14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

1. mál, fjárlög 1982

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma hér fram, að við störf fjh.- og viðskn. beggja deilda að frv. um fjárfestingar- og lánsfjármálefni hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar sýnt mikla sanngirni og samvinnulipurð í meðferð mála. Við höfum haldið þar langa fundi og menn lagt á sig mikið starf. Það er ekki undan neinu atriði að kvarta í þeim efnum. Ég vil þakka fyrir þá samvinnu sem þar hefur átt sér stað. Það er að vísu rétt, að smástund á fundinum í morgun varð smámisskilningur milli okkar Ísfirðinganna, sem í nefndinni sitjum tveggja. Við þurfum ekki aðstoð neinna ófriðarseggja úr Húnavatnssýslu, sem nú egna bændur til andstöðu við ýmsar tillögur, til að leysa þau mál. Það varð misskilningur sem stafaði af því, að hv. þm. Matthías Bjarnason misskildi orð mín eða ég hans. Þann misskilning leiðréttum við við fyrsta tækifæri. Ég vil svo að lokum vonast til þess, að við eigum áfram góða samvinnu um þessi mál og okkur takist að láta þau fá vandaða þinglega meðferð.