14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

1. mál, fjárlög 1982

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 181 stöndum við framsóknarmenn að því meirihlutaáliti. Ég get tekið undir það með hv. formanni fjvn. og frsm. meiri hl. sem hann sagði í framsögu hér í dag, þar sem hann gerði skilmerkilega grein fyrir nál., og ég tel ekki ástæðu til að ræða sérstaklega efnislega frv. eins og það liggur fyrir. En áður en ég kem að því, sem ég ætlaði að segja hér, vil ég að gefnu tilefni fullvissa hv. 6. landsk. þm. um, varðandi þær fsp. sem hann bar fram áðan til okkar þm. í stjórnarliðinu, sérstaklega til okkar þm. Framsfl., að við þm. Framsfl. erum með hæstv. viðskrh. í broddi fylkingar að vinna að því að jöfnun orkuverðs í landinu verði staðreynd. Við munum ekki hlaupa frá því verkefni.

Við fjárlagaafgreiðslu fyrir yfirstandandi ár, 1981, vakti ég athygli á nauðsyn þess að fjvn. kæmi meira inn í undirbúning fjárlagagerðar, fengi aðstöðu til þess, jafnframt því að taka ýmsar opinberar stofnanir til meðferðar, og rakti dæmi þessu til sönnunar. Að mínu mati tel ég þetta vera grundvallaratriði við fjármálastjórn ríkisins. Hæstv. fjmrh. gat þess við 1. umr. um fjárlagafrv., að á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar og ríkisendurskoðunar væri unnið að margs háttar hagsýsluverkefnum og nefndi þar til nokkrar stofnanir sem hafi verið til skoðunar, svo sem Þjóðleikhús, Sinfóníuhljómsveit, Orkustofnun o. fl. Þetta er vissulega spor í rétta átt og hefur skilað nokkrum árangri, en alls ekki hefur verið fylgt nægjanlega eftir einfaldlega vegna þess að framangreindir aðilar hafa ekki til þess nægjanlega góða aðstöðu og skipulag þeirra hamlar aðgerðum. Um þetta eru mörg dæmi.

Á s. l. sumri tók undirnefnd fjvn. til sérstakrar athugunar rannsóknarstofnanir atvinnuveganna, en þessar stofnanir eru allar mjög þýðingarmiklar fyrir atvinnuvegina og þjóðarbúið í heild. Þær stofnanir, sem undirnefnd fjvn. skoðaði sérstaklega, voru Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnarins, Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Ég er ekki í vafa um að þessi vinna undirnefndar var á margan hátt nauðsynleg. Var það sameiginlegt álit nefndarinnar og forustumanna viðkomandi stofnana að verkefnaval ætti að ráða umfangi þessara þýðingarmiklu rannsóknastofnana atvinnuveganna og miða þá við þau verkefni sem eru mikilvægust fyrir þjóðarbúið hverju sinni. Þannig nýtist það fjármagn, sem til þess er hægt að verja hverju sinni, á jákvæðan hátt. Undirnefnd fjvn. lét lagfæra í fjárlagafrv. nokkur veigamikil atriði fyrir þessar stofnanir, áður en það var lagt fram, á grundvelli þessara athugana. Þessu þarf að halda áfram í samvinnu við Rannsóknaráð ríkisins.

Ég nefni þetta hér og nú vegna þess að ég tel að þörfin fyrir meira starf Alþingis á þessu sviði sé mjög mikil. Það grípur inn á það svið, sem oft hefur verið rætt við afgreiðslu fjárlaga, að Alþingi þarf í fyrsta lagi að hafa aðstöðu til að fylgjast með gerð fjárlaga og í öðru lagi, sem er mikilvægast, að fylgjast með hvernig fjárveitingum Alþingis er varið. Í efnahagslögum nr. 13, svokölluðum Ólafslögum, stendur í 12. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisendurskoðun skal fylgjast með framkvæmd fjárlaga í umboði Alþingis.“ — Í sömu efnahagslögum er, eins og hv. alþm. er kunnugt, kveðið á um hvernig unnið skuli að fjárlagagerðinni. Þar með eru stjórnvöld skylduð til að leggja lánsfjáráætlun fram með fjárlögum. Jafnframt er skilgreint í þessum lögum hlutverk hagsýslustofnunar og ríkisendurskoðunar. Með þessu ákvæði var stefnt að meiri og nákvæmari vinnu við fjárlagagerðina en áður var. M. a. á hlutverk ríkisendurskoðunar að verða mjög afgerandi.

Undirnefnd fjvn. taldi nauðsynlegt að fá að heyra allt ríkisendurskoðunar á því, hvernig þetta ákvæði 12. gr. Ólafslaga hefði verið í framkvæmd. Það var vissulega fróðlegt að heyra hvernig fulltrúi ríkisendurskoðunar túlkaði þetta atriði, en jafnframt hversu erfitt það virðist vera að hans mati að ná til sumra ríkisstofnana í raunverulega endurskoðun. Það kom fram, að ríkisendurskoðun telur eðlilegt að hún heyri beint undir Alþingi, en samkv. gildandi lögum heyrir hún beint undir fjmrh. Þetta setur ríkisendurskoðun miklar skorður og torveldar í raun og veru vinnutilhögun við öflun þeirra upplýsinga sem Alþingi — í þessu tilfelli fjvn. — ætti að láta ríkisendurskoðun afla varðandi opinberar stofnanir eða fjárveitingu til þeirra og opinberra framkvæmda.

Það er að mínu mati nauðsynlegt að ríkisendurskoðun starfi við hlið hagsýslustofnunar. Þannig hlytu að fást miklu raunhæfari upplýsingar um ríkisfjármálin. Mitt mat er það, að mikið skorti á að ríkisendurskoðun og fjárlaga- og hagsýslustofnun vinni saman. Milli þessara mikilvægu stofnana ríkisfjármála eru mjög lausleg tengsl, svo ekki sé meira sagt. Þessu þarf að breyta. Ég minni á þetta nú við afgreiðslu fjárlaga. Ég tel að Alþingi og þá ekki síst fjvn. þurfi á stofnun að halda eins og ríkisendurskoðun á að vera við fjárlagagerðina og ekki síst við upplýsingaöflun um meðferð fjárveitinga til opinberra framkvæmda og stofnana sem slíkra.

Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur vissulega unnið sífellt og með vaxandi þunga að því að gera fjárlagagerðina marktækari með meiri kröfugerð á hendur stofnana um nákvæmari upplýsingar um fjárbeiðnir. Samt sem áður er ljóst að aðkallandi er að ýmsar stofnanir séu teknar til sérstakrar úttektar. Það blasir við að verkefni sumra stofnana rekast á, aðilar eru raunar að vinna að sama verkefninu. Þetta rekum við okkur oft og mörgum sinnum á við fjárlagagerðina. Þessu þarf að breyta. Það er allt of mikil sjálfvirkni í útþenslu á mörgum opinberum stofnunum. Hér er verk að vinna sem Alþingi með stuðningi ríkisendurskoðunar þarf að fara rækilega ofan í. Þetta tekur að vísu langan tíma, en eftir því sem það er dregið verður málið erfiðara í meðferð.

Ég gæti nefnt mörg dæmi um hversu augljós þörfin er að farið sé ofan í þessi mál. Eins og fram kemur í fjárlagafrv. eru útgjöld til tryggingamála 2071 millj. kr. eða yfir 207 milljarðar kr., en þau eru fyrirferðarmest allra ríkisútgjalda. Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins kom á fund fjvn. og óskaði eftir hækkun til trygginganna upp á 303 millj. kr. sem hann taldi að vantaði til þess að hægt væri að reka tryggingarnar með eðlilegum hætti. En það, sem var alvarlegast við þessa hækkunarbeiðni, var sú blákalda staðreynd, að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, þessarar stærstu stofnunar í opinberum rekstri, viðurkenndi að hann hefði alls ekki möguleika á að upplýsa um raunverulega fjárhagsstöðu tryggingakerfisins, t. d. frá mánuði til mánaðar, þar sem kerfið væri það seinvirkt í uppgjöri. M. a. væru öll sjúkrasamlög í landinu „á floti“ í þessu efni, eins og hann orðaði það. Og hvað hafði hann til ráða í sambandi við þetta stóra fyrirtæki? Það þurfti að hans mati að setja upp fullkomið tölvukerfi í þetta mikla bákn, leggja niður sjúkrasamlögin í landinu, breyta húsaskipan stofnunarinnar o. s. frv. Tryggingastofnun ríkisins er ein þýðingarmesta stofnun í ríkiskerfinu, en er bákn sem augljóst er að hefur vaxið sjálfkrafa yfir höfuð stjórnenda. Fjvn. hækkaði framlag ríkisins til rekstrar stofnunarinnar um 67 millj. kr. í stað 303 millj., sem stofnunin telur sig þurfa.

Það væri vissulega freistandi að nefna margar opinberar stofnanir í þjóðfélagskerfi okkar sem augljóslega er þörf á að séu teknar til rækilegrar meðferðar og skipulagðar upp á nýtt við breyttar aðstæður. Ég er ekki í vafa um að hægt væri að ná fram miklum sparnaði og lækka útgjöld ríkisins stórlega ef það væri gert.

Ég vil undirstrika að ég tel nauðsyn bera til að Alþingi taki þetta mál fastari tökum. Það kemur vissulega vel til greina að fela fjvn. ákveðnara hlutverk og skapa henni aðstöðu til þessa verkefnis.

Árangur af góðri stjórnun ríkisstofnana lætur ekki á sér standa. Við höfum fylgst með hvernig fjárhagsstaða ríkisútvarpsins hefur stórbreyst á tiltölulega stuttum tíma. Þar hefur farið saman góð stjórnun og ákveðinn vilji til að bæta og hagræða rekstri. Stjórnendur þessarar stofnunar ná yfir verkefni sín, vita hvernig fjárhagurinn stendur og hvað má gera, og það gerir þeim kleift að rökstyðja sínar áætlanir og fjárþarfir á sannfærandi hátt.

Margar aðrar S-hluta stofnanir eru vissulega á réttri braut hvað varðar hagræðingu í rekstri. Ég nefni Vegagerð ríkisins, Póst og síma, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkustofnun. Samt sem áður hef ég þá skoðun, að í þessum stofnunum öllum sé þörf á að gera betur, yfirbygging þeirra sé of stór.

Ég tel ástæðu til að nefna hér skerðingu framlaga til stofnlána- og fjárfestingarsjóða. Eins og hv. alþm. er kunnugt þarf árlega lagabreytingu, þ. e. lánsfjárlög, vegna þess að gengið er gegn lögum um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna þar sem ekki er talið fært að fullnægja þessari lagaskyldu. Þar stendur upp á Alþingi að taka þessi mál til meðferðar.

3. júlí 1980 skilaði stjórnskipuð nefnd áliti til fjmrh. um þessi mál. Samkv. skipunarbréfi nefndarinnar var verkefni hennar þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin sem skipuð var til að athuga og endurskoða ákvæði laga sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, sbr. 8. gr. laga nr. 13 1979, um stjórn efnahagsmála o. fl., sbr. og bréf fjmrn. dags. 31. ágúst 1979.“

Þessi nefnd skilaði nál. sem er um margt athyglisvert. Mér finnst fullkomin ástæða til þess við 2. umr. fjárl. fyrir árið 1982 að lesa hér kafla úr nál., en ég geri það einnig vegna þess að þessi nefnd var stjórnskipuð með sérstökum hætti. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkunum, þ. e. Halldór E. Sigurðsson, Helgi Seljan, Matthías Á. Mathiesen og Sighvatur Björgvinsson. Það er rétt að geta þess, að hér er um þrjá fyrrv. fjmrh. að ræða. En þeir segja svo um þetta endurskoðunarverkefni, með leyfi hæstv. forseta:

„Þau sjónarmið, sem bjuggu að baki gildandi lagafyrirmælum, skyldu vera hagkvæmari en önnur fjárfestingarlán. Af þessum sökum var talið brýnt að eigið fé þeirra sjóða, er stofnlán veittu, yrði að minnsta kosti verulegur hluti þess fjármagns sem þeir lánuðu, en síður að um endurlán væri að ræða. Samfara verðlagsþróun undanfarinna ára hafa stofnlánasjóðir, þrátt fyrir það sem að framan segir, orðið að taka verulegan hluta af ráðstöfunarfé sínu að láni og þó einkum hjá Framkvæmdasjóði Íslands. Þessi lán, sem ýmist eru verðtryggð eða gengistryggð, hafa þeir síðan endurlánað. Ákvarðanir á útlánakjörum sjóðanna hafa að sjálfsögðu í æ ríkari mæli tekið mið af þeim lánskjörum sem sjóðirnir þurfa að hlíta sjálfir og er nú svo komið að útlán þeirra eru að fullu verð- og gengistryggð. Þessar breytingar hafa leitt til þess, að sjónarmið þau, sem bjuggu að baki lagaákvæðum um tekjur sjóðanna, og þá einkum um óafturkræf framlög ríkissjóðs, hafa minna gildi en áður þar sem eiginfjárstaða sjóðanna ætti að verða að miklu leyti trygg með fullri verðtryggingu útlána þeirra. Þetta atriði, ásamt því að æskilegt er að fjárveitingavaldið hafi frjálsari hendur til fjárveitinga til sjóðanna en nú er, mælir fyrst og fremst með því að breytingar verði gerðar á gildandi löggjöf um framlög ríkissjóðs til stofnlánasjóða.“

Og í niðurlagi álitsins segja þessir aðilar að í meginatriðum felist brtt. nefndarinnar í eftirfarandi atriðum: „Ákvæði um föst framlög ríkissjóðs til stofnlánasjóða verði í flestum tilfellum felld niður. Dregið verði úr skyldu ríkissjóðs til mótframlaga við aðra aðila sem leggja fram fé til sjóðanna, en þar er oftast um beina hagsmunaaðila að ræða. Enn fremur verði skert og afnumin hlutdeild sjóðanna í tekjum af mörkuðum tekjustofnum, sé um þá að ræða, og þeir, sem veigalitlu hlutverki gegna, verði felldir niður eða sameinaðir í sjóði sem hliðstæðu hlutverki gegna.

Í þessu sambandi skal á það bent, að gildi hinna mörkuðu tekjustofna er mjög mismunandi. Margir þeirra gefa af sér tiltölulega litlar tekjur og skipta í raun ekki grundvallarmáli fyrir þær stofnanir sem þeirra njóta. Því leggur nefndin til að mörkun sumra þeirra verði felld niður, en ákvörðun um fjárframlög til þeirra stofnana, sem nú njóta m. a. tekna af þessum tekjustofnum, verði alfarið falin Alþingi við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni.“

Ég vil endurtaka hér, að það, sem var merkilegt við þetta nál. að mínu mati, er fyrst og fremst að það eru fulltrúar flokkanna sem vinna þetta verk og gera þessa ályktun, og það sem meira er, að það eru þrír fyrrv. fjmrh. sem skrifa undir þetta nál., Halldór E. Sigurðsson, Matthías Á. Mathiesen og Sighvatur Björgvinsson, auk Helga Seljans.

Það má vissulega deila um niðurstöðu nefndarinnar en að mínu mati er augljóst að ekki verður lengur frestað að taka málið til afgreiðslu. Ákvörðun gæti í sumum tilfellum gert fjárlagagerðina raunhæfari jafnframt því að sérstaða ákveðinna sjóða yrði viðurkennd og staða þeirra gerð sterkari.

Þegar við athugum þessa opinberu sjóði hafa þeir oft verið hér til umræðu. Þetta eru margir hverjir góðir sjóðir sem við viljum gjarnan vernda og teljum að hafi mikilvægu hlutverki að gegna fyrir þjóðfélagsuppbyggingu okkar. Ég nefni Byggðasjóð, Félagsheimilasjóð, Fiskveiðasjóð, Iðnrekstrarsjóð. Skerðing þeirra hefur verið á undanförnum árum mjög mikil. Ef við tökum dæmi um skerðingu ríkissjóðs til stofnlána- og fjárfestingarsjóða reiknaða á föstu verðlagi í sambandi við þetta frv. kemur m. a. í ljós að Fiskveiðasjóður hefur verið skertur um 21.7 millj., Félagsheimilasjóður um 3.1 millj. og Byggðasjóður um 32 millj. Ég er ekki að segja með þessum orðum að ekki sé eðlilegt að þessir sjóðir hafi verð skertir að einhverju leyti. Það, sem mér finnst neikvætt í þessu máli, er að Alþingi skuli láta dragast ár eftir ár að taka ákvörðun um hvort þessum lögum eigi að breyta og hvort ekki sé eðlilegt að færa þessa sjóði í ákveðnara form, annaðhvort með því að fella suma þeirra niður eða styrkja stöðu annarra.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns ætla ég ekki að ræða efnislega fjárlagafrv., enda stöndum við að afgreiðslu þess og því meirihlutaáliti sem hér liggur fyrir. Enn fremur get ég vísað til ítarlegrar ræðu hæstv. viðskrh. við 1. umr. fjárlaga um afstöðu Framsfl. til frv. í heild.

Samvinna í fjvn. hefur verið mjög góð að vanda og málin vandlega skoðuð og rædd. Ég vil þó sérstaklega nefna tvö atriði af fjölmörgum sem við fulltrúar Framsfl. í nefndinni lögðum mikla áherslu á að fengju viðunandi afgreiðslu. Það er í fyrsta lagi lagning sjálfvirks síma. Í lögum nr. 32 1981, um lagningu sjálfvirks síma, sem samþ. voru á s. l. vori, stendur í 3. gr.:

„Póst- og símamálastofnun er heimilt að taka lán, allt að 20 millj. kr. árlega í 5 ár, til fjármögnunar framkvæmda samkv. 1. gr. Lántökuheimild þessi skal breytast í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu.“

Og í 2. gr.: „tæki og búnaður til lagningar og uppsetningar sjálfvirks símasambands, samkv. áætlun þeirri sem gerð verður, sbr. 1. gr., skulu undanþegin aðflutningsgjöldum og söluskatti við innflutning.“

Til að halda verðgildi framkvæmda á árinu 1982 þurfti fjárhæð í fjárlögum og lánsfjáráætlun að hækka í 34.2 millj. kr. það er 3.2 millj. hækkun. Um þetta varð samkomulag í nefndinni. Jafnframt var samþ. að fjmrh. væri heimilt að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af sjálfvirkum símstöðvum sem fluttar eru inn á vegum Póst- og símamálstofnunarinnar. Þetta er mjög mikilvægt mál að okkar mati og mun tryggja framkvæmd 5 ára áætlunar um lagningu sjálfvirks síma um landið, en fjárfesting og framkvæmdir Pósts og síma munu verða um 124 millj. kr. á árinu 1982 í stað 54 millj. á yfirstandandi ári.

Hitt málið, sem ég nefndi sérstaklega, er bygging íþróttamiðstöðvar á Laugarvatni. Samkomulag varð um 4 millj. kr. fjárveitingu á árinu 1982 til byggingar íþróttahúss Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Fyrir var 1 millj. í fjárlögum þessa árs. Jafnframt er ákveðið að bjóða verkið út næsta vor, þ. e. að gera bygginguna fokhelda í einum áfanga sem yrði lokið 1983, og þar með í opinberum verksamningi fyrir fram bundin fjárveiting 1983 til verksins, en kostnaðarverð þess áfanga er á verðlagi næsta árs áætlað um 8 millj. kr. Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna úrslitum þessa máls sem er mjög þýðingarmikið ekki aðeins fyrir skólana á Laugarvatni, heldur fyrir allt íþróttastarf í landinu.

3. umr. bíða ýmis mikilvæg mál ýmissa stofnana. Ég nefndi Vegagerð ríkisins, vegaframkvæmdir samkv. vegáætlun og samþykktri þál. um hækkun vegaframkvæmda í 2.2% af vergri þjóðarframleiðslu. Við framsóknarmenn leggjum höfuðáherslu á að staðið verði við þetta atriði við afgreiðslu fjárlaga. Það er grundvallarmál. Jafnframt þarf sérstaka afgreiðslu vegna verkefna við hina svokölluðu Ó-vegi.

Málefni Háskóla Íslands eru í brennidepli. Ljóst er að ekki hefur verið tekið fullt tillit til fjölgunar háskólanemenda við fjárlagagerðina. Þetta þarf að leiðrétta. Jafnframt þarf að tryggja viðhald eða endurbyggingu stúdentagarðanna, sem lokið er fyrir nokkru á Gamla Garði, en Nýi Garður er ekki mönnum bjóðandi í því ástandi sem húsið er í. Það höfum við fengið að sjá.

Þá eru ýmsir þættir landbúnaðarmála óafgreiddir svo og byggðalínur.

Rekstur löggæslunnar í landinu er í miklum vanda, virðist vera eitt af þeim málefnum í opinberum rekstri sem sprengir sjálfvirkt allar fjárhagsáætlanir. Hér er um að ræða mál sem verður að taka föstum tökum. Útþenslu löggæslukostnaðar hlýtur að verða að setja vissar skorður. Þetta er eitt af dæmum um stofnanir, sem ég nefndi í byrjun míns máls og er vissulega nauðsynlegt að skoða vandlega. Þetta er vandasamt mál. Vissulega eru gerðar miklar kröfur og vaxandi til löggæslunnar í landinu og dómsmála yfirleitt. En einmitt þess vegna tel ég vera mjög áríðandi að það sé tekist á við þennan vanda og reynt að finna lausn á honum svo að kostnaður hækki ekki eins sjálfvirkt og komi ekki eins aftan að öllum fjárskuldbindingum og nú virðist vera.

Rekstur tónlistarskóla, akstur skólabarna og jöfnun námskostnaðar eru meðal mála sem er eftir að afgreiða, en hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélög og fólk í dreifbýli þessa lands.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar ýmsa þætti fjárlaganna þó það væri vissulega freistandi eftir að vera búinn að vinna við þetta í langan tíma. Við framsóknarmenn höfum lagt okkur fram um að vinna við fjárlagagerðina með tilliti til þeirra meginforsendna sem koma fram í athugasemdum fjárlagafrv. og að ekki yrði raskað því markmiði að afgr. fjárlög án greiðsluhalla. Jafnframt er okkur að sjálfsögðu ljóst að efnahagshorfur eru slíkar að fjárlög næsta árs gætu raskast verulega. Samt sem áður tel ég að þessi fjárlög með breytingum fjvn. séu nær því en oft áður að vera raunhæf fjárlög. Minna er um óvissuþætti og tekist hefur að auka verulega framkvæmdaframlög, sem hækka milli 40–60%.

Fram undan eru mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum ef tryggja á lífskjör þjóðarinnar. Það væri vissulega skammsýni og um leið þjóðarógæfa ef landsmenn gerðu sér ekki fulla grein fyrir þeirri staðreynd, að kröfurnar um lífsgæðin verður að byggja á þeirri verðmætasköpun, sem atvinnuvegir lands okkar eru færir um, og því markaðsverði sem í boði er. Við erum háðari utanríkisviðskiptum en flestar nágrannaþjóðir okkar. Það þarf engum að koma á óvart að ráðstafanir í efnahagsmálum til að ná jákvæðum árangri við núverandi aðstæður segi til sin í daglegu lífi allra landsmanna. Full verðtrygging peninga kalla á ný viðhorf í viðskiptum. Meira aðhald og sparnaður í atvinnurekstri verða að koma til, meiri og nákvæmari hagræðing, meiri framleiðni og miklu, miklu meiri vöruvöndun. Öll þessi mál þarf að ræða af fullri hreinskilni fyrir opnum tjöldum. Ríkisstj. ræðir efnahagsvandann og leiðir til að ná fram því markmiði sem allir eru sammála um að hljóti að vera aðalmál: að ná niður verðbólgunni. Þjóðin ætlast til þess, að ríkisstjórn og alþingismenn geri ráðstafanir sem tryggi lífskjörin í landinu. Til þess þarf að vinna bug á verðbólgunni og koma í veg fyrir afleiðingar hennar.

Ég vil að lokum þakka formanni fjvn., fjvn.-mönnum og starfsmönnum hagsýslustofnunar fyrir ágætt samstarf og ánægjulega samvinnu í fjvn. Hvað sem við segjum um þessi fjárlög og um efnahagsástandið almennt er það von mín og raunar vissa, að þessi fjárlög marki tímamót til framfara í landinu.