sem af aðild yrði eða ekki og hvort auknar líkur yrðu á olíusparnaði ef Ísland nyti aðhalds frá stofnuninni og fengi þar jafnóðum nýjustu upplýsingar um olíumál og orkumál almennt. Í þessu sambandi má nefna, að réttar upplýsingar á réttum tíma geta komið að notum í sambandi við stefnumótun og þá um leið haft fjárhagslega þýðingu fyrir Íslendinga.“

Ég hef vitnað hér til skýrslu þessarar nefndar, sem var skipuð til að kanna málefni Alþjóðaorkustofnunarinnar. Þessi skýrsla er mjög ítarleg og fróðleg og væri vissulega ástæða til að þm. kynntu sér efni hennar rækilega.

Það er tiltölulega nýtt seinni ára fyrirbæri að menn hafi verulegar áhyggjur af þeim efnum sem hér er um fjallað, af orkumálum. Orkustefna er í rauninni nýtt hugtak — sem var ekki til fyrir fáeinum árum. Á vettvangi OECD hefur verið skapaður grundvöllur alþjóðasamvinnu á þessu sviði. Sá grundvöllur er innan Alþjóðaorkustofnunarinnar. Það er að mörgu leyti einstæð samvinna sem þarna hefur tekist að skapa. Markmiðið með tillöguflutningi okkar er að stuðla að því, að Ísland gerist aðili að þessari alþjóðlegu samvinnu. Með því mundum við auka mjög verulega öryggi okkar í orkumálum. Það, sem átt er við þegar talað er um öryggi í orkumálum, er beinlínis lífshagsmunamál þjóðarinnar, undirstaða atvinnuveganna, olía fyrir flotann, olía fyrir fiskimjölsverksmiðjur og svo mætti áfram telja.

Nú er það vitað að einn stjórnarflokkanna, Alþb., hefur verið því andvígur og er að Íslendingar gerist aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni. Ekki hafa hins vegar komið fram af hálfu þeirra Alþb.-manna haldbær rök fyrir því, hvers vegna þeir telja að við Íslendingar eigum ekki að taka þátt í þessu samstarfi, nema ef vera kynni að Alþb., þessi flokkur, sem er arftaki Kommúnistaflokksins gamla hér á landi, hefur alla tíð, eins og fyrirrennarar hans, verið andsnúinn því, að Íslendingar stofnuðu til náinna tengsla og samningagerðar við ríki í Vestur-Evrópu, í hverri mynd sem það hefur verið, hvort sem það hefur verið um viðskiptamál með samningum við EFTA eða Efnahagsbandalag Evrópu, hvort sem það hefur verið um varnarmál og Atlantshafsbandalagið eða yfirleitt hvað sem verið hefur um að ræða. Slíkum samningum við þjóðirnar í Vestur-Evrópu hefur á síðum Þjóðviljans og í munni þeirra Alþb.-manna nær ævinlega verið jafnað til föðurlandssvika. Andstaða við slíka samvinnu má vera að sé hin raunverulega ástæða þess að Alþb.-menn vilja ekki að Íslendingar taki þátt í samstarfi ríkjanna sem mynda Alþjóðaorkustofnunina. Mín skoðun og flm. þessarar till. er hins vegar sú, að það sé brýnt að Íslendingar gerist aðilar að þessu samstarfi, komi hér upp neyðarbirgðum af olíu og njóti þeirra hagsbóta og þeirrar tryggingar sem aðild að Alþjóðaorkustofnuninni hefur í för með sér.

Nú er það svo, að mér býður í grun að hæstv. viðskrh. sé ekki fráhverfur því og raunar hlynntur því, að Íslendingar gerist aðilar að þessari stofnun, og það sama gildi um hans flokk í heild. Um afstöðu þeirra sjálfstæðismanna, sem ríkisstj. mynda, veit ég ekki og er raunar ekki viss um að þeir hafi neinar skoðanir á þessu máli frekar en öðrum. Það virðist vera að það sé andstaða Alþb. í ríkisstj. sem hefur fram til þessa komið í veg fyrir að þetta mál næði fram að ganga.

Ég ítreka það, að ég tel mér kunnugt um að hæstv. viðskrh. hafi áhuga á að Íslendingar geti skapað sér það öryggi sem þessari aðild fylgir, og þess vegna spyr ég: Á að láta fulltrúa Alþb. í ríkisstj. koma í veg fyrir að þetta hagsmuna- og öryggismál þjóðarinnar nái fram að ganga? Hafa þeim verið fengin völd í þessu efni? Hefur þeim verið fengið neitunarvald um þetta mál eins og ýmis önnur? Við þessari spurningu vildi ég gjarnan fá svar: Ætlar hæstv. viðskrh. e. t. v. að beita sér fyrir því, að þetta mál nái fram að ganga, þessi till. verði samþykkt, eða er hann reiðubúinn að leggja fram frv. til l. um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni?

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég tel afar mikilvægt — og við flm. — að þetta mál nái fram að ganga. Ég legg til, þegar þessari umr. verður frestað, að þessu máli verði vísað til utanrmn. til umfjöllunar.