14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

1. mál, fjárlög 1982

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki hvort hæstv. forsrh. þykir það líklegast til árangurs til að koma frá þingstörfum á þeim fáu dögum, sem eftir lifa af starfstíma Alþingis fyrir jól, að hefja umr. hér á Alþingi um þau mál, sem ríkisstj. óskar eftir afgreiðslu á. í staðinn fyrir. eins og aðrir forsrh. hafa gert og hann fram að þessu, að efna til sérstakra funda með þingliði eða þingflokksformönnum stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga utan þingfunda. Ég hef ekki trú á að það sé líklegast til að greiða fyrir störfum Alþingis á þessum fáu dögum, sem eftir lifa, að hefja umr. um þessi mál á Alþingi. En hæstv. forsrh. hefur talið þann kostinn vænlegastan. Sjálfsagt verður okkur þá öllum að ósk okkar um að það sé greiðasti gangurinn fyrir þau mál sem ríkisstj. hyggst afgreiða á Alþingi.

Hæstv. forsrh. skýrði okkur þm. frá því, að það væru aðeins tvö mál sem þyrfti að afgreiða fyrir áramót frá Alþingi. fjárlög og lánsfjáráætlun. Ég ætla að skýra hæstv. forsrh. frá því, að aðrir ráðh. í ríkisstj. hans hafa borið fram við ýmsa þm. beiðni um afgreiðslu fleiri mála. Ég hlýt þá að túlka yfirlýsingar hans áðan þannig að ríkisstj. sé fallin frá þeim óskum, m. ö. o. að hæstv. dómsmrh. sé fallinn frá þeirri ósk sinni, sem hann hefur komið á framfæri við allshn. beggja deilda, að afgreiða nú fyrir áramót frv. um breyt. á lögum um Hæstarétt Íslands. en á það hefur hæstv. dómsmrh. lagt þunga áherslu. Hæstv. félmrh. hefur rætt við mig um mál sem hann óskar eftir að fá afgreiðslu á. Þau mál voru ekki í upptalningu forsrh. Ég lít svo á, að ráðh. séu fallnir frá ósk sinni við okkur stjórnarandstæðinga um að það mál verði afgreitt.

Þá vek ég enn athygli á því, að það eru fjölmörg skattheimtumál í tengslum við fjárlög óafgreidd á Alþingi, en þarf að afgreiða fyrir áramótin og framlengja til þess að hægt sé að afgreiða fjárlög með þeim tekjustofni. Hæstv. forsrh. kom engum óskum á framfæri um afgreiðslu þeirra mála, og lít ég þá svo á að hæstv. ríkisstj. sé fallin frá því að þau mál þurfi að afgreiða, væntanlega þá vegna þess að hún sé með því móti að falla frá því að umrædd skattheimtumál verði framlengd.

Þá vek ég enn athygli á því, að hæstv. iðnrh. hefur, bæði hér á Alþingi og á opinberum vettvangi, lýst því yfir, að ríkisstj. stefni að því að afgreiða þáltill. um röðun orkuframkvæmda, sem lögð var fyrir Alþingi á síðasta fundi. Hæstv. iðnrh. hefur engum breytingum á þeim óskum sínum komið á framfæri við Alþingi. Ég lít svo á eftir yfirlýsingar hæstv. forsrh., að þess sé ekki lengur óskað af ríkisstj. að það mál sé tekið hér fyrir.

Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því, að í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að sérstakt gjald, byggðalínugjald, verði lagt á byggðalínur eða á sölu raforku frá byggðalínum. Á það að gefa ríkissjóði 40 millj. kr. í tekjur. Til þess að hægt sé að áætla þessar tekjur í fjárlögum þarf að sjálfsögðu að afgreiða það mál með einhverjum hætti. Hæstv. ríkisstj. hefur ekkert frv. lagt fram á Alþingi um það gjald. Ég lít svo á, eftir yfirlýsingar hæstv. forsrh., að ríkisstj. muni engum óskum koma fram við stjórnarandstöðuna um að slíkt mál verði tekið fyrir á Alþingi Íslendinga þá daga sem eftir lifa af þingfundatímanum. M. ö. o. eru það aðeins tvö mál sem hæstv. ríkisstj. biður um afgreiðslu á, fjárlög og lánsfjáráætlun, og mun stjórnarandstaðan að sjálfsögðu hegða störfum hér í þinginu í samræmi við þær óskir.

Hæstv. forsrh. lét svo um mælt, að við stjórnarandstæðingar hefðum sérstaklega óskað eftir því, að annað þessara mála, lánsfjárlögin, væri afgreitt. Þetta er ekki alls kostar rétt. Samkv. lögum um stjórn efnahagsmála o. fl. frá vorinu 1979 ber ríkisstj. skylda til að leggja tiltekin mál fram um leið og hún leggur fram fjárlagafrv. Eitt af þeim málum, sem ríkisstj. ber þannig skylda til að leggja fram með fjárlagafrv., er lánsfjáráætlun og í kjölfar hennar frv. til lánsfjárlaga. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki fullnægt þeirri lagaskyldu sinni fyrr en fyrst nú. Fyrst núna sköpuðust aðstæður til að afgreiða lánsfjárlög fyrir áramót, því að hæstv. ríkisstj. lagði lánsfjáráætlun sína og frv. til lánsfjárlaga fram á tilsettum tíma. Við þm. stjórnarandstöðunnar litum því svo á, að það sé skylda okkar eins og annarra þm. að afgreiða það mál fyrir áramót. Fyrir nokkrum dögum lýsti hins vegar formaður fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis, sem er stjórnarsinni, yfir í sjónvarpi að hann teldi mjög hæpið að hægt yrði að afgreiða þessi lög fyrir áramót. Þess vegna báðum við stjórnarandstæðingar í fjh.- og viðskn. beggja deilda Alþingis ríkisstjórnina að upplýsa okkur um hvort þessar yfirlýsingar formanns fjh.- og viðskn. Nd. hefðu við þau rök að styðjast, að hæstv. ríkisstj. stefndi ekki að afgreiðslu lánsfjáráætlunar fyrir áramót, eins og við töldum að henni bæri skylda til. Við fengum ekki svör við þessum tilmælum okkar fyrr en mig minnir fyrir tveimur dögum, þegar hæstv. forsrh. tjáði okkur á fundi í fjh.- og viðskn. beggja deilda að ríkisstj. óskaði eftir að þessi afgreiðsla yrði gerð. En við fengum ekki endanlegt svar frá þeim framsóknarmönnum um afstöðu þeirra í málinu fyrr en fyrir 11/2 sólarhring. Þetta vildi ég láta koma fram hér til að leiðrétta ummæli hæstv. forsrh.