14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

1. mál, fjárlög 1982

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. taldi hér upp þau mál sem ríkisstj. legði áherslu á að afgr. Mál eins og ráðstafanir vegna ákvörðunar um breytingu á gengi íslensku krónunnar og frv. um tímabundið vörugjald eru það langt komin að það á ekki að taka gífurlegan tíma Alþingis að afgr. þau mál. Alþingi deilir ekki um afgreiðslu fjárlaga. Það er venja, sem hefur haldist lengi, að afgreiða fjárlög áður en Alþingi fer í jólafrí, þó að nú sé með óeðlilegum hætti tekið til 2. umr. fjárlagafrv. þar sem þm. er almennt ekki gefinn kostur á að lesa þskj., eins og alltaf hefur verið.

Eitt er þó það mál sem ég vil gjarnan nefna nokkrum orðum. Það er lánsfjáráætlun og lánsfjárlög. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að nm. í fjh.- og viðskn. úr stjórnarandstöðuflokkum lýstu yfir að þeir væru fúsir til að leggja að sér við afgreiðslu þess máls í nefnd með það fyrir augum að hægt yrði að afgr. það fyrir áramót. Ég legg áherslu á að við sögðum „fyrir áramót“, en á milli jóla og nýárs eru þrír vinnudagar sem hægt er að nota. Ég tók þetta alveg sérstaklega fram á fundi og var það samviskusamlega bókað af skrifara fjh.- og viðskn. Nd. og við það verður staðið. Hitt tel ég mjög hæpið, ef á að gera hlé á störfum Alþingis á laugardag eða jafnvel á mánudag, að hægt verði að láta þetta mál fá eðlilega meðferð í fjh.- og viðskn.

Þau tíðindi gerðust á fundi nefndarinnar rétt áðan, að formaður nefndarinnar í Ed. taldi eiginlega enga þörf á því að ræða um tiltekin efnisatriði þessa frv. í nefndinni, það mætti gera þegar frv. kæmi inn í þingið. En þá verður líka horfið frá því loforði a. m. k. hvað mig snertir, sem gefið var í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég lít svo á að störf þingnefnda eigi að vera með þeim hætti að það eigi að fjalla um efnisatriði frv., en ekki að fara eftir því þó að mismunandi framhleypnir menn í formannsstörfum lýsi því yfir við nm. að þeir skuli þegja innan nefndar um málin, en megi aftur blása eitthvað þegar komið er í þingsalina. Þetta verður ekki til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála. Þegar ríkisstj. og þingmeirihluti hennar tefla fram slíkum mönnum til að afgr. mál er það ekki vísasti vegurinn til að ná samkomulagi um afgreiðslu mála. Við vitum að við deilum um afgreiðslu mála og höfum mismunandi skoðanir á málum, en við deilum ekki um það, stjórn og stjórnarandstaða, að ef við ætlum að afgr. mál, hleypa málum fram, þá gerum við það. En þá reyna allir aðilar að sýna samvinnulipurð við afgreiðslu máls. Þá reynir meira á stjórn en stjórnarandstöðu að sýna lipurð í samvinnu því í raun og veru ræður stjórnarandstaðan mjög miklu þegar knappur tími er. Ég vil því beina þeim tilmælum til hæstv. forsrh. og ríkisstj. í heild, að slík vinnubrögð verði tekin upp ef á að koma málum fram.

Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það hefði kannske ekki verið ástæða til, fyrst ekki er nema um þessi fjögur mál að ræða, að fara að ræða við stjórnarandstöðuna um þau. Tvö þeirra eru komin langt á veg. Allir hafa vitað að það yrði að afgreiða þau fyrir áramót. Það er engin andstaða við að fjárlög verði afgreidd. Það þykir stjórnarandstöðu jafnsjálfsagt og stjórninni. En lánsfjáráætlunin er eina málið sem vegna tímaskorts er mjög illt að afgreiða fyrir jól, en ætti að vera möguleiki að afgreiða fyrir áramót. Hitt er svo annað mál, að það hefur alltaf verið siður, og það ætti hæstv. forsrh. að vita sem búinn er að sitja á Alþingi meira en tvisvar sinnum lengur en nokkur annar sem hér er, að ríkisstj. á hverjum tímá ræði við stjórnarandstöðuna, hvenær þinghlé verði gert fyrir jól, og reyni að fá menn til samvinnu og samkomulags um það. Það er hægt að gagnrýna ríkisstj. fyrir að það hefur ekki verið gert þó að örfáir dagar séu eftir þess tíma sem hugsað er að þingið starfi fram að jólum.