10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er alveg greinilegt að hv. þm. Eiður Guðnason hefur sofnað algerlega á verðinum hvað snertir að grennslast eftir örlögum fyrirspurna sinna um sovéska kafbáta — og reyndar bandaríska og franska og breska kafbáta. Kannske er þm. alveg sama þó að það séu hér breskir kjarnorkukafbátar og bandarískir kjarnorkukafbátar og franskir kjarnorkukafbátar. Það skyldi þó ekki vera ástæðan fyrir því, að þaggað hefur verið niður í hv. þm. um þetta mál, að einhver hafi hvíslað því að honum, að það séu jafnan tveir bandarískir kjarnorkukafbátar við hliðina á þeim tveimur sovésku kjarnorkukafbátum sem eru hérna í landhelginni? Það skyldi þó ekki vera ástæðan fyrir því, að NATO-liðið hér á landi hafi allt í einu steinþagnað um þetta mál, að það vildi ekki fá fram upplýsingarnar um bandarísku kjarnorkukafbátana sem eru þarna líka? Ég fagna því hins vegar, að hv. þm. Eiður Guðnason segist ætla að halda þessari baráttu áfram, og ég býð honum allt liðsinni Alþb. til að reka þetta mál til enda og fá fram frá bandaríska hernum, sem á að veita íslenskum stjórnvöldum upplýsingar um þetta, hvað margir kjarnorkukafbátar hafa verið í hafinu hér í kringum Ísland s. l. ár, hvað margir sovéskir, hvað margir bandarískir, hvað margir breskir, hvað margir franskir. Vonandi getum við allir sameinast um að krefjast þessara upplýsinga. (Gripið fram í.) Já, en þið hafi ekki ítrekað þá ósk. Þetta var forsíðuefni í Alþýðublaðinu hvað eftir annað, og ég vil minna hv. þm. Eið Guðnason á að þm. Alþb., Stefán Jónsson, stóð upp umsvifalaust á Alþingi og tók undir ósk hans, en það kom enginn frá Sjálfstfl. og tók undir þá ósk, ekki einn einasti maður. Það hefur enginn þm. frá Sjálfstfl. óskað eftir að fá upplýsingar um kjarnorkukafbáta í hafinu kringum Ísland. (Gripið fram í: Hver gefur þessar upplýsingar?) Hv. þm. Eiður Guðnason.

Það er gaman að þessu með Sovétríkin. Hv. þm. Geir Hallgrímsson sagði áðan að Sovétríkin væru uppáhaldsríki mitt. Það er algjör misskilningur. Ég veit ekki hvaðan hv. þm. hefur þetta. En ég vil gjarnan segja hv. þm. hvað er uppáhaldsríki mitt svo að hann hafi það á hreinu í eitt skipti fyrir öll. Það er það ríki sem fjölskyldufyrirtæki hv. þm. Geirs Hallgrímssonar hefur grætt mest á að flytja inn varning frá. Það er Bretland. (Gripið fram í: Ekki Ísland.) Menn voru að tala um erlend ríki. Auðvitað voru menn að tala um erlend ríki í þessum efnum. — Það er ósköp skiljanlegt að þetta komi þm. mjög á óvart. Bretland getur nefnilega verið uppáhaldsríki fyrir margra hluta sakir. Það er uppáhaldsríki um þessar mundir m. a. fyrir þær sakir, að þar er verið að sýna leiftursóknina í framkvæmd. Þar geta menn kynnt sér leiftursóknina í framkvæmd. Menn þurfa ekkert að velta fyrir sér lengur hver sé stefna Sjálfstfl. Menn geta bara kynnt sér Bretland og gengið úr skugga um hana.

En varðandi Sovétríkin, sem hér er oft verið að tala um, sérstaklega hv. þm. Eiður Guðnason sem er með Sovétríkin á heilanum og talar sýknt og hellagt um Alþb. og fyrirrennara þess, þá legg ég til að hv. þm. Eiður Guðnason taki sér nú sæti á flokksskrifstofu Alþfl. í nokkra daga og lesi það sem málgögn Alþfl. skrifuðu um Sovétríkin í 20 ár, hann kynni sér þá lofgjörð, það hól og þær dýrðarlýsingar sem málgögn Alþfl. fluttu um Sovétríkin. Það vill nefnilega svo til, að það hafa ekki málgögn neins stjórnmálaflokks á Íslandi flutt jafnlengi lofgjörðir um Sovétríkin og málgögn Alþfl. Það er að vísu nokkuð langt síðan, en það er sérkennilegt með núverandi þm. Alþfl., að það er eins og þeir kunni ekki skil á sögu eigins flokks. (EG: Á nú að fara að kenna okkur einu sinni enn?) Já, hv. þm. Eiður Guðnason er nefnilega í þeirri sérkennilegu stöðu, að það er alveg sama í hvaða máli hann talar hér, hann virðist alltaf þurfa á kennslu að halda. Það er sérkennilegt. (HBl: Er hv. þm. að hugsa sér til hreyfings að fara í Alþfl. — og farinn að kynna sér söguna þess vegna?) Það gæti vel komið til greina að kenna þm. Alþfl. nokkuð þeirra sögu, en ég hefði haldið að hv. þm. Halldór Blöndal, sem er lítið hér í þingsölum, hefði ekki þurft að spyrja að þessu vegna þess að ég upplýsti það hér fyrr í vetur, að þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var eitthvað að velta þessu fyrir sér að hann þyrfti ekki að óttast að ég hygði á þetta, a. m. k. ekki meðan hann ætti fullt í fangi með að hemja þá þm. sem væru nú í þingflokki Alþfl.

Ég ætla að vona að menn fari að hefja umr. á Alþingi um utanríkismál og önnur mál af þessu tagi upp af þessu gamla kaldastríðskarps-dellustigi sem hv. þm. Eiður Guðnason er á og stundum líka einnig hv. þm. Geir Hallgrímsson og sérstaklega varaþm. hans sem kom hér inn um daginn í hálfan mánuð. Þá fór Geir Hallgrímsson einn dag á fund til útlanda og þurfti að taka sér frí í hálfan mánuð frá Alþingi vegna þess. (PS: Hann var þá kauplaus.) Var það kauplaust? Jæja, var það kauplaust? Hv. þm. Geir Hallgrímsson vann það kauplaust. (Gripið fram í.) Pétur Sigurðsson fullyrti að það hefði verið kauplaust. Ég fæ ekkert svar. Ég legg til að það verði rætt á næsta þingflokksfundi í Sjálfstfl., hvort formaður flokksins hafi fengið borgað fyrir þetta eða ekki. En mig minnir að það hafi verið tilkynnt hér í þingsölum að hann hafi farið utan í opinberum erindum og samkv. reglum hér fá menn greidd laun fyrir það. Ég held því að þetta hljóti að vera misskilningur hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni og algjörlega fyrir neðan okkar virðingu að fara að draga það inn í umr. Auðvitað er hv. þm. Geir Hallgrímsson fullsæmdur af því kaupi sem hann fær á Alþingi.

Það er sérkennilegt hvað mönnum er illa við að það sé minnst á þessar utanferðir hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, vegna þess að ég var í burtu tvo vinnudaga, mætti hér á þriðja vinnudegi, sat í tvo daga á fundi erlendis á sama hátt og hv. þm. Geir Hallgrímsson, en mætti hér á þriðja vinnudegi. Hann sat, að því er mér er tjáð, einn vinnudag og varð það honum tilefni til að vera í burtu hálfan mánuð. Það er hins vegar virðingarvert að hann skuli hafa staðið hér upp nánast um leið og annar dagurinn var liðinn frá heimkomu hans til að kvarta sérstaklega yfir því, að við hinir værum ekki mættir. Það kvartaði enginn yfir því um daginn að hv. þm. Geir Hallgrímsson væri ekki mættur. Þannig má náttúrlega margt um þessi mál segja.

En framganga hv. þm. Geirs Hallgrímssonar í olíuviðskiptamálum er með mjög sérkennilegum hætti og mjög nauðsynlegt að hún sé ávallt til á spjöldum sögunnar. Afskipti hv. þm. Geirs Hallgrímssonar af olíuviðskiptamálum þjóðarinnar hafa reynst henni mjög dýr.

Það var hér lengi ákveðið verð á þeirri olíu sem var keypt til landsins, en í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar var breytt um verðlagsgrundvöll og farið með olíuna yfir á svokallað Rotterdam-verð samkv. kröfu ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar. Þegar olíuerfiðleikarnir komu til sögunnar, eins og hæstv. félmrh. gerði rækilega grein fyrir áðan, þegar hann var viðskrh., var það hinn breytti verðlagsgrundvöllur, sem ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar hafði samið um, þ. e. Rotterdam-verðið, sem olli Íslendingum fyrst og fremst erfiðleikum í þeirri kreppu. Ef það hefði verið í gildi sami verðlagsgrundvöllur og var áður en ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar kom til valda 1974, þá hefðu Íslendingar ekki þurft að greiða það háa verð fyrir olíuna sem þeir þurftu þegar þessir olíuerfiðleikar komu til sögunnar. Það er svo sérkenni sögunnar, að þegar næst er farið eftir ráðum þessa hv. þm. og gerðir samningar við breska olíufélagið um verðlagsgrundvöll þess, þá skuli það gerast skömmu síðar að sá verðlagsgrundvöllur verður einnig sá óhagstæðasti. Ég skal ekki leiða að því neinum getum hvaða samhengi er þar á milli, en það er a. m. k. athyglisvert, að tvisvar á undanförnum árum hefur hv. þm. Geir Hallgrímsson lagt til að þjóðin breytti verðlagsgrundvelli sínum í olíuviðskiptamálum. Fyrst gerði hann það þegar hann var forsrh. og það reyndist þjóðinni mjög dýrt. Það hefði verið mun ódýrara að halda fyrri verðlagsgrundvelli í olíuviðskiptum við Sovétríkin. Síðan gerði hann það þegar hann var kominn í stjórnarandstöðu og krafðist þess að við gerðum olíusamninga við Breta á þeim verðlagsgrundvelli sem Bretar nota. Það var ekki um neitt annað að ræða en að nota þann verðlagsgrundvöll sem þeir nota. Ekki voru liðnir nema örfáir mánuðir þangað til sá verðlagsgrundvöllur var orðinn hinn óhagstæðasti. Ég vil fá reiknað út hvað þessar verðlagsgrundvallartillögur hv. þm. Geirs Hallgrímssonar í olíumálum hafa kostað. Hver er verðlagsmunurinn frá fyrri verðlagsgrundvelli í olíuviðskiptunum við Sovétríkin, áður en ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar breytti grundvellinum, og hver hefur hann verið síðan? Hver er svo kostnaðurinn við að hafa þurft að greiða bresku olíuna á þeim verðlagsgrundvelli sem hún er verðlögð á? Það er hins vegar alrangt hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni, eins og hæstv. félmrh. og fyrrv. viðskrh. hefur nú þegar leiðrétt, að Alþb. hafi ekki verið fylgjandi því, að Íslendingar öfluðu olíu sem víðast. Það er mikill misskilningur, að við höfum viljað láta binda olíuviðskiptin við einhvern einn aðila.

Hv. þm. Albert Guðmundsson er á mælendaskránni á eftir mér. Hann skýrir vonandi frá tillögum og upplýsingum sem hann flutti í utanrmn. varðandi aðrar leiðir sem Íslendingum stæðu kannske til boða í olíuviðskiptum við Arabalöndin. Ég óska eftir því, að hv. þm. Geir Hallgrímsson upplýsi í umr. hvort hann studdi hv. þm. Albert Guðmundsson í utanrmn. í þessum tillöguflutningi eða hugmyndir Alberts Guðmundssonar. Ég get upplýst um mína afstöðu. Samkv. þingsköpum get ég ekki upplýst um afstöðu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar. Það væri fróðlegt að gera það hér. Ég skora á hann að upplýsa þingið um hvaða afstöðu hann hafði, hvaða afstöðu Eyjólfur Konráð Jónsson hafði og hvaða afstöðu aðrir þm. Sjálfstfl. en Albert Guðmundsson höfðu þá í nefndinni. Ég studdi eindregið að þær hugmyndir og þær tillögur, sem Albert Guðmundsson flutti í utanrmn., yrðu skoðaðar nánar. Ég tel enn að það hefði átt að athuga þær. Ég tel að það hafi verið á ferðinni athyglisverðar hugmyndir sem menn hefðu átt að skoða. Sú tilraun til að finna olíuviðskiptum Íslendinga víðtækari grundvöll strandaði ekki á Alþb. þá. Það væri æskilegt að hv. þm. Geir Hallgrímsson upplýsti á hverjum það hefði strandað í utanrmn., að það hefði fengist stuðningur við þær hugmyndir sem hv. þm. Albert Guðmundsson var með.

Það er margt fleira sem mætti segja um afskipti hv. þm. Geirs Hallgrímssonar af olíuviðskiptamálum allt frá því að hann fór að breyta verðlagsgrundvellinum í tíð ríkisstjórnar sinnar og þar til hann fjallaði um hugmyndir Alberts Guðmundssonar í utanrmn. Öll þau afskipti hafa að mínum dómi verið Íslendingum í óhag. Það er sú saga sem ég taldi nauðsynlegt í umr. áðan að yrði rifjuð upp.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson fór að reyna þvæla málið með því að tala um olíuviðskiptanefndina. Það er ekki það sem ég var að vitna í áðan, heldur voru það þær ræður og þau blaðaviðtöl sem þm. flutti á sínum tíma þar sem hann krafðist þess, að breski samningurinn yrði gerður. Hann þarf því ekkert að vera að skjóta sér á bak við olíuviðskiptanefnd í þeim efnum, nema hann þori ekki lengur að standa við viðtöl sín í Morgunblaðinu og þær ræður sem hann flutti hér á Alþingi.

Varðandi þá till., sem hér er til umr., er það vissulega fagnaðarefni að hv. þm. Eiður Guðnason og hv. þm. Geir Hallgrímsson skuli nú allt í einu, eftir þær ræður sem við fulltrúar Alþb. höfum flutt í þessum umr., vera farnir að tala um að auðvitað þurfi að athuga vel hvaða skilyrði Íslendingar eigi að setja. Það var ekki mikið talað um það í þeirra fyrri ræðum. Það hefur ekki einkennt mikið málflutning þessara manna í málinu til þessa. En þeir eru þó búnir að læra það í þessari umr. að málið sé kannske ekki eins einfalt og þeir hafa haldið og það sé nauðsynlegt að athuga vel og vandlega og hyggja að því, hvaða skilyrði Íslendingar ættu að setja. Í þessari till., sem hér er til umr. og menn lýstu hér fyrr í dag að þeir vildu láta samþ. óbreytta, er ekki talað um neina fyrirvara eða skilyrði þó það hafi verið gert nú í seinni hluta umr. Þar er ekki um neina slíka fyrirvara að ræða. Þess vegna mun utanrmn. væntanlega fjalla ítarlega um það, og ég veit að sú nefnd, sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem nú er hér í salnum, veitir forstöðu, skoðar það mál líka mjög vandlega. Þess vegna er það alveg út í hött hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni að vera að tala um að það sé eitthvað verið að flytja vald í þessum efnum út fyrir sali Alþingis. Aðalforganga þessa máls og athugun núna er í höndum sessunautar hans hér í þingsölum. Væntanlega ber ekki að skoða þessi orð hv. þm. Geirs Hallgrímssonar sem sérstakt vantraust á hans ágæta sessunaut.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson hefur gert það töluvert að umræðuefni að 1/20 hluti þjóðar og þings eigi ekki að hafa rétt til að fjalla um mál og það eigi ekki að hlýða skoðunum svo lítils minni hluta. Ég held að þeir, sem búa í glerhúsi, ættu ekki að kasta steinum. Skoðanakannanir hér í landinu hafa sýnt það hvað eftir annað, að fylgi hv. þm. til formennsku í Sjálfstfl. meðal kjósenda og stuðningsmanna Sjálfstfl. er miklu minna en þau 20% sem Alþb. hefur í landinu. Það getur því vel verið að komi sá tími að hv. þm. Geir Hallgrímsson telji að 20% stuðningur geti dugað til ýmissa verka.

Það vita allir hér að þetta tal hv. þm. Geirs Hallgrímssonar um Alþb. er ýmist hræsni eða látalæti. Auðvitað var hann ákafur að fá Alþb. með sér í ríkisstjórn á sínum tíma. Það vita allir. Hér situr í hliðarherbergjum ritstjóri Tímans, Þórarinn Þórarinsson, sem hefur hvað eftir annað, síðast í dag, minnt á tillögur frá mr. X, sem lagðar voru fram í þeim ríkisstjórnarviðræðum. Hv. þm. Geir Hallgrímsson hefur Þórarin Þórarinsson í návígi við sig í þingsölum þó að Þórarinn sitji í hliðarherbergi. Það væri æskilegt að hv. þm. svaraði í þingsölum því, sem Þórarinn Þórarinsson er að spyrja um í leiðurum Tímans í dag um till. mr. X sem sendar voru Alþb. og Framsfl. sem trúnaðarmál. Það væri skemmtilegt ef hv. þm. Geir Hallgrímsson rekti sögu mr. X í þeim stjórnarmyndunarviðræðum. Við skulum ekkert vera að látast í þeim efnum. Staðreyndin var auðvitað sú, að í röskan mánuð gerði Geir Hallgrímsson allt sem hann gat til þess að fá sjálfur að vera forsrh. í ríkisstjórn sem Alþb. ætti sæti í. Sagan um mr. X, sem líka má lesa um í mjög skemmtilegum kafla í nýútkominni ævisögu Gunnars Thoroddsens, er til vitnis um það. Auðvitað verður hv. þm. Geir Hallgrímsson tilbúinn að mynda stjórn með Alþb. ef hann fær einhvern tíma tækifæri til þess.

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú farið dálítið á víð og dreif. (Gripið fram í.) Það er kannske ástæða til að svo sé vegna þess að inn í þessa umr. hafa komið fullyrðingar um Alþb., um ríkisstjórnarþátttöku, um olíuviðskipti og fjölmargt annað. En ég vænti þess, að hv. þm. Geir Hallgrímsson svari þeim spurningum, sem ég hef beint til hans, svari því, hver var afstaða hans í utanrmn. þegar frásögn og greinargerð Alberts Guðmundssonar kom þar fram. (Gripið fram í: Hver var afstaða ríkisstj. til þessara hugmynda?) Því svara þeir sem voru þar að verki fyrir ríkisstj. Þeir gera það. Ég lýsti minni afstöðu. Við Geir Hallgrímsson fjölluðum báðir um málið í utanrmn. Ég er bara að biðja hann um að lýsa sinni afstöðu í utanrmn. Það er einu sinni þannig, að oft og tíðum fá sumir þm. Sjálfstfl. meiri stuðning frá okkur Alþb. mönnum en sínum samherjum. Það er oftast nær í hinum bestu málum sem það gerist.

Ég vona, herra forseti, að sú umr., sem hér hefur farið fram í dag, verði mönnum tilefni til þess að átta sig á að í þessari þáltill., sem hér er til umr., er aðildin að Alþjóðaorkustofnuninni einfölduð allt of mikið. Það er alveg nauðsynlegt fyrir Alþingi að skoða þau mál miklu betur en flm. till. og þeir, sem hafa lýst yfir nú þegar stuðningi við hana, hafa gert. Alþb. hefur, af því að hér hefur verið spurt um afstöðu þess og þingflokksins, ákveðið að kynna sér þetta mál vel og rækilega og athuga öll þau gögn málsins sem verið er að afla og hafa komið fram. En þegar Alþb. mótar sína endanlegu afstöðu til málsins verður það fullbúin afstaða, en ekki hálfkák, eins og hjá þeim mönnum sem nú þegar hafa lýst yfir stuðningi án þess að hafa hugmynd um hvaða skilyrði þeir ætla að setja, þótt þeir séu allt í einu núna farnir að tala um að það þurfi að setja skilyrði, en hafi síðan ekki orðað eina einustu setningu um hver þessi skilyrði eigi að vera. Það verður í þessu máli eins og öðrum, að þegar afstaða Alþb. liggur fyrir verður hún vönduð og ítarlega rökstudd. Við höfum ekki lagt það í vana okkar að hlaupa út á völl og þykjast hafa ráð undir rifi hverju án þess að hafa gaumgæfilega athugað þau mál sem verið er að fjalla um.

Hitt hefur verið athyglisvert við þessar umr., eins og mér skilst að hafi gerst á Alþingi eftir að Geir Hallgrímsson kom til baka úr hálfsmánaðarhvíld sinni eftir eins dags fundinn í Genf, að það hefur gerst bæði í dag og áður, að þegar hv. þm. Friðrik Sophusson stendur upp og heldur góða ræðu, nýkjörinn varaformaður Sjálfstfl., eins og hann gerði í dag og gerði fyrir nokkrum dögum, þá gerist það alltaf að hv. þm. Geir Hallgrímsson biður um orðið á eftir og reynir að halda jafngóða ræðu, tókst það ekki í dag, tókst það ekki heldur fyrr í þessari viku. En það er skemmtilegt að sjá að valdabaráttan um næsta formann Sjálfstfl. skuli þegar vera byrjuð í þingsölum.